„Ég er lélegasti dópsali sem ég hef kynnst“

Sigurjón Sindri Skjaldarson er gestur í hlaðvarpsþætti Tinnu Barkardóttur, Sterk …
Sigurjón Sindri Skjaldarson er gestur í hlaðvarpsþætti Tinnu Barkardóttur, Sterk saman.

Sigurjón Sindri Skjaldarson, 32 ára strákur úr Borgarnesi, er nýjasti gestur í hlaðvarpinu Sterk saman. Hann leiddist út í fíkniefnaneyslu og dópsölu og segir að hann hafi kynnst harðari efnum þegar hann var í meðferð á Vogi. Í dag er hann edrú og segist ekki hafa vitað að lífið gæti verið svona stórt og frábært. 

„Mamma var bara 19 ára og að útskrifast úr MR þegar hún var ólétt að mér. Ég held að ég hafi ekki verið planaður. Mamma og pabbi hættu saman áður en ég fæddist en hafa alltaf verið góðir vinir,“ segir Sigurjón sem ólst upp fyrstu árin hjá móður sinni sem var einstæð. Líf hans breyttist þó töluvert þegar móðir hans hóf ástarsamband við stjúpföður hans en í framhaldinu fluttu þau í Borgarnes. 

Sigurjón er með ADHD og upplifði að hann passaði ekki inn í box skólakerfisins og í raun ekki box samfélagsins. Hann fékk sífellt þau skilaboð að hann væri ekki nógu góður. Það sem vann hinsvegar með honum var að hann er félagslega sterkur og skemmtilegur. Hann var ekki gamall þegar hann fór að sýna áhættuhegðun. Hann byrjaði í neyslu þegar hann  

„Ég var mjög ungur farinn að stela klinki úr vösum, gera hluti sem mátti ekki. Ég vildi ekki taka lyfin mín og það var mikið feimnismál að þurfa lyf. Oft setti ég þau upp í mig en tók svo út úr mér aftur og henti í ruslið,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki verið hann sjálfur á lyfjunum.

„Allt í einu fannst mér vinir mínir ekki fyndnir og það var miklu mikilvægara en að geta einbeitt mér og lært.“

Rekinn úr skóla fyrir að bera afturendann

Þegar leið á skólagönguna og Sigurjón kominn í unglingadeild var hann sendur annað í skóla.

„Ég held að mamma hafi verið að reyna að fjarlægja mig úr aðstæðum en ég var ennþá eins. Ég var rekinn úr þeim skóla rétt fyrir samræmdu prófin fyrir að „moona“ á bekkjarmynd. Það mátti ekki reka mig svo ég fékk einkakennslu og náði öllum prófum.“

Eftir grunnskólann flutti Sigurjón til Reykjavíkur með stór plön, bæði um körfubolta og nám. Þau plön stóðust ekki og við tók einhverskonar djamm þar sem hann drakk sig í út úr heiminum hvað eftir annað og alltaf varð eitthvað vesen. 

„Ég var fyrst sendur í meðferð 17 ára gamall en þá fyrst sá ég hvað ég ætti eftir að prófa mikið. Ég var rosalega gramur alla mína neyslu yfir þessu en veit að mamma var bara að reyna að bjarga stráknum sínum. Börn eiga ekki samleið með fullorðnum í meðferð eins og þetta er sett upp,“ segir hann. 

Byrjaði í harðari neyslu eftir meðferð á Vogi

Eðli málsins samkvæmt harðnaði neyslan eftir innlögn á Vog. Hann segir að það hafi verið himnasending að kynnast örvandi efnum fyrir ungan strák með ADHD. 

„Ég var og er mjög tilfinningaríkur, maður verður að setja upp einhverja grímu en auðvitað langaði mig að verða eins og glansmyndirnar voru, eiga svartan BMW, vera massaður með keðjur en ég er lélegasti dópsali sem ég hef kynnst. Ég reyndi í einhvern tíma en fannst miklu skemmtilegra að gefa heldur en að selja,“ segir hann. 

Sigurjón hefur setið inni, í styttri tíma, fyrir fíkniefnalagabrot og segir aðspurður frá sinni reynslu af fangelsum á Íslandi.

„Þetta er bara geymsla í raun, misjafnt eftir því hvar þú ert samt. Á Hólmsheiði er þetta bara bið, þar lifðum við eftir sjónvarpinu. Á föstudögum var reyndar kósý hjá okkur, þá borðuðum við góðan mat og horfðum saman á Bachelor, strákarnir. Á Sogni var þetta öðruvísi, mikil neysla og á Hrauninu var ég í mikilli neyslu, þar var „spice“ aðal efnið og súbbi (Suboxone).“

Talið berst að neyslu innan veggja fangelsa. 

„Þarna er í raun hópur fíkla saman komnir í geymslu, það er ekkert annað við að vera og til að lifa af þessa veru þá eru menn í neyslu. Sorglegt að SÁÁ stjórnar markaði Suboxone og þeir sem eru á þeim lyfjum hafa völd innan fangelsa því þetta eru svo sterk lyf og alltaf fleiri og fleiri að verða háðir þeim,“ segir hann. 

Sigurjón segir frá því að þegar hann var vistaður á Lita hrauni hafi hann kynnst konu sem vann í geðteyminu í fangelsinu. Hann upplifði að hann treysti henni og hún aðstoðaði hann við að sækja um í Batahúsinu svo eitthvað sé nefnt. Hann segir að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem eitthvað greip hann eftir afplánun. 

„Líf mitt er svo miklu stærra en ég hefði geta trúað. Ég vinn í fjölskyldufyrirtækinu, mér er treyst, ég er til staðar fyrir fólkið mitt. Ég get verið fyrirmynd fyrir bræður mína en ég þori ekki að hætta að gera það sem ég er að gera heldur,“ segir hann. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál