„Bergur Snær var fastur í vef sem hann komst ekki úr“

Sigurþóra Bergsdóttir missti son sinn í sjálfsvígi.
Sigurþóra Bergsdóttir missti son sinn í sjálfsvígi.

Sigurþóra Bergsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Bergsins headspace er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún stofnaði samtökin eftir að hafa misst Berg Snæ son sinn í sjálfsvígi. Hún er búin að vinna mikla vinnu til þess að komast á þann stað sem hún er í dag. Hún segist þó hafa brugðist rangt við í mörgum aðstæðum og mundi gera hlutina öðruvísi í dag. 

Sigurþóra ólst upp á Blönduósi fyrstu sjö ár ævi sinnar en þar var faðir hennar skólastjóri. Þaðan flutti fjölskyldan í vesturbæinn í Reykjavík þar sem þau hafa verið meira og minna síðan. 

„Ég er alin upp í mjög stabílu umhverfi þar sem pabbi var einn af þeim sem stóðu að stofnun leikskólanna í Reykjavík og mamma hjúkrunarfræðingur. Ég var rólegt barn og unglingur sem elskaði að koma heim eftir skóla og lesa eða spila á píanó,“ segir Sigurþóra. 

Sigurþóra eignaðist son sinn, Berg Snæ, þegar hún var 24 ára. Hún átti í stuttu ástarsambandi við barnsföðurinn en tók svo ákvörðun um að vilja frekar ala soninn upp ein síns liðs. 

„Hann var með einhverja hreyfiofvirkni, vaknaði stundum frekar snemma, var rosalega ljúfur og góður og vildi mikið vera í fangi,“ segir hún og brosir.

Vildi kalla hann pabba

Bergur Snær var ungur þegar móðir hans fór í annað ástarsamband. Ekki leið á löngu þar til hann spurði hvort hann mætti kalla hann pabba. 

„Maðurinn minn hefur aldrei litið á hann sem annað en sinn eftir að hann kom inn í okkar líf. Berg Snæ vantaði þarna föðurímynd þó hann hafi verið í einhverjum tengslum við blóðföður sinn seinna,“ segir hún. 

Bergur Snær var greindur með ADD á unglingsárum. ADD er fjölathygli, athyglisbrestur, án ofvirkni. Móðir hans segir að það sé erfitt að átta sig á því í dag hvað hafi verið athyglisbrestur og hvað hafi verið vanlíðan. Hún segir að hann hafi ekki passað að öllu leyti inn í fyrirfram ákveðin box skólakerfisins. 

„Ég gerði kröfur á hann að gera betur, standa sig vel og svona sem ég sé eftir. Kannski hefði ég bara átt að styrkja hann í að líða betur og vera öruggari. Þegar ég horfi til baka og skoða einkunnabækur þá var þetta bara fínt,“ segir hún. 

Örlagaríkur háskólaviðburður 

Þegar Bergur Snær var 14 að verða 15 ára fór hann á viðburð í Háskólanum með pabba sínum, þar hitti hann ungan mann sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Þessi ungi maður, sem var aðeins 5-6 árum eldri en Bergur, er vel þekktur ofbeldismaður. 

Eftir viðburðinn vingaðist maðurinn við Berg á Facebook og þar hófst ferli þar sem hann tældi (e. grooming) drenginn með alls kyns leiðum og misnotaði hann svo hrottalega næstu árin.

„Bergur Snær var fastur í vef sem hann komst ekki úr og gat ekki sagt neinum frá. Ég get ekki ímyndað mér einmanaleikann,“ segir hún. 

Hegðunin breyttist og foreldrana fór að hann væri kominn í neyslu sem var þó ekki raunin. Hann stalst út á nóttunni og því var farið að eiga við hann eins og óþekkan ungling, eðlilega.

„Einn daginn hringir lögreglan í mig og segir mér að nafnið hans Bergs hafi komið upp í stóru kynferðisbrotamáli sem sé til rannsóknar og ég hugsa bara nei, nei, það passar ekki. Ég spyr hann og hann þvertekur fyrir það, segist vita hver þessi maður sé en þetta sé algjör vitleysa. Við hjónin fylgjumst aðeins með tölvunni hans og eitt skiptið fer hann út og skilur hana eftir opna. Við sjáum þar skilaboð frá þessum tiltekna ofbeldismanni, sem á þeim tíma sat í fangelsi fyrir annað mál, af öðrum toga.“

Tók skjáskot

Sigurþóra hefur þarna samband við lögregluna, tekur skjáskot af þessum tilteknu skilaboðum og talar í framhaldinu við son sinn.

„Hann fer beint í það að eyða öllum samskiptum þeirra á milli, sem ég skil. Hann var hræddur, allt í einu var leyndarmálið komið upp sem hann var búinn að halda inni svo lengi og nú vildu allir að hann myndi tala og segja frá því sem hafði gerst.“

Sigurþóra segir frá næstu misserum og hvernig hún upplifði pressu að kæra, óréttlæti mætti ekki sigra og í þessu máli voru 14 drengir sem kærðu. 

„Bergur Snær var yngstur og ofbeldið grófast, þar sem hann eyddi skilaboðunum gat þessi ofbeldismaður neitað að hann þekkti hann. Hann játaði 12 af 14 brotum og því þurfti ekki dómsmál. Svörin sem við fengum voru að hann fengi ekki lengri dóm þrátt fyrir þessa tvo í viðbót en hvað með þeirra líf? Eftir að mál Bergs var fellt niður var allur vindur úr honum,“  segir hún og bætir við að höggið hafi verið rosalegt og hún myndi gera þetta allt öðruvísi í dag.

Þoldi ekki það sem fólk sagði

Bergur Snær fékk þessar fréttir í ágúst. Hann lést í sjálfsvígi í mars en í október árinu áður hafði hann gert aðra sjálfsvígstilraun. Þá var honum bjargað.

„Ég þoldi ekki að það væru alltaf allir að segja mér að ég hafi gert mitt besta, ég gerði ekkert alltaf mitt besta, stundum var ég pirruð eða eitthvað. Ég og sálfræðingurinn minn komumst að niðurstöðu. Ég gerði allt af ást, ég get staðið við það,“ segir hún. 

Eftir að Bergur lét lífið var stofnaður minningarsjóður í hans nafni. Sigurþóra er það lánsöm, eins og hún orðar það, að hafa geta verið frá vinnu í heilt ár eftir þetta áfall og sótt sér þá aðstoð sem hún þurfti.

„Ég fór í Virk, sótti fullt af fríum ráðstefnum og málþingum og var hálfpartinn leidd þessa leið í að stofna Bergið headspace. Ég er vel tengd inn í Háskólasamfélagið, fjölmiðla og fleira svo það hefur allt hjálpað og eins og ég segi þá leið mér eins og ég væri leidd áfram, enda Bergur Snær alltaf með mér.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál