„Mér fannst samt skemmtilegast á Hrauninu“

Unnar Þór Sæmundsson komst í meðferð í Hlaðgerðarkoti og hefur …
Unnar Þór Sæmundsson komst í meðferð í Hlaðgerðarkoti og hefur verið edrú síðan. Ljósmynd/Tinna Barkardóttir

Unnar Þór Sæmundsson 33 ára og fjögurra barna faðir er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Hann ólst upp á Flúðum og var kominn í neyslu 11 ára gamall. Hann leiddist út í glæpi sem fylgja neyslunni en hefur nú náð bata frá fíkninni.

„Ég var gerður að blóraböggli og kennt um margt, hvort sem ég var sekur eða ekki, því ég var þessi ofvirki krakki sem fór mikið fyrir og vissulega var ég oft sekur en ekki alltaf,“ segir Unnar þegar hann rifjar upp uppvaxtarár sín á Flúðum. 

Hann minnist þess þegar móðir hans fékk símtal eitt skipti þegar hann sat inni á Kvíabryggju. 

„Ég sat inni og það var réttaball á Flúðum. Það höfðu brotist út slagsmál á ballinu og mamma fékk símtal daginn eftir þar sem henni var tjáð að ég hafði lamið mann og annan á ballinu. Þetta er týpískt dæmi um smábæjarbraginn þar sem búið er að ákveða hver gerandinn er án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því,“ segir hann og bætir við að mamma hans hafi glöð leiðrétt þennan misskilning í þetta skipti.

Grunnskólaga Unnars gekk ekki vel þótt hann hafi í sjálfu sér ekki átt erfitt með að læra. Hann segist aldrei hafa passað inn í boxið sem hinir voru inni í. Þegar hann var 11 ára far hann farinn að fikta við fíkniefni.

Á hraðferð inn í neysluheim

Unnar fór til Perú í skiptinám og kom heim í lok 10. bekkjar. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Laugarvatni en þá var neyslan komin úr böndunum og hann var farinn að brjóta af sér til að fjármagna neysluna. 

„Ég man að einn vinur minn sagði við mig að maður gæti ekki farið bara með annan fótinn inn í þennan heim svo ég fór „all in“. Hann meinti það auðvitað ekki þannig,“ segir Unnar sem sat í fyrsta skipti inni þegar hann var 19 ára gamall. Á þeim árum snérist lífið um neyslu og ofbeldi. 

„Mér fannst samt skemmtilegast á Hrauninu, það var mest að gera þar, tíminn var fljótastur að líða þar inni,“ segir Unnar og bætir við: 

„Ég var heppinn þegar ég lauk afplánun í síðasta skipti að eiga konu og heimili en það eru ekki allir eins heppnir,“ segir hann. 

Varð edrú í Hlaðgerðarkoti

Unnar hefur verið í bata í átta ár en hann fór í meðferð á Hlaðgerðarkoti og tók meðferðina mjög alvarlega. Eftir meðferð fór hann á 120 fundi á 90 dögum en eftir það hætti hann að mæta á fundi. 

„Ég tók ákvörðun þegar ég gerði mér grein fyrir að ég gæti ekki notað að ég vildi algjört frelsi og eftir þessa miklu fundasókn fannst mér ég ekki frjáls, eins og ég vildi vera. Ég geri bara mitt en fæ alveg skít fyrir það,“ segir hann. 

Unnar brennur fyrir málefni jaðarsettra og hefur sterkar skoðanir. Hann vill ganga svo langt að regluvæða vímuefni og segir að afglæpavæðing sé hreinlega ekki nóg, þó hann vilji það líka. Hann talar um ábyrgð stjórnvalda og samfélagsins gagnvart þessum hópi fólks og þetta snúist einungis um pólitískan vilja, það séu til nóg af peningum.

„Hvar eru neyslurýmin sem búið er að samþykkja? Það vill enginn sjá vandamálið og þingið felldi frumvarp um afglæpavæðingu, meira að segja þeir sem höfðu talað með því greiddu atkvæði gegn því,“ segir hann. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda