Sambúðarslit og önnur álitamál því tengdu

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Að undanförnu hafa borist nokkrar spurningar sem varða sambúðarslit og ýmis álitamál því tengdu. 

Í stað þess að svara hverri spurningu fyrir sig langar mig að fjalla aðeins um þær meginreglur sem gilda við slit á sambúð.

Til að slíta sambúð þarf samningur um fjárskipti ekki að liggja fyrir en margir vilja hins vegar gera slíkan samning. Við fjárskipti við sambúðarslit gildir ekki helmingaskiptaregla eins og um hjón og engin lög gilda um fjárskipti við sambúðarslit heldur en stuðst við dómafordæmi og óskrifaðar reglur eða venjur. Grunnreglan er sú að hvor sambúðaraðili um sig taki þær eignir sem það átti fyrir sambúðina og eignaðist meðan á sambúðinni stóð og hér getur skipt verulegu máli hver er skráður fyrir hvaða eign. Nauðsynlegt er því að huga vel að skráningu eigna við kaup þeirra í sambúð. Frá þessari grunnreglu eru þó ýmsar undantekningar og það getur verið flókið að meta hvað á við hverju sinni. Þannig geta fjárskipti við sambúðarslit oft verið flókin og erfið.

Til að slíta skráðri sambúð þar sem aðilar eiga saman börn þarf að ákveða hvernig forsjá barnanna skuli háttað og venjulega er forsjáin sameiginleg. Jafnframt þarf að ákveða hvort börnin skuli hafa lögheimili hjá móður eða föður og einnig þarf að ákveða um framfærslu barnanna. Það er ekki hægt að flytja lögheimilin í sundur eða slíta sambúðinni formlega nema samkomulag liggi fyrir um málefni barnanna sem staðfest er af Sýslumanni. Það er einnig skylt að tryggja að börnin hafi umgengni við það foreldri sitt sem það hefur ekki lögheimili hjá, en ekki er nauðsynlegt að ákveða með hvaða hætti áður en sambúðinni er slitið.

Að lokum skal það tekið fram að sambúðarfólk erfir ekki hvort annað. Ef sambúðarmaki sem fellur frá á t.d. 50% í fasteign á móti hinum, þá er það helmingur fasteignarinnar sem tilheyrir dánarbúi hins látna og fellur til erfingja hans eða hennar. Erfingjar hins látna eru þá börn viðkomandi, en ef þeim er ekki til að dreifa þá eru það foreldrar og ef þau eru ekki á lífi þá systkini. Þá getur sambúðarfólk ekki setið í óskiptu búi eftir andlát maka, slíkur réttur er einskorðaður við fólk í hjónabandi. Þar sem sambúðarmaki er ekki erfingi þá er staða þess aðila erfið við andlát makans og getur haft veruleg áhrif á aðstöðu og hagi viðkomandi.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þyrí og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda