Linda Baldvinsdóttir markþjálfi og samskiptaráðgjafi hjá Manngildi skrifar um óttann sem býr innra með fólki. Óttann við að já þegar þú meinar nei.
Ég held að við flest lendum í þeim aðstæðum að okkur finnst betra að þegja en að segja það sem okkur býr í brjósti. Líklega erum við þó ekki ánægð með okkur þegar það gerist. Hvers vegna erum við átakafælin?
Jú, líklega eru nokkrar ástæður fyrir því og er meðvirkni að mínu mati sökudólgurinn í mörgum tilfellum þar.
Við viljum ekki búa til leiðindi í vinahópnum, sambandinu eða fjölskyldunni með því að fara gegn skoðun eða orðum sem gætu búið til aðstæður sem skaða okkur félagslega eða hafa afleiðingar með einum eða öðrum hætti.
Við viljum tilheyra, vera elskuð og dáð. Við förum nokkuð langt í sumum tilfellum til þess að ná því takmarki okkar.
Við erum með gott dæmi þessa dagana þar sem meirihlutinn þegir þunnu hljóði í samfélaginu yfir ýmsu sem gengur þar út í öfgar. Við þegjum vegna þess að við viljum ekki styggja neinn og eigum erfitt með að fá þann stimpil að vera talin fordómafull, skilningsvana eða gamaldags.
Við þegjum vegna þess að kannski var okkur kennt í æsku að það væri betra að láta eins og fíllinn væri ekki í herberginu og til að sleppa við refsingar af ýmsu tagi.
Við lærðum að þegja því að það er bara svo ótrúlega vont að vera með samviskubit yfir því að hafa aðrar skoðanir en þeir sem í kringum okkur eru og að vera álitin skrýtin, uppreisnagjörn nú eða vandræðaseggir.
Þeir sem eru haldnir fullkomnunaráráttu þegja líka oft vegna þess að þeir vilja ekki lenda í því að hafa rangt fyrir sér eða verða sér til minnkunar með einhverjum hætti, það væri herfileg staða fyrir þá og því þegja þeir frekar.
Átakakvíði er til og hann lýsir sér til dæmis með því að við getum fundið fyrir ótta fyrir, á meðan og eftir átök og því er líklegast að við forðumst þau alveg.
Þegar við erum haldin þeim kvíða tökum við ekki á því þó okkur sé misboðið eftir að við sjálf eða eigur okkar hafa verið vanvirtar með einhverjum hætti. Við tökum ekki alvarlegu samtölin í samböndum okkar og samskiptum sem getur orðið að alvarlegri hindrun á heilbrigði þeirra og hamingju.
Flest samskipti innifela í sér átök af einhverju tagi hvort sem þau eru persónuleg eða fagleg og það er nauðsynlegt að taka samtalið þegar okkur er misboðið með einhverjum hætti og standa með sér til að halda í sjálfsmyndina og til að vera við stjórn í eigin lífi.
Hvernig ætlumst við til að öðlast hamingju þegar við finnum ekki og vitum ekki hvar mörkin okkar liggja?
Það er gott fyrir þá átakafælnu að skoða hvers vegna þeir eru átakafælnir og þá er gott að spyrja sig spurninga eins og;
Þetta eru nokkrar af mörgum spurningum sem er gott að spyrja sig og svo er um að gera að æfa sig í því að standa fyrir sínu.
Gott er að byrja með einhverju smáu eins og því að nota styrkjandi setningar „ég upplifi“ eða „mér finnst“ í stað „þú“ setninga eftir að þú ert búin að greina vel hvers vegna það skiptir þig máli að ræða málin.
Eins er gott að gera sér grein fyrir því hvaða tilfinningar þú ert að upplifa og hvaða breytingu viltu sjá í samskiptunum.
Við upplifum sum að það geti kostað okkur sambandsslit, vinaslit eða annað ef við opnum okkur og tölum um fílinn í stofunni, en í flestum tilfellum og að minnsta kosti í þeim tilfellum þar sem heilbrigði ríkir þá er því tekið vel og af skilningi þegar við opnum á umræðuna og lýsum tilfinningum okkar.
Þar er hlustað og stutt við drauma og þar er ekkert annað í boði en full virðing fyrir tilfinningum beggja aðila og þá er ég ekki einungis að tala um parasambönd í þessu tilliti.
Þar sem óheilbrigðið ríkir hinsvegar er okkur kennt að það að hafa tilfinningar og skoðanir eða drauma og væntingar er ekki í boði og kostar yfirleitt refsingu í einu eða öðru formi ef við tjáum okkur um það. Þar eru aðstæður sem enginn ætti að bjóða sér uppá því að við eigum öll skilið að fá virðingu og fallega framkomu að ég tali nú ekki um að fá hlustun og stuðning við líðan okkar og þroska ef við ætlum að lifa í heilbrigðum samskiptum.
Ef við erum í óheilbrigðum samskiptum þá erum við líklega alin upp við röng samskiptamynstur eða höfum reynslu af því að það sé í lagi að koma fram við okkur á einhvern óboðlegan hátt.
Við höfum þá einnig séð að það að standa með sjálfum sér hefur haft afleiðingar og að þeir sem þögðu fengu mestu athyglina ástina eða fengu að tilheyra hópnum. Hver svo sem umbunin hefur verið þá hefur hún verið þess virði að láta sjálfan sig af hendi, þegja og verða framlenging af annarri manneskju til að líða vel í augnablikinu og að fá að tilheyra.
Ég verð að hvetja þig, ef þú ert átakafælinn, til að taka til í tilveru þinni því það að þegja og ekki segja mun valda óhamingju með einhverjum hætti í lífi þínu á einhverjum tímapunkti.
Flóttaleiðirnar sem notaðar eru til að taka á þeirri óhamingju eru til dæmis alls konar fíknir sem valda svo einungis meiri vanlíðan og tjáningarleysinu fylgir einnig oft þunglyndi, kvíði og margt annað böl sem tekur frá okkur hamingjuna, svo ég hvet þig-ekki gera ekki neitt!
Það er fullt af góðu fagfólki sem er tilbúið til að aðstoða við allt sem viðkemur okkar andlegu og líkamlegu heilsu svo að það er ekki eftir neinu að bíða, því að lífið er núna og fíllinn þarf að fara út úr stofunni til að heilbrigðið geti ríkt í samskiptum okkar.
Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef ég get aðstoðað þig við þín lífsins málefni,og ef lífið er ekki eins og þú vilt hafa það þá er ekkert annað að gera en að breyta því!