Hvar eru allir mennirnir sem eru um 60 ára?

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

El­ín­rós Lín­dal fjöl­skylduráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hún fær spurn­ingu frá konu sem langar að hitta mann á ákveðnu aldursbili en hún veit ekki hvar er hægt að finna hann. 

Hæ,

ég er fráskilin og mig langar að athuga með, hvar væri mögulegt að hitta karlmenn á aldrinum 54 til 60 ára til að finna sér maka? Eru staðir í bænum fyrir þennan aldurshóp eða eru þeir flestir fyrir unga fólkið? Stundum eru auglýstar „einhleypur“ en það er bara fólk um þrítugt. Hvar eru allir hinir?

Bæ,

ein einmana

Hvar er besta leiðin til að finna karl í kringum …
Hvar er besta leiðin til að finna karl í kringum 60 ára? Á golfvellinum? Unsplash/Getty Images

Sælar. 

Þegar stórt er spurt þá er kannski fátt um svör. 

Ég held að karlmenn á þessum aldri séu ólíkir og séu bæði allsstaðar og hvergi. Karlmenn sem elska menningu og listir eru án efa í Þjóðleikhúsinu og í Borgarleikhúsinu. Karlmenn á þessum aldri sem kunna að meta tónlist, hljóta að vera í Hörpunni eða á öðrum tónleikastöðum. Svo eru karlmenn sem eru ekki mikið að fara út á meðal fólks, halda sig meira heima og fara kannski í sund eða út að ganga. Karlmenn fara út að borða, í búðina og í raun og veru ættu að vera nóg af körlum á þeim stöðum sem þú ferð á eftir daglega. 

Ég hitti eitt sinn konu sem fór reglulega á barinn að leita að manni. Dagsdaglega var hún hlaupakona, sundkona, elskaði að fara á listasýningar og fleira þar fram eftir götunum. Svo hitti hún loksins draumaprinsinn eina helgina á bar sem hún sagði vera fyrir fólk á besta aldri. Vandinn við prinsinn var að hann hafði ekki sama áhuga á lífinu og hún gerði. Hann vildi vera úti um helgar á meðan hún vildi borða góðan mat og fara út að hlaupa. 

Hún ákvað að hætta að hitta barfluguna og að fókusera bara á sitt líf aftur. Áður en hún vissi af var hún búin að eignast „kærasta“ hvert sem hún fór. Í sundi, í ræktinni, í útileguhópum og gönguhópnum sínum. Hún kallaði þá kærastana sína en í raun og veru var hún einvörðungu að æfa sig í að opna fyrir hugmyndina að eignast mann til að deila lífinu sínu með. 

Hún ákvað að prófa að stofna til sambands með manni sem hafði lengi verið góður vinur hennar úr hlaupahópnum. Þau eru í dag voðalega samrýmt og fallegt par.

Það sem þessi saga kennir okkur er að leita ekki langt yfir skammt. Og að velja okkur lífsförunaut sem er með svipuð gildi og við sjálf erum með.

Ekki gefast upp á því að leita að manni, hann gæti dottið ofan í vasa þína og það fyrr en þig grunar. 

Að lokum langar mig að hvetja karlmenn á því aldursbili sem nefnt er hér að ofan að senda mér línu og gefa innsýn inn í þeirra hugarheim. Hvar eruð þið? Hverju eruð þið að leita að? Hvar á þessi kona að finna ykkur?

Bestu kveðjur,

Elínrós Líndal ráðgjafi 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda