„Þegar hann er virkur er það alveg skelfilegt. Þegar hann er að spila þá er þetta alveg hræðilegt,“ segir Rúrí Eggertsdóttir í viðtali í hlaðvarpsþættinum Spilavandi. Rúrí er aðstandandi spilafíkils og segir hún reynslusögu sína, bæði frá tímabilum þar sem sambýlismaður hennar var virkur spilafíkill og einnig óvirkur og í bata.
Rúrí kynntist sambýlismanni sínum í desember árið 2011. Hann opnaði sig strax um spilafíknina við Rúrí en hún gerði sér enga grein fyrir því þá hvers konar fíkn þetta væri. Tók sjúkdóminn í raun ekki alvarlega.
„Þetta var bara miklu stærra og meira en ég átti von á. Ég eiginlega vissi ekki að þetta væri til. Mér fannst þetta peningaeyðsla en ég var viss um að þetta væri eitthvað einfalt fyrst.“
Fyrstu árin fann Rúrí ekkert fyrir spilafíkninni, allt fram til ársins 2015.
„Þá fyrst kemst ég að því að hann hafi spilað og eytt slatta af peningum. Þá fóru að renna á mig tvær grímur með þetta,“ segir Rúrí og heldur áfram. „Auðvitað er þetta fyrst rosa áfall og hræðilegt að sjá peningana sem fara í þetta og að maður sé búinn að tapa fullt sem var hægt að eyða í eitthvað skemmtilegra,“ bætir Rúrí við, en sambýlismaður hennar spilaði fyrst um sinn eingöngu í spilakössum. Árið 2019 hætti hann að spila og var frá spilamennsku í næstum því tvö ár. Enn var Rúrí ekki alveg búin að átta sig á fíkninni og var í ákveðinni afneitun.
„Áður en hann fellur er ég farin að fá alls kona hnúta og innri tilfinningu sem segir mér að þetta sé ekki í lagi,“ segir Rúrí. Á þessum tímapunkti gekk hún á sambýlismanninn en hann neitaði því staðfastlega að vera að spila. Svo var það um jólin árið 2020 sem hún komst að því sanna.
„Jólin eru að koma og við eigum engan pening. Mér finnst þetta skrýtið því hann var kominn með fínt lánstraust á þessum tíma. Ég reddaði yfirdrætti og við héldum þessi jól en síðan lagast ekkert. Ég fæ loksins að sjá símann hans og opna alla hans reikninga. Þá kemst ég að því að hann er búinn að opna reikning í Landsbankanum líka og búinn að taka öll smálán sem hann gat fengið. Svo sagði hann mér að hann hefði beðið mömmu sína um pening og hún hefði látið hann fá fullt af peningum. Þetta var gífurlegt áfall því að ég og hún vorum búin að gera með okkur samkomulag að láta hvor aðra vita.“
Rúrí segist sjá miklar persónuleikabreytingar á sambýlismanni sínum þegar hann er virkur í spilafíkninni.
„Hann verður ólíkur sér sjálfum þegar hann er virkur. Ægilegur brandarakarl og allt svo geggjað,“ segir hún. En hvaða áhrif hefur ástandið á hana?
„Ég skil stundum ekki hvað ég er. Ég græt. Ég verð reið og sár. Einmitt líka þegar ég veit að hann er að spila en hann neitar stöðugt. Það étur mig að innan. Þetta fer alveg með mann. Ég byrja að hafa áhyggjur. Hvað er ég að gera í þessu samband? Hvað er ég að láta hafa mig af fífli aftur og aftur? Á tímabili hélt ég að ég væri að gera eitthvað rangt sem væri að láta hann spila. Ég var farin að skammast mín. Ég hlyti bara að vera hundleiðing eða gera honum lífið erfitt,“ segir hún og heldur áfram. „Maður fer sjálfur að fela í meðvirkni með fíklinum. Ég upplifi líka svolítið þarna að ég fór í svo mikla afneitun. Ég vissi innst inni að hann væri að spila. Það voru endalausar rauðar viðvörunarbjöllur en ég hlustaði ekki á þær. Af því kannski líka að ég vildi ekki ganga í gegnum þetta aftur. Betra bara að loka augunum. Sjá þetta ekki. Á meðan við höfðum í okkur og á þá gat ég blokkað þetta. Þetta er mjög erfitt. Algjör tilfinningarússíbani.“
Sambýlismaður Rúríar er búinn að vera frá spilamennsku í tæp tvö ár. Í dag segist hún geta rætt sínar tilfinningar á mun opinskárri hátt við hann og að feluleiknum sé lokið. Rúrí treystir innsæinu í dag og gengur á sinn mann ef hana grunar eitthvað misjafnt.
„Þegar maður er svona lengi með spilafíkli þá fer maður að læra inn á taktíkina og breytt hegðunarmynstur. Aðstandendur finna þetta um leið. Áður en spilafíkillinn áttar sig á þessu. Hann er með mjög góðan sponsor sem ég get leitað til ef ég er komin með áhyggjur. Ég er líka farin að treysta sambýlismanni mínum meira. Hann hefur hjálpað mér í gegnum þetta því hann er opinn með þetta í dag. Og sem betur fer gleymir maður þessu vonda. Það snjóar yfir það.“
Rúrí reyndi að halda úti fundum fyrir aðstandendur spilafíkla um tíma en þátttakan var dræm. Henni finnst aðstandendur oft tala spilafíkn niður og langar að þeir verði sýnilegri.
„Mér finnst aðstandendur oft hugsa að þetta sé ekki alveg eins slæmt og að vera í dópi eða áfengi, en í spilafíkn fljúga miklu hærri upphæðir. Þetta er mjög dýr fíkn. Þú dópar ekki fyrir milljón á tíu mínútum. Þetta er líka faldari sjúkdómur og miklu auðveldara að leyna honum. Með aðra fíkn, til dæmis eiturlyf eða áfengi, þá finnurðu það á lyktinni, þú sérð það í augunum á fólki. Spilafíkninni geturðu leynt svo lengi,“ segir Rúrí. Hún styður það heilshugar að loka spilakössum og myndi hreinlega vilja gera þá ólöglega.
„Ég hef heyrt umræðuna um að fólk spili þá bara á netinu en ef þú ert gjaldþrota þá geturðu ekki spilað á netinu, en þú getur alltaf fengið aur í kassana. Þú getur reddað klinki eða safnað dósum. Það er svo auðvelt að halda fíkninni gangandi ef spilakassar eru alls staðar.“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan og einnig er hægt að hlusta á alla þættina inn á www.spilavandi.is