Getur faðir gert erfðaskrá og rýrt hlut sonar síns?

Ólafur Garðarsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Ólafur Garðarsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Ólafur Garðarsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá Jóni sem lét son sinn hafa veð í íbúð sinnar og eiginkonu sinnar. Nú borgar sonurinn ekki af láninu og segist vera á vanskilaskrá. Getur faðirinn gert erfðaskrá og látið soninn erfa lánið? 

Góðan dag! 

Jón heiti ég og er í vanda. Ég er kominn yfir sjötugt og farinn að telja niður. Ég er kvæntur indælli konu og eigum við tvö börn. Málið er að annað barnið er 35 ára og búið að fá lánað veð í íbúðinni okkar. Hann talaði hressilega af sér eftir að það var búið að skrifa undir. Við erum ekki borgunarmenn fyrir þessu láni og ef ég leyfi mér að minnast á að hann borgi aðra hverja greiðslu þá segir hlær hann bara og segist vera á vanskilaskrá. Ég er að hugsa um að gera erfðaskrá og erfa hann að láninu. Þetta er ekki grín. Get ég gert það? Ég er að hugsa um að ganga frá mér. 

Kveðja, 
Jón

Getur faðir gert erfðaskrá og erft son sinn að láni …
Getur faðir gert erfðaskrá og erft son sinn að láni sem sonurinn greiddi ekki af? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæll Jón.

Þakka þér fyrir spurninguna.  Það er gaman að heyra að þú sért kvændur indælli konu og eigir tvö uppkomin börn. Það verður ekki metið til fjár. Það er hins vegar ekki alltaf þannig að hægt sé að sleppa hendinni af börnunum þó að þau flytji að heiman. Stundum biðja þau um aðstoð og oft og tíðum reyna foreldrar að hjálpa þó aðstæður bjóði varla upp á það. Þarna sýnist mér þið hafa lánað syni ykkar veð í íbúð ykkar vegna hans skuldar sem hann lofaði að greiða af en hefur síðan ekki staðið við. Og nánast hlær framan í ykkur þegar þið minnið hann á þá augljósu staðreynd að þetta sé hans skuld og að hann eigi að greiða.

Sonur ykkar ber ábyrgð á skuldinni ef hann er skráður greiðandi en ef hann greiðir ekki er hægt að ganga að íbúðinni því hún stendur til tryggingar á láninu. Þú minnist réttilega á það að það er hægt að kveða á um það í erfðaskrá að við útgreiðslu arfs þá verði lánið, eða eftirstöðvar þess, dregið frá þannig að arfshlutur sonarins lækki sem nemur greiðslum ykkar og eftirstöðvum af áhvílandi skuld. Auk þess hafið þið heimild ef ykkur blöskrar framganga sonarins til að nýta 35 gr. erfðalaga og arfleiða í erfðaskrá hitt barnið ykkar að allt að 1/3 hluta eigna ykkar til viðbótar við hans arfshlut.

Þá erfir það barn fyrst 1/3 af eignunum og 2/3 eignanna skiptast milli barnanna tveggja auðvitað þegar skuldir hafa verið greiddar. Þar með fær sonurinn sem fékk veðið minni arf en hitt barnið.

Þú minnist á það í lokin að þú sért að hugsa um að ganga frá þér. Ég verð að reyna að tala þig ofan af því. Í fyrsta lagi þá viltu ekki skilja konu þína eftir í súpunni því lánið fer ekki af íbúðinni þó að þú heimsækir þann í efra, nú eða þá þann í neðra! Konan þín þarf þá ein að takast á við þann vanda sem að sonur ykkar skapar. Í öðru lagi eru nær alltaf einhverjar leiðir út úr vandamálum eða a.m.k. leiðir til að gera vandamálin bærilegri. Ef til vill getið þið hjónin skýrt málin út fyrir viðkomandi lánastofnun. Gert þeim grein fyrir því að þið ráðið ekki við afborganirnar en að þið mynduð hugsanlega ráða við þær ef hægt sé að lengja í láninu og þar með lækka afborganirnar. Og síðan mæli ég með því að þið reynið að tala við son ykkar í rólegheitum og gera honum grein fyrir því að þið getið ekki borgað af láninu og á endanum munu þið hugsanlega missa íbúðina ef hann ekki greiðir. Það getur verið besta lausnin að hafa hann með í ráðum þegar og ef þið talið við lánastofnunina. 

Kær kveðja,

Ólafur Garðarsson hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ólafi Garðarssyni og öðrum lögmönnum á lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda