Draumurinn var byggður á minnimáttarkennd

Sara Oddsdóttir markþjálfi og lögfræðingur er gestur Sölva Tryggvasonar.
Sara Oddsdóttir markþjálfi og lögfræðingur er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Árni Sæberg

Sara Oddsdóttir markþjálfari og lögfræðingur segir að fólk upp til hópa hafi týnt sinni eigin rödd og þar með ástríðunni og lífsgleðinni. Sara, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, talar í þættinum um hvernig skilyrðingar valdi því að fólk missir sjónar á draumum sínum. 

„Það eru skilyrðingar úti um allt sem hafa mikil áhrif á okkur. Auðvitað þarf að hafa reglur í samfélagi manna, en mjög mikið af fólki hefur týnt ástríðunni af því að það er orðið alveg fast í skilyrðingunum. Ég sé þetta mjög mikið í störfum mínum. Fólk er búið að týna sinni eigin rödd af því að það hefur í áraraðir gert það sem er ætlast til af því í stað þess að fara sínar eigin leiðir. Þegar ég vinn með fólki og við förum inn í þetta kemur yfirleitt fyrst viðnám, þar sem fólk finnur allar ástæður sem til eru til þess að taka ekki stökkið. En svo hægt og rólega fer fólk að átta sig á því að það er fast í skilyrðingum um að eitthvað slæmt sé að fara að gerast. Þá fer að opnast fyrir röddina sem segir fólki hvað það raunverulega vill.

Þegar sú tenging er komin og byrjar að styrkjast verður auðveldara að sleppa takinu, taka hugrakkar ákvarðanir og gera það sem maður raunverulega vill gera í lífinu. Ef maður hefur aldrei tekið U-Beygju verður sú fyrsta alltaf erfið. Ef þú fórst bara í skóla, hélst svo áfram í meira nám og beint í vinnuna sem var eðlilegt framhald er eðlilega erfitt að taka fyrsta stökkið og mótstöðurnar eru miklar. En yfirleitt kemst fólk svo að því að ef við leyfum okkur að gera það sem við elskum falla hlutirnir oftar en ekki með okkur.“

Sara hefur sjálf tekið fleiri en eina U-beygju í lífinu eftir að hafa fundið að ástríðuna vantaði í það sem hún var að gera. 

„Ég rak tískuverslanir eftir að hafa alist upp í tískugeiranum og var algjörlega sannfærð um að það væri það sem ég vildi gera í lífinu. En á einhverjum punkti áttaði ég mig á því að þessi draumur var bara byggður á hugmyndum úr æskunni og ákveðinni minnimáttarkennd. En eftir að ég hafði menntað mig í lögfræði tók ég svo í raun aðra U-beygju og áttaði mig á því að ég vildi vinna með fólki. Það er auðvitað meira en að segja það að ákveða að hætta einhverju sem maður hefur lagt mikinn pening, tíma og metnað í að gera, en á endanum verður maður að elta ástríðuna og gera það sem raunverulega nærir mann og fyllir mann eldmóði,” segir Sara, sem segist alltaf hafa verið þannig af guði gerð að hún hafi þorað að fara eigin leiðir. Í þættinum segir hún  til að mynda sögu af sjálfri sér þegar hún var við fermingaraldur og ákvað að kaupa sér hest án mikils fyrirvara:

„Ég var búin að vera alveg heltekin af hestum í langan tíma þó að það væri enginn í kringum mig í hestamennsku. Einu skiptin sem ég var nálægt hestum þegar foreldrar mínir sendu mig í sveit á sumrin. Svo er það árið sem ég er að fermast að ég seldi mér þá hugmynd að ég gæti fengið hest og til þess að fá hann yrði ég bara að fara upp í sveit og kaupa hann. Ég var búin að reikna mig þangað að fermingin myndi skila mér nægum pening til að kaupa hestinn og fór bara í málið. En svo var það símtalið við pabba þar sem ég þurfti að segja honum frá þessu og finna út úr því hvernig ætti að koma hestinum í bæinn og hvernig ætti að borga fyrir hann!“

Í þættinum ræða Sölvi og Sara líka um sögu Íslands og hvernig hún verði að spila inn í umræðuna um tilfinningar og andlega líðan hér á landi. 

„Aðstæðurnar sem fólk bjó við fyrir ekki svo löngu voru mjög harðneskjulegar og það var líklega ekki mikið rými fyrir úrvinnslu tilfinninga og áfalla. Við komum úr gríðarlega hörðum aðstæðum þar sem hér var barátta upp á líf og dauða alla daga fyrir ekki svo löngu síðan. Við þurfum ekki að fara nema þrjár til fjórar kynslóðir aftur í tímann til að sjá þær aðstæður að fólkið hér var að berjast fyrir lífi sínu alla daga, konur á mínum aldri höfðu kannski átt 10 börn og aðeins 5 voru á lífi og voru búnar að missa 2 menn. Menn fóru út á sjó í einverjum árabátum í óveðrum upp á von og óvon og svo þurfti bara að halda áfram með lífið. Það er staðurinn sem við erum að koma frá og í raun er þessi þjóð enn að vinna úr sameiginlegri áfallastreitu fyrri kynslóða,“ segir Sara og heldur áfram:

„Núna búum við í allt annars konar aðstæðum, þar sem allt hefur batnað og efnahagur þjóðarinnar gjörbreyttist. En engu að síður hefur okkur á einhvern hátt aldrei liðið verr og nánast allar tölur um geðheilbrigði eru á leiðinni í ranga átt. Við verðum öll að taka samtal um það hvað við ætlum að gera í því. Þó að lyf eigi fullan rétt á sér getur það ekki verið eina lausnin að stærri og stærri hluti bæði barna og fullorðinna sé settur á lyf við geðsjúkdómum.“

 Hægt er að hlusta á brot úr þáttum Sölva Tryggvasonar á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda