„Það er mjög gott að skipuleggja kynlífið“

Ljósmynd/Birta Sveinbjörnsdóttir

Indíana Rós hefur lengi haft brennandi áhuga á kynheilbrigði og vildi snemma gera það að atvinnu sinni. Hún hefur alltaf verið mjög opin og forvitin um allt það sem viðkemur kynlífi og samböndum, enda annt um unað og kynheilsu annarra. Indíana Rós lauk meistaragráðu í kynfræði í Philadelphiu í Bandaríkjunum og sinnir í dag kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum ásamt því að vera sitjandi formaður Kynís, Kynfræðifélags Íslands.

Nýverið byrjaði hún með hlaðvarpsþáttinn, Kynlífið, þar sem hún fjallar um kynlíf, kynheilbrigði og allt sem tengist því á einn eða annan hátt.

„Ég var nemandi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og var í sálfræðiáfanga þegar við fengum verkefni sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Við áttum að halda fyrirlestur fyrir hina nemendurna í bekknum en máttum tækla hvaða fyrirlestrarefni sem okkur langaði til. Það var þá sem ég rakst á kynlífsraskanir og dembdi mér í að lesa um þær, en það var efnið sem ég og vinkona mín enduðum á að kynna fyrir bekknum,“ segir Indíana Rós, sem fann hilluna sína snemma í lífinu.

Undir verndarvæng Siggu Daggar

„Ég sagði móður minni frá þessum sívaxandi áhuga mínum en það var hún sem benti mér á að það væri hægt að mennta sig í faginu. Á þessum tíma var Sigga Dögg orðin landsmönnum kunn og enn og aftur þá var það móðir mín sem sagði mér frá henni og öllu því frábæra starfi hún var að gera. 

Ég ákvað í framhaldi að hafa samband við Siggu Dögg en lét ekki af því verða fyrr en einu ári seinna, en ég vildi ólm leita ráðlegginga hjá henni um það hvernig ég gæti komist inn í þessa starfsstétt,“ útskýrir Indíana Rós.

Sigga Dögg varð fyrsti lærimeistari Indíönu Rósar en hún tók hana undir verndarvæng sinn.

„Hún kynnti mig fyrir ótal mörgu, en á þessum tíma var hún að vinna að sjónvarpsþáttum fyrir Stöð 2 sem heita Tveir plús sex. Ég varð hluti af umræðuhópi í þáttunum, byrjaði að starfa í kynlífstækjaverslunum og gekk í Kynís, en Sigga Dögg var sú sem dró mig í félagið,“ segir hún, en í dag starfa stöllurnar mikið saman við að fræða landann um kynheilbrigði.

Ljósmynd/Aðsend

„Upplifi loddaraheilkenni“

Indíana Rós gekk hefðbundinn menntaveg en eftir útskrift frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hélt hún í Háskóla Reykjavíkur þar sem hún lagði stund á nám í sálfræði. „Ég setti stefnuna á að fara í kynfræði þegar ég var á menntaskólaaldri, en ég fór í sálfræðina svona bara upp á grunninn þar sem kynfræði er einungis kennd á meistarastigi,“ útskýrir Indíana Rós, en lokaverkefni hennar í sálfræði fjallaði um sjálfsfróun og flestöll námsverkefni hennar tengdust einnig kynlífi.

„Ég tók mér ársleyfi frá námi eftir útskrift og fór að vinna en hélt svo út til Bandaríkjanna þar sem ég nældi mér í meistaragráðu í kynfræði. Ég stundaði nám við Widener University og útskrifaðist árið 2020, í miðjum kórónuveirufaraldri, en var þá lent á Íslandi og þegar byrjuð með fræðslu og fyrirlestra, en það hafði ég gert mjög reglulega frá því ég var í sálfræðináminu.“

Aðspurð segist Indíana Rós ekki hafa fundið fyrir óþarfa stressi í byrjun. „Ég var ekki stressuð þegar kom að því að halda fyrirlestra, ég elska athygli, en ég upplifði og upplifi enn þann dag í dag loddaraheilkennið. Ég hugsa oft: „Af hverju á einhver að hlusta á mig og taka ráð frá mér?“ en einhvern veginn heldur maður áfram að gera það sem maður er að gera,“ útskýrir hún.

Hvað er Kynlífið?

Nýverið hleypti Indíana Rós af stokkunum nýjum hlaðvarpsþætti, Kynlífið. Hún mun fá til sín góða gesti sem ræða allt milli himins og jarðar, eða allt það sem viðkemur kynlífi og kynheilbrigði.

Í fyrsta þættinum fékk hún til sín Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur, sálfræðing og kynlífsráðgjafa, en þær ræddu meðal annars um algengustu ástæður þess að fólk fer til kynlífsráðgjafa.

„Ég mun leggja mikla áherslu á að „normalize-a“ kynlíf ásamt því að veita góða og fjölbreytta fræðslu um ýmislegt,“ segir Indíana Rós, en fjórir þættir af hlaðvarpinu eru klárir til hlustunar.

@indianaros6 Hlaðvarpið Kynlífið með Indíönu Rós Kynfræðingi. Þáttur Nr.1 kynlífsráðgjöf og ósamræmi í kynlöngun - Aldís Þorbjörg Kynlífsráðgjafi Þátturinn er í boði: Elko Unaðsvörur - @ELKO // @elko_unadsvorur - Kynntu þér 30 daga unaðstryggingu! Durex smokkar - @artasanehf - Fæst í öllum helstu verslunum, apótekum og bensínstöðvum Aldís Þorbjörg sálfræðingur og kynlífsráðgjafi kom og ræddi við mig um allt sem viðkemur kynlífsráðgjöf. Hvenær fer maður, hvað gerist og hver eru algengustu ástæður að fólk fer til kynlífsráðgjafa. Þá köfuðum við aðeins ofan í ósamræmi í kynlöngun, en það er einmitt ein helsta ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar! Hvað er það, hvenær ætti fólk að leita sér aðstoðar fagaðila og hún gaf nokkur góð ráð til að byrja samtalið og tækla málið! Hægt er að kynna sér Aldísi Þorbjörgu og kynlífsráðgjöf á heimasíðunni hennar kynlifsradgjof.is #kynfræðsla #fyp #iceland ♬ original sound - Indíana Rós Kynfræðingur

Í lokin fengum við Indíönu Rós til að svara einni spurningu um kynlíf og jólastressið. 

Hvernig er best að koma kynlífinu að í jólaörtröðinni?

„Það er bara að skipuleggja það, eins og allt annað. Við skipuleggjum matarinnkaupin, matarboðin, jólagjafirnar og klæðin, en við þurfum einfaldlega að setja nándina inn í dagskrána. Það er mjög gott að skipuleggja kynlífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda