Reiði fólks í hlutfalli við stýrivexti

Valgeir Magnússon skrifar um reiði og pirring sem hrjáir fólk …
Valgeir Magnússon skrifar um reiði og pirring sem hrjáir fólk þessa dagana. Samsett mynd

Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um stemninguna í samfélaginu og veltir fyrir sér hvort hagfræði hafi áhrif á hugarfar fólks. 

Ég hef verið hugsi yfir reiði fólks í samfélaginu undanfarið og því hve orðræðan verður sífellt harðari og harðari. Fyrir nokkrum árum voru nettröllin nokkur og þau röfluðu út í eitt og enginn hafði miklar áhyggjur af því. Þetta fólk dæmdi sig bara sjálft. En núna virðist stór hluti þjóðarinnar hafa breyst í einhvers konar nettröll. Það eru góðu nettröllin og vondu nettröllin. Þau góðu hika ekki við að drulla yfir fólk sem ekki er á sömu skoðun og það og þau vondu smætta minnihlutahópa. Eftir stendur þögla miðjan sem fer minnkandi. 

Ég átti spjall við rafvirkja sem viðraði áhyggjur sínar af þessu og hann hélt því fram að með því að fjölmiðlar hafi sameinast góðu nettröllunum sé verið að sameina ölll vondu nettröllin í reiði og fjölga þeim. Við þetta æsast góðu nettröllin enn meira upp og þá erum við komin með pólaríseringu sem sé hættuleg. Þetta þótti mér áhugaverð og góð skýring. Eiginlega ágætis lýsing á því sem er að gerast í Bandaríkjunum þar sem gjá myndaðist á milli valdhafa/fjölmiðla og stórs hluta almennings sem ákvað þá að maður eins og Trump væri góð hugmynd.

En svo átti ég spjall við Mörtu Maríu sem oft hefur verið mjög nösk á að taka hitastigið á samfélaginu. Hún var með þá kenningu að stýrivextir hafi valdið því að fólk hafi ekki haft efni á „fixinu“ sínu. Þetta þótti mér áhugavert. Því við erum flest einhvers konar fíklar. Fíkn okkar getur verið Tene-ferð tvisvar á ári. Kaupa skó reglulega. Eða kaupa fallega hluti fyrir heimilið og setja mynd á Instagram. Eða endurnýja bílinn á 2ja ára fresti, nú eða bara fara reglulega á gott fyllerí. Hjá mér er „fixið“ að hreyfa mig. En þegar fólk verður þunglynt yfir því að eiga ekki fyrir afborgunum af húsinu sínu er erfitt að skreppa bara í ræktina og vera hress. Það þekki ég frá því í 90´s þegar ég var í slíkri stöðu. Hver hefur sitt „fix“.

Það er nefnilega þannig að þegar „fixið“ er tekið af okkur, sama hvað það er, þá byggist upp pirringur og á endanum brjálumst við. Og þegar fíkillinn brjálast þá veit hann ekki alveg af hverju hann er brjálaður. Hann veit bara að hann er brjálaður og að það er glatað að vera brjálaður út í ekki neitt. Þess vegna þarf maður að finna eitthvað til að verða brjálaður út í. Þar liggur hundurinn grafinn. Allir fíklar sem eru með uppsafnaðan pirring yfir því að fá ekki „fixið“ sitt gera annað af þessu tvennu: Fara á AA fund til að ná spennunni út eða finna eitthvað til að rífast yfir til að réttlæta reiðina og síðan að detta í það. Og við sem fáum ekki fixið okkar en teljum okkur ekki fíkla við höfum engan stað til að losa út spennuna og lyklaborðskast á netinu er ein leið.

Nú er því netið fullt af reiðu fólki sem í mörgum tilfellum áttar sig ekki á hvaðan reiðin kemur. Vandamálið er oft bara að það hefur ekki efni á „fixinu“ sínu, áhyggjur af vanskilum, minnkandi kaupmáttur. Það finnur því reiðinni útrás á lyklaborðinu og hendist út á stafrænan vígvöll til að berjast og fá útrás fyrir uppsafnaða reiði. Þetta magnast svo upp og áður en við vitum af geisar stríð á netinu.

Svo erum við með bergmálshellana sem efla fólk enn frekar í að segja hvað sem er því þar virðast allir vera sammála. Þá fær fólk kjark til að segja sínar skoðanir opinberlega þó svo að það sé að segja hluti um aðra sem það myndi aldei segja með viðkomandi viðstadda í raunheimum.

Til viðbótar vorum við öll mikið heima og í netheimum í tvö ár og margir hafa haldið áfram að lifa meira í netheimum en raunheimum eftir það. Þarna hætti fólk að tilheyra fjölbreyttum hópum og fór að tilheyra sér líkara fólki og þeir sem hafa aðrar skoðanir eru bara óvinir þínir. Það er okkur nefnilega svo mikilvægt að tilheyra. 

Hvað er til ráða? Fyrir einstaklinginn sem er reiður gæti verið hugmynd að hugsa fyrst og pikka svo. Eða byrja í jóga, hreyfa sig, fara niður í fjöru og öskra. Taka sér frí á samfélagsmiðlum eða hugsa þegar maður sér einhvern segja einhverja vitleysu. Hugsanlega líður þessum einstaklingi bara illa og þessvegna er þessi fullyrðing svona hart orðuð. Svo þurfum við að muna að það er ekkert rifrildi nema a.m.k. tveir rífist og að það þarf ekki að svara öllum nettröllum. Því ef við gerum það ekki þá verða þau að steini og gleymast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda