Kynlöngun er hornsteinn kynlífsins

Áslaug Kristjánsdóttir segir að töfralausnir virki ekki þegar kemur að …
Áslaug Kristjánsdóttir segir að töfralausnir virki ekki þegar kemur að kynlífi. Ljósmynd/Samsett

Áslaug Kristjánsdóttir hjúkrunar- og kynfræðingur er höfundur bókarinnar Lífið er kynlíf sem kom út í vikunni. Í einum kafla bókarinnar fjallar kemur fram að kynlíf sé ekki grunnþörf og enginn hafi beinlínis dáið af því að stunda ekki kynlíf. Hér fyrir neðan má lesa einn kafla úr bókinni: 

Ótrúlegt en satt! Kynlíf er ekki grunnþörf!

Hugmyndin um að kynlöngun sé stöðugt fyrirbrigði eða grunnþörf er ekki aðeins úrelt heldur einnig verulega skaðleg kynheilbrigði. Hún er í raun ein af stóru hindrununum fyrir því að kynlíf dafni í langtímasamböndum. Það er enginn fótur fyrir henni, jafnvel þótt okkur líði stundum eins og svo sé. Ef þessi hugmynd ætti sér stoð í veruleikanum myndi starf kynfræðinga snúast um að reyna beisla náttúruna eða breyta hinu óbreytanlega og þar mega þeir sín lítils. Það er nefnilega staðreynd að enginn hefur beinlínis dáið af því að stunda ekki kynlíf. Grunnþarfir mannsins snúast um það sem hann þarf til að lifa af. Við þurfum að borða, sofa og losa okkur við úrgang. Það tryggir að líf okkar haldi áfram.

Þegar fólk trúir því að kynlöngun og kynlíf séu grunnþörf getur það valdið miklum efa og skömm. Kynlöngun lýtur öðrum líffræðilegum lögmálum en þær grunnþarfir líkamans sem reknar eru áfram af skorti. Til dæmis veldur skortur á mat svengd. Svengd er aðkallandi þörf sem hverfur ekki fyrr en borðað er. Kynlöngun er hins vegar hluti af hvatakerfi líkamans. Skortur á kynlífi dregur okkur ekki að kynlífi heldur er einhver hvati sem fær okkur til þess að langa til að stunda það. Að neita sér um mat, drykk eða svefn getur verið lífshættulegt en það á ekki við um kynlíf. Aftur á móti dregur það sannarlega ekkert úr mikilvægi kynlífs þótt það snúist ekki um líf og dauða.

Töfralausnirnar sem virka ekki

Oft heyrist sú úrelta hugmynd að hægt sé að bjarga kynlífi með skyndilausnum. Þrátt fyrir að tíðni og tækni sem og ástin hjálpi til í kynlífinu er ekki þar með sagt að þessi atriði stjórni því eða séu ein og sér næg til þess að kynlöngun kvikni eða kynlíf verði frábært. Því að skyndilausnirnar sem ýtt er undir eru af þessum tvennum toga. Annars vegar heldur fólk að tíðni, tækni og stellingar skapi gott og sjálfbært kynlíf og hins vegar að kynlíf snúist um nánd og ást.

Starf kynlífsráðgjafa væri líklega ekki til ef þessar skyndilausnir virkuðu. Að nóg væri að hamra á því að samfarir þurfi að vara lengur, örva þurfi G-blettinn, karlmenn þurfi að fá þurrar fullnægingar (án sáðláts), fara í stellingar sem örva snípinn en ekki bara leggöngin eða hreinlega taka inn lyf sem gulltryggja ris eða senda fólk upp í nýjar hæðir. Samkvæmt þessu snýst kynlíf fyrst og fremst um frammistöðu og tækni. Með því að læra tæknina sé hægt að tryggja frábært kynlíf til frambúðar.

Hin hugmyndin, að lykillinn að góðu kynlífi sé að elska þann sem stundað er kynlíf með, að njóta ásta, vera sálufélagar, gengur heldur ekki upp. Auðvitað er hjálplegt í kynlífi að vera náin og elska maka sinn og meira að segja líklegra en ekki að kynlöngun dafni við slíkar aðstæður. En það er ekki nóg. Það er meira að segja algengt að fólk sem misst hefur kynlöngun sé í góðum samböndum, parið sé góðir vinir, þekkist vel og ástin sé heit. Þrátt fyrir það er það komið í vanda með löngunina í kynlíf og leitar ráðgjafar í vandræðum sínum. Það er langt í frá að tæknin og ástin virki.

Rannsóknir í kynfræði hafa sýnt að kynlöngun er hornsteinn kynlífsins. …
Rannsóknir í kynfræði hafa sýnt að kynlöngun er hornsteinn kynlífsins. Hún skiptir höfuðmáli svo af kynlífi verði yfir höfuð og það dafni. Charlesdeluvio/Unsplash

Kynlöngun er málið

Kynfræðingar hafa í tæpa öld rannsakað hvað þarf í raun og veru til þess að kynlíf verði frábært. Við lifum á gullöld upplýsinga og til allrar hamingju þurfum við því ekki lengur að trúa öllum bábiljunum. Nægar rannsóknir hafa komið fram sem leiða okkur í átt að góðu kynlífi. En því miður eru þar engar skyndilausnir. Það er hins vegar ekki skrýtið að fólk langi til að kynlíf sé eitthvað sem enginn skilur, sé töfrum slungið og að mannlegur máttur fái ekki stjórnað því. Það er svo miklu þægilegra að trúa því að töfraduft falli hreinlega af himnum ofan á fólk sem valdi því að það langi í kynlíf upp úr þurru. Hinn möguleikinn er nefnilega sá að taka ábyrgð á því að kynlífið sé líflaust. Það er óþægilegt, sér í lagi þegar fólk veit ekki hvernig blása má lífi í það. Hugmyndin um að hafa stjórn á hlutunum er flestum erfið þegar kemur að kynlífi. Þótt fólk vilji almennt hafa stjórn á eigin lífi og þoli illa óvissu vill það ekki endilega hafa stjórn á kynlöngun sinni.

Rannsóknir í kynfræði hafa sýnt að kynlöngun er hornsteinn kynlífsins. Hún skiptir höfuðmáli svo af kynlífi verði yfir höfuð og það dafni. Yfirleitt hverfur löngunin fyrst og það skapar síðan kynsvörunarvanda. Á meðan fólk trúir enn á að kynlíf gerist af sjálfu sér, því að kynlöngun sé grunnþörf sem rekin sé áfram af þörfinni til að lifa af, eða trúir á loforð um fullkomið kynlíf sem skyndilausnir bjarga, er kynlöngunin í hættu. Almennt hverfur getan í kjölfar þess að missa kynlöngunina. Risið bregst, leggöng blotna ekki, samfarir verða sársaukafullar og enginn fær fullnægingu.

Hvernig fólk finnur lykilinn að kynlönguninni og ekki síður ánægjunni af kynlífinu er svo viðfangsefni bókarinnar Lífið er kynlíf.

Lífið er kynlíf kom út í liðinni viku.
Lífið er kynlíf kom út í liðinni viku.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda