Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu varðandi girðingu á lóðarmörkum sem er farin að skemmast. Getur fólk reist girðingu án þess að biðja um leyfi?
Sæll Ingvi Hrafn.
Ég hef áhuga á að breyta girðingu sem er á lóðarmörkum. Girðingin er núna sett saman af stólpum og þéttu stíflu neti, en vildi ég að nýtt útlit væri með pílora í stað netsins. Úr tré.
Er það vegna slæms umgangs á girðingu frá nágrönnum þar sem netið farið að skemmast.
Einnig til að veita báðum aðilum meira næði.
Get ég reist þannig girðingu mín megin á lóðarmörkum í sömu hæð án þess að biðja um leyfi?
Kveðja,
X
Ágæti fyrirspyrjandi,
Svarið við spurningu þinni er í reynd að finna í grein 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum, þar sem fjallað er um minniháttar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi. Þar kemur í fyrsta lagi fram að allt viðhald girðinga sé undanskilið skyldu til þess að afla leyfis áður en framkvæmdir hefjast.
Í annan stað kemur fram að heimilt sé að reisa girðingar á lóðamörkum án leyfis, enda liggi fyrir undirritað samkomulag lóðarhafa hinna samliggjandi lóða. Í öllum tilvikum þarf þó framkvæmdin að samrýmast skilmálum deiliskipulags og eftir atvikum þeim kvöðum sem kunna að vera til staðar í lóðarleigusamningi. Að því gefnu að girðingin samræmist skipulagsskilmálum, er því forsendan fyrir því að reisa nýja girðingu án leyfis sú að þú gerir skriflegt samkomulag þar að lútandi við nágranna þinn.
Að vísu verður að taka fram að samþykki nágrannans er ekki skilyrði ef girðingin er reist inni á þinni lóð, en ekki á lóðamörkunum. Er í slíkum tilvikum kveðið á um að girðingin megi ekki vera nær lóðarmörkum en sem nemur hæð girðingarinnar, þ.e. þú getur t.d. reist 1 metra háa girðingu inni á þinni lóð í 1 metra fjarlægð frá lóðamörkunum. Ég treysti mér ekki til að útskýra vísindin að baki þessari reglu, en hún hlýtur að styðjast við afar vel ígrunduð rök. Að lokum er því til að svara að undirrituðum er ekki kunnugt um að innlendar reglugerðir, þótt þær láti sér fátt mannlegt óviðkomandi, standi í vegi fyrir því að þú notir tré í girðingu í stað netgirðingar. Gangi þér vel með verkefnið!
Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ingva Hrafni og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR.