Að vera með sjálfum sér

Valgeir Magnússon auglýsingamaður er hættur að vera með eitthvað í …
Valgeir Magnússon auglýsingamaður er hættur að vera með eitthvað í eyrunum. Ljósmynd/Samsett
Valgeir Magnússon auglýsingamaður skrifar um kúnstina að vera einn með sjálfum sér 
í nýjasta pistli sínum. 

Þar sem bý að hluta til í Oslo og vinn þar er ég oft einn á kvöldin. Silja konan mín, börnin og barnabörnin búa öll á Íslandi. Ég varð smám saman háðari símanum og iPad-inum. Í hvert sinn sem ég var einn í þögn, tók ég upp annaðhvort tækið og tékkaði hvort eitthvað hefði breyst á fréttamiðlunum, LinkedIn og Snapchat. Ég er sem betur fer ekki til á Facebook og Instagram og hef aldrei verið. En venjulega hafði ekkert breyst frá því ég kíkti síðast, 2–3 mínútum fyrr. Ég setti á podcast eða fór í tölvuleik. Í flugi (ég flýg mikið) var ég kominn með mynd á skjáinn um leið og ég gat. Allt til að vera ekki einn með sjálfum mér í þögninni.

Ég hitti fyrir nokkrum árum Martin Lindstrom. Martin er einn mesti snillingur heimsins í markaðsrannsóknum og mannlegri hegðun. Hann var á Íslandi að halda fyrirlestur á vegum Jóns Gunnars Geirdal sem bauð okkur báðum í læri heim til mömmu sinnar. Við áttum saman kvöldstund þar sem við töluðum um margt og ég tók eftir því að hann var með gamlan Nokia takkasíma. Hann sagði að hann hefði fyrir löngu lagt snjallsímanum sínum þar sem öll sköpun hefði horfið um leið og hann fór að nota þannig tæki. Nú notar hann símann aðeins til að tala í. „Okkur verður að leiðast til að fá hugmyndir. Ef okkur leiðist aldrei, þá fáum við aldrei neinar hugmyndir,“ sagði hann og nú mörgum árum seinna áttaði ég mig á því að ég var orðinn smeykur við að láta mér leiðast.

Ég byrjaði að setja sjálfum mér mörk og venja mig af þessu. Allavega að hætta að kíkja endalaust á netið. Ég byrjaði á að hafa ekkert í eyrunum í strætó eða þegar ég var að labba eða hjóla í vinnuna (almenningssamgöngur eru mjög góðar í Oslo, sem er líklega efni í aðra grein). Strax við það þá byrjaði heilinn í mér að virka öðruvísi. Ég var einn með hugsunum mínum og hugmyndir byrjuðu að flæða. Ég meira að segja geng svo lagt hér í Oslo að ég er ekki með sjónvarp í íbúðinni, Silju til mikillar mæðu þegar hún kemur í heimsókn. En við þetta breyttist ansi margt. Ég byrjaði aftur að skrifa pistla og dægurlagatexta (svo má deila um hvort það hafi verið til góðs). Hugmyndir fyrir viðskiptavini Pipar\TBWA fæddust á öllum tímum og mér leið mun betur. Bara í göngutúr í gærkvöldi fæddust tvær góðar hugmyndir fyrir viðskiptavini og þennan pistil er ég að skrifa í flugvél í stað þess að horfa í þátt.

Á nokkrum vikum eftir breytingar, geng ég og hjóla enn meira þar sem sumarið er komið í Oslo. Það eru ansi margir aðrir úti að ganga í góða veðrinu og eflaust nokkrir eins og ég sem vilja ná af sér einu eða fleiri kílóum. Þá hef ég tekið eftir því að nánast allir sem ég mæti eru með eitthvað í eyrunum, talandi við einhvern eða starandi á símann sinn. Það fékk mig til að hugsa um að líklega eru allir stöðugt að forðast sjálfan sig. Við kunnum ansi mörg ekki lengur að vera ein með hugsunum okkar. Við eru alltaf í stöðugu sambandi, sama hvar við erum eða hvað við erum að gera. Fólk keyrir á milli staða og hringir í einhvern á meðan. Það situr í strætó og talar við einhver á messanger og þeir sem enn reykja skreppa í smók og hringja í einhvern á meðan til að reykja ekki einir.

Nú síðustu viku hef ég mætt einni manneskju úti að ganga sem ekki var með neitt í eyrunum eða að nota símann sinn á einhvern hátt á meðan. Nema sú manneskja sé að ganga með einhverjum öðrum.

En er það svo leiðinlegt að vera einn með hugsunum sínum? Mín reynsla er sú að það er alls ekki þannig, en það getur verið óþægilegt að sitja einn innan um fullt af fólki sem er með í eyrunum og stara út í loftið. Það er líka miklu auðveldara að grípa í hækjuna sem síminn er og ná sér í smá fjarveru. Þó ekki nema í eina mínútu sem maður á óráðstafað. En ef maður hefur það af og lætur hugann reika, þá líða ekki nema nokkrar sekúndur áður en heilinn fer á flug og allt fjörið byrjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda