„Verðurðu kvíðinn og þunglyndur vegna spilavandans?“

Daníel Þór Ólafsson hefur rannskað spilafíkn og segir sterkt tengsl …
Daníel Þór Ólafsson hefur rannskað spilafíkn og segir sterkt tengsl vera á milli spilavanda og áfengis- og vímuefnaneyslu. Ljósmynd/Samsett

„Rannsóknir á spilafíkn í heiminum á sér stutta sögu. Það má í raun segja að fyrir alvöru fóru menn að fást við rannsóknir á þessu upp úr árinu 1985,“ segir Dr. Daníel Þór Ólafsson, prófessor í sálfræði, í viðtali í hlaðvarpsþættinum Spilavandi. Í þættinum ræðir Daníel niðurstöður rannsókna á spilafíkn, algengi spilafíknar á Íslandi, spilakort og áhrif og afleiðingar spilafíknar.

Daníel hefur verið að fást við rannsóknir á spilavanda og spilafíkn síðustu tuttugu árin. Daníel var nýkominn úr doktorsnámi við háskólann í York í Bretlandi fyrir tveimur áratugum og fékk áhugavert atvinnutilboð. Honum var boðið að taka við stöðu aðjúnkt við sálfræðideild Háskóla Íslands, sem kostuð var af Happdrætti Háskóla Íslands, og hefði það verkefni að rannsaka spilavanda og umfang hans á Íslandi. Um þriggja ára samning var að ræða.

„Ég hafði aldrei tekið eftir spilakassa. Þetta var ekki hluti af mínu umhverfi,“ segir Daníel. Um leið og hann þáði stöðuna byrjaði hann hins vegar að sjá „spilakassa úti um allt.“ Á þessum þremur árum gerði Daníel tvær rannsóknir á unglingum og eina stóra faraldsfræðilega rannsókn á fullorðnum.

„Ég lagði upp með þrjár lykilspurningar sem við þyrftum að vita; í fyrsta lagi hvað eru margir sem stríða við spilavanda á Íslandi? Er hann ólíkur eftir hópum? Í annan stað vildi ég líka reyna að átta mig á því hvað er það sem útsetur fólk fyrir að ánetjast spilum? Er það eithvað sem býr í fólki? Er munur á lottó og spilakassa? Í þriðja lagi að komast að virkum forvörnum og breiða þetta út innan heilbrigðiskerfisins. Það hefur ekki orðið mikið úr því,“ segir Daníel. Þegar þessum þriggja ára samningi lauk fékk Daníel stöðu við sálfræðideild Háskóla Íslands. Síðan þá hafa rannsóknir á spilavanda verið hluti af hans störfum og eru þriðjungur af hans rannsóknum um spilavanda og spilafíkn.

„Við þurfum ekki endilega að gera allar tegundir rannsókna hér á landi. Það er margt sem heimfærist. Margt af því sem við erum að sjá í rannsóknum erlendis getum við dregið þá ályktun að mætti ætla að það sé áþekkt hér,“ segir Daníel og bendir á að algengi spilavanda í Bretlandi til dæmis sé svipað og sést hér á landi, en Bretar hafa oft verið kallaðir veðmálaþjóð.

Daníel komst að því í rannsóknum sínum á Íslandi að unglingar virtust vera útsettari fyrir því að ánetjast en fullorðnir. Algengi spilavanda meðal unglinga á árunum 2003 til 2009 voru 2 til 3%. Tæplega helmingur þeirra unglinga sem áttu við spilavanda að stríða skimuðust fyrir athyglisbrest og ofvirkni. Þá eru einnig sterkt tengsl á milli spilavanda og áfengis- og vímuefnaneyslu. Daníel segir mikilvægt að skimað sé fyrir spilavanda á ákveðnum skoðum, til dæmis innan geðheilbrigðiskerfisins. Hann segir ótvírætt að áhrif spilavanda séu slæm.

„Eins og með þunglyndi og kviða og þessar geðrænar hliðar spilavandans; hvort kemur á undan? Verðurðu kvíðinn og þunglyndur vegna spilavandans? Það er ýmislegt sem fylgir spilavanda; gríðarlegt fé sem fer forgörðum, samskipti við og skyldur þínar við þína nánustu sem brotna og svo framvegis. Það er eðlilegt að það valdi þér þungum þönkum eða valdir þér miklum kvíðum,“ segir Daníel og bætir við. „Þegar þú er kominn fyrir framan spilakassa þá er það „timeout“ og á meðan gleymirðu áhyggjum hversdagsins. Kvíði og þunglyndi getur ýtt þér í þetta sem eykur á vanlíðan þegar að frammí sækir. Þetta étur hvort annað.“

Daníel segist ekki hafa skoðað tengsl spilafíknar við tíðni sjálfsvíga og sjálfsskaða.

„Við sjáum þetta í erlendum rannsóknum að menn eru að áætla að tíðni sjálfsskaða og sjálfsvíga er mun hærri hjá þeim sem eiga við spilavanda að stríða en þeim sem eiga ekki við þennan vanda að stríða. Þetta eru mjög erfiðar rannsóknir því orsök sjálfsvígs liggur ekki alltaf fyrir. Spilafíkn er stóralvarlegt mál og hefur gríðarleg áhrif á allt líf viðkomandi,“ segir Daníel og heldur áfram. „Þetta hefur mikil áhrif á stóran hóp af fólki. Ég hef oft gefið mér það að fyrir hvern spilafíkill að 5 til 10 manns líði mjög fyrir það ástand og verði fyrir neikvæðum áhrifum.“

Daníel segir að lítið hafi verið um forvarnir á Íslandi og það er hans mat að þörf sé á góðu forvarnarátaki. Talið er að um 2% þjóðarinnar glími við spilavanda.

„Samfélagslegur kostnaður er verulegur, kostnaður að fólk dettur úr vinnu, kostnaður því það fylgja þessu glæpir, þjófnaður og svo framvegis, kostnaður fyrir kerfið, vandamál í fjölskyldum. Þú getur sagt á hvaða stigi sem er: Það er kostnaður. Það þarf að gera eitthvað,“ segir Daníel. En hvaða spil ætli sé líklegast til að kveikja í spilavanda eða -fíkn hjá fólki?

„Þegar við skoðum peningaspil, tuttugu mismundandi gerðir sem finnast líka á netinu, þá er ein tegund peningaspila á þessum tuttugu árum sem hefur alltaf verið með sterkustu tengslin við spilavanda. Flestir sem eiga við spilafíkn að etja eru að spila það spil. Það eru spilakassar. Áhættan er 7 til 12 föld að þú ánetjist. Þetta er ekki bara hér, það er sama hvaða land þú horfir á. Það spil sem best spáir fyrir um spilavanda eru spilakassar.“

Daníel sat í starfshóp á vegum Háskóla Íslands varðandi peningaspil en hópurinn skilaði niðurstöðum sínum fyrir tveimur árum síðan.

„Það var mjög eindregin niðurstaða hjá hópnum að það væri mikilvægt, og skylda Háskólans og skylda Happdrættis Háskólans, að takmarka þann skaða sem fólk sem spilar í spilakössum verður fyrir,“ segir Daníel, en hópurinn stakk upp á spilakortum eða rafrænni skráningu - kerfi sem öll hin Norðurlöndin hafa tekið upp. Það kerfi hefur sýnt sig vera skaðaminnkandi og felst til dæmis í því að fólki eru sett takmörk um hve mikinn pening má spila fyrir. Það hefur leitt af sér að fólk spilar fyrir lægri fjárhæðir því:

„Fólk vanmetur hversu miklu það eyðir í peningaspil. Það ofmetur hversu mikið það vinnur. Það vanmetur hversu miklu það tapar.“         

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan og einnig er hægt að hlusta á alla þætti Spilavanda inni á www.spilavandi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda