Auðvitað sýður upp úr!

Valgeir Magnússon skrifar um stöðu fólks með fíknisjúkdóma.
Valgeir Magnússon skrifar um stöðu fólks með fíknisjúkdóma. Samsett mynd

Valgeir Magnússon auglýsingamaður segir að allir eigi að fá að lifa mannsæmandi lífi en ekki við útskúfun og skömm eins og fólk með fíknisjúkdóma upplifir. Hann skrifar um þetta í nýjum pistli á Smartlandi. 

Aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum fíknisjúkra hefur verið svo gengdarlaust nú árum og áratugum saman að á einhverjum tímapunki hlaut að sjóða upp úr. Virðingarleysi og/eða fávisku virðist vera um að kenna. Meira og minna allar götur frá 1956 þegar Guðni afabróðir minn ásamt fleirum stóðu fyrir því að AA samtökin hæfu starfsemi á Íslandi, föstudaginn langa, hefur allt er við kemur sjúkdómnum verið sett í hendurnar á áhugasamtökum við að leysa þetta margslungna og erfiða heilbrigðisvandamál.

Niðurstaðan er biðlisti þar sem fjöldi manns lætur lífið árlega á meðan beðið er eftir hjálpinni sem fólkið hefur sóst eftir. Troðningur á bráðamóttöku þar sem sama fólk og er á biðlistanum er að reyna að sækja sér aðstoð vegna alls þess vanda sem er fylgisfiskur neyslu. Full fangelsi af fólki sem brýtur af sér í geðrofi, með skert siðferði eftir langvarandi neyslu eða í neyð til að redda sér næsta skammti. Brotnar fjölskyldur, vanrækt börn, foreldrar, makar og systkini með áfallastreituröskun og jafnvel óvinnufær eftir langvarandi álag og áhyggjur ásamt öðrum fórnarlömbum þeirra sem verða fyrir barðinu á fólki í óstjórn. Þannig erfist sjúkdómurinn enn frekar á milli kynslóða og vítahringurinn er aldrei rofinn.

En af hverju hættir þetta fólk ekki bara að nota og lætur sér að kenningu verða að vera á þessum hræðilega biðlista. Svarið er einfalt. Á meðan fíknin er við stjórnvölin þá ræður fólkið ekki við það. Fíknin stjórnar. Fólkið þarf læknisaðstoð á meðan eitrið er að yfirgefa líkamann. Það tekur á, það tekur tíma og það er í mörgum tilfellum lífshættulegt að hætta án þess að vera trappaður niður. Það er ekkert grín þegar fólk sem hefur verið langt leitt hættir að taka inn eitrið sitt. Fólk þarf því skjól og aðstoð til brjóta upp sín munstur, slökkva á ranghugmyndunum, læra að lifa lífinu á annan hátt og vinna í sínum áföllum.

Kröfur aðstandenda og fíknisjúkra eru ekki miklar. Einungis að heilbrigðiskerfið viðurkenni að sjúkdómurinn sé alvöru sjúkdómur og taki þar af leiðandi ábyrgð á honum eins og öðrum sjúkdómum. Að fólk geti fengið aðstoð þegar það þarf og vill. Að þurfa ekki að bíða heimilislaust mánuðum saman og vonandi lifa af.

Heilbrigðisráðherra hefur nýlega svarað fyrirspurn varðandi biðlistann á Alþingi. Þar var leikur að tölum á ferðinni um að biðlistinn væri styttri þar sem fólk væri í auknum mæli boðið að vera á göngudeild til að þurfa ekki að bíða á biðlistanum. Göngudeildin er engin lausn fyrir fólkið sem er á þessum langa biðlista. Veikasta fólkið er einmitt sama fólkið og þarf að bíða lengst. Það er fólkið sem er að deyja. Einnig gaf heilbrigðisráðherra upp meðalbið fólks eftir meðferð. Þar er líka verið að leika sér með tölfræði til að breiða yfir vandamálið. Þar sem yngsta fólkið er í forgangi ásamt fólki sem er að koma í fyrsta sinn til að leita sér aðstoðar. Það dregur að sjálfsögðu lengd biðarinnar niður að meðaltali. Einstaklingur sem er að koma eftir að hafa ekki náð að halda sér í bata og er eldri en 25 ára, þarf að bíða lengi eftir aðstoðinni. Fólk hefur undanfarið verið að bíða allt frá 6 mánuðum upp í 12 mánuði eftir innlögn. Fólk sem er í lífshættulegum aðstæðum og er ekki eitthvað meðaltal. Sumir bíða stutt og aðrir mjög lengi. Meðalbiðlengd gerir ekkert fyrir þann sem þarf að bíða yfir ár.Það er bið þeirra sem ekki eru á forgangslistanum sem fólk er að kvarta yfir. Ekki einhverju meðalltali og talnaleikfimi. Fólk sem er á biðlistanum er ekki fært um að standa upp fyrir sínum réttindum eða nokkuð annað. Þetta fólk er of veikt til að geta hugsað um annað en að komast í gegnum daginn á meðan það bíður eftir aðstoð. Þetta fólk er utan samfélagsins á meðan það er úti að þjást.

Fólkið á biðlistanum er búandi á götunni eða í gistiskýli við hræðilegar aðstæður. En gistiskýlið kostar einmitt meira í rekstri á hvern einstakling heldur en t.d. rekstur meðferðarstöðvarinnar í Krýsuvík. Það er því dýrara að hýsa fólkið á biðlistanum en að hjálpa þeim sem er ótrúleg staðreynd. Sumir eru heppnir og fá að búa inni á fjölskyldumeðlimum og hertaka því þeirra líf á meðan. Allir aðstandendur bíða í von og ótta um að sjúklingurinn lifi af og komist sem fyrst inn til að sækja sér hjálp.

Nú er kominn tími á að stjórnvöld átti sig á stærð vandamálsins. Átti sig á því að með því að sinna þessum sjúkdómi eins og öðrum sjúkdómum þá mun það skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Bæði fjárhagslega og í meiri lífsgæðum fyrir alla, hvort sem fólk er haldið sjúkdómnum eða ekki. Því alkóhólisti í bata er frábær þjóðfélagsþegn sem bætir sitt umhverfi, en alkóhólisti í neyslu er mjög dýr samfélaginu og skemmir sitt umhverfi.

Ég er staðráðinn í að mæta á mótmæli sem SAF – Samtök Aðstandenda og Fíknisjúkra ætla að standa fyrir á Austurvelli laugardaginn 9. desember kl. 13:00. Því það er tími til kominn að þessi sjúkdómur verði sýnilegur og samþykktur í samfélagi þar sem allir eiga að tilheyra og allir eiga að fá að lifa mannsæmandi lífi en ekki við útskúfun og skömm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda