Leynistaður hamingjunnar

Að finna gleðina í því einfalda og að það gefi …
Að finna gleðina í því einfalda og að það gefi raunverulega lífsfyllingu að gera praktíska hluti er skilgreining á einhverju. Ég veit bara ekki alveg hverju. Er þetta kannski bara leynistaður hamingjunnar? Samsett mynd

Páskarnir eru stærsta hátíð kirkjunnar og því er kannski ekkert skrýtið að hún sé í uppáhaldi hjá mörgum. Páskarnir boða birtu og yl og auðvitað heilmikið súkkulaðiát og upprisu. Þessari kristilegu hátíð fylgir lítið stress – nema fólk sé mjög álagssækið og óþekkt. Flestir geta bara notið þess að vera þeir sjálfir í friði hvort sem þeim hugnast að haga sér eins og þeir séu í lífslokameðferð eða kjósa að labba án mikilla fata upp Esjuna eins og Gummi Emil.

Á dögunum hitti ég framakonu nokkra á snyrtistofu. Henni hefur vegnað vel og virtist ánægð með hlutskipti sitt í lífinu. Við sátum hlið við hlið í titrandi nuddstólum með buxnaskálmarnar brettar upp að hnjám á meðan dauðar húðfrumur voru fjarlægðar af fótunum. Þeim var svo pakkað inn í plastpoka með fótakremi og látnir taka sig en svo voru neglurnar pússaðar og lakkaðar.

Hún spurði hvort ég ætlaði eitthvað um páskana. Ég sagðist vera búin að vera á svo miklum þeytingi, líkamlega og andlega, að ég sæi páskana í hillingum þar sem ég gæti magalent í friði. Ég gæti skriðið í friði yfir þröskuldinn á útihurðinni miðvikudaginn 27. mars þar sem mín biðu verðug verkefni. Svo fór ég ítarlega yfir það hvernig ég ætlaði að endurskipuleggja skápana í þvottahúsinu, sortera snúrur, fara í Sorpu og bera olíu á gluggana að innan þegar búið væri að pússa þá upp. Og svo ætlaði ég að þvo gardínurnar og hægelda skrokk og finna góðan felustað fyrir páskaegg sonarins og eiginmannsins.

Hvernig væri að ryksuga upp allt glimmerið og taka til?
Hvernig væri að ryksuga upp allt glimmerið og taka til? Unsplash

Einhvern veginn bjóst ég við að heyra hrotur úr næsta stól. Hún hefði sofnað því leiðinlegri sessunaut er líklega ekki hægt að hafa á snyrtistofu. Mér til undrunar var hún glaðvakandi með augun sperrt. Hún leit á mig og sagði: „Ég er að tengja.“ Hún þráði að fá marga daga til þess að fá að taka til í friði, endurskipuleggja, þrífa og losa sig við dót sem eitt sinn var bráðnauðsynlegt að eignast en nú vildi hún helst að það væri eign einhvers annars.

Það er hægt að velta fyrir sér hvort þetta sé aldurinn? Eru konur á okkar aldri svona? Eða eru þetta lægðirnar sem ganga yfir landið? Óbreyttir stýrivextir? Kaup Landsbankans á TM? Eða áhyggjur af fjármögnun á nýrri þjóðarhöll? Eða er þetta andleg þreyta vegna offramboðs af forsetaframbjóðendum?

Á hvaða stað er manneskja sem vill verja páskunum með Brené Brown í eyrunum á meðan hún tekur til? Er hún leiðinleg eða er hún kannski bara að njóta lífsins í botn? Að finna gleðina í því einfalda og að það gefi raunverulega lífsfyllingu að gera praktíska hluti er skilgreining á einhverju. Ég veit bara ekki alveg hverju. Er þetta kannski bara leynistaður hamingjunnar? Er ekki alltaf verið að segja að hinir gjörspilltu Vesturlandabúar finni ekki hamingjuna því þeir eru alltaf að leita að einhverju sem er ekki til. Einhverri fullkomnun sem veitir augnabliksglit en gufar svo upp.

Ég er auðvitað ekki með svarið. Eina sem ég veit er að ég verð með mjög mjúkar tær og vel lakkaðar þegar gluggarnir verða pússaðir og olíubornir. Ég hlakka til. Er mjög spennt. Sælir eru einfaldir!

Gleðilega páska!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda