„Ég held að flestum starfsmönnum Háskóla Íslands finnist þetta vandræðalegt“

Henry Alexander Henrysson er gestur í hlaðvarpi Spilavanda.
Henry Alexander Henrysson er gestur í hlaðvarpi Spilavanda. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki og rannsóknasérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, er gestur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Spilavandi. Henry hefur talað opinskátt um spilakassarekstur Háskóla Íslands en er jafnframt starfsmaður skólans. Henry var hvatamaður að því, í gegnum Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, að stofnaður var starfshópur hjá skólanum þar sem spilakassareksturinn var skoðaður frá öllum hliðum. Niðurstaða hópsins var eindregin - stór hluti tekna rekstursins kæmi frá fólki í vandræðum og því væri það siðferðislega rangt fyrir háskólann að fjármagna sig á þennan hátt.

„Ég held að flestum starfsmönnum Háskóla Íslands finnist þetta vandræðalegt. Finnst þetta óþægilegt. Og þetta er óþægilegt,“ segir Henry. 

„Auðvitað er erfitt fyrir háskólann að missa tekjurnar og maður skilur það en það eru aðgerðir sem hægt er að fara í til að minnka skaðann,“ segir Henry og telur til dæmis til spilakort sem minnka möguleika fólks á að tapa stórum fjárhæðum. „Ég held að enginn starfsmaður Háskóla Íslands myndi vilja að fjölskyldumeðlimur sinn færi inn á þess staði,“ bætir Henry við. „Það verður einhver að taka af skarið. Vera leiðandi og taka forystu í þessu.“

„Hálfgerðar vítisvélar“

Eftir setu í fyrrnefndum starfshópi hélt Henry að Háskóli Íslands myndi vera þetta leiðandi afl og hætta rekstri spilakassa. Svo var ekki.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum hvernig var brugðist við,“ segir Henry. „Fjármagnið kemur í gegnum skaðann. Fyrir mann sem er að fást við siðfræði er þetta „no brainer“.“

Henry segir að vissulega hafi spilakassarekstur Háskóla Íslands byrjað af góðum hug; fjáröflun til að fjármagna rekstur skólans. 

„Verkefnið okkar er að leiðrétta mistök fortíðarinnar,“ segir Henry og heldur áfram. „Saga happdrættis á Íslandi er mjög falleg að mörgu leiti, leið til að aðstoða mikilvæg málefni. Það þótti fínt að vera með miða í öllum happdrættunum. Núna erum við komin allt annað. Við náttúrulega vitum öll hvernig spilakassar í dag eru hannaðir til að valda skaðanum. Þetta eru hálfgerðar vítisvélar.“

Ekki sama hvaðan gott kemur

Henry segir að ekki sé hægt að skella allri ábyrgð á fyrirtæki og stofnanir heldur þurfi samfélagið allt að koma til móts við þessa aðila og hjálpa til við að bæta skaðann. Honum finnst afar bogið að starfsmenn Háskóla Íslands fari á vörusýningar í Las Vegas að skoða spilakassa og telur það vera hluta af stærri umræðu um siðferðislega hlið fjáröflunar. 

„Hugmyndin um að það sé sama hvaðan gott kemur á ekki við lengur. Við vitum betur. Ef þú skammast þín fyrir reksturinn þá er hann ekki í lagi. Þess vegna finnst mér skortur á aðgerðum, skortur á frumkvæði vera svartur blettur fyrir Háskóla Íslands.“

Því er oft haldið fram að ef Háskóli Ísland myndi hætta rekstri spilakassa myndi sá peningur fara eitthvað annað, til dæmis í erlendar veðmálasíður. Henry er ekki sammála þessari fullyrðingu 

„Það er órannsakað og þessu er bara skellt fram. Það þýðir samt ekki að það sé í lagi að bjóða upp á þetta,“ segir hann. „Þessir staðir eru oft tengdir annarri neyslu þar sem annars konar fíkn er studd. Þetta er vítahringur sem er óhugnanlegt að taka þátt í.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda