Hlaðvarpsdrottningarnar Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf Ólafsdóttir ræddu nýverið um helstu samskiptamáta Z-kynslóðarinnar (e. Gen Z) í hlaðvarpsþættinum Teboðinu.
Sunneva og Birta Líf fengu til sín góða gesti, þær Helgu Þóru Bjarnadóttur, dóttur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Andreu Denisdóttur, og ræddu við þær um rafræna samskiptahætti ungmenna í þessum hraða heimi tækninnar sem nú hefur umbylt lífi okkar.
Sunneva og Helga Þóra þekkjast vel, enda eru þær mágkonur en bróðir Helgu Þóru, Benedikt Bjarnason, er kærasti Sunnevu og hafa þau verið saman í að verða fjögur ár.
Helga Þóra og Andrea eru báðar af Z-kynslóðinni og gátu því veitt góða innsýn í veröld unga fólksins og samfélagsmiðlanna sem keyra áfram samskiptamáta þeirra. Í þættinum ræddu þær meðal annars um mismunandi samskiptastíla og sögðu að samskiptaforritið Snapchat, sem kom fram á sjónarsviðið árið 2011 og naut mikilla vinsælda, væri á hraðri niðurleið og að unga fólkið í dag væri í auknum mæli að nýta sér símann til að hringja eða senda smáskilaboð eins og tíðkaðist kannski meira hér áður fyrr.