„Ég var spíttsalinn í Adidas-gallanum á Prikinu“

Jóhann Dagur Þorleifsson er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.
Jóhann Dagur Þorleifsson er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman. Ljósmynd/Tinna Barkardóttir

Jóhann Dagur Þorleifsson, eða Jói Dagur eins og hann er kallaður, er 35 ára. Hann er ættaður af Skaganum, þótt hann sé eiginlega bæði héðan og þaðan. Hann segist hafa fundið fyrir fíkn þegar hann var lítill drengur. Hann er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

„Ég man að ég fékk peninga fyrir nammi, fór út í sjoppu og keypti fyrir allan peninginn og kláraði það en fannst það ekki nóg svo ég bað mömmu og pabba um meiri peninga. Þau sögðu nei. Ég tók málin í mínar hendur og fór út í sjoppu með lítinn vasahníf og hræddi einn strák til að láta mig fá sinn nammipening. Ég var aldrei að fara að stinga neinn en þurfti meira,“ segir Jói Dagur og segist hafa verið mjög ánægður með að hafa reddað sér meira sælgæti eða þangað til hann kom heim og fékk óblíðar móttökur frá móður sinni.

„Komdu með hnífinn,“ hafði móðir hans sagt en þá höfðu foreldrar drengsins haft samband við forelda Jóa Dags og sagt þeim frá því hvað hafði gerst í sjoppunni.

Þegar Jói Dagur var sjö ára gamall lenti hann í alvarlegu bílslysi þar sem hann fékk glerbrot inn í heilann. Hann hlaut heilaskaða við þetta og missti málið um tíma. Frænka hans lét lífið í slysinu en hún sat við hlið hans í bílnum. 

„Ég man að ég reyndi að segja eitthvað þarna en ég gat það ekki. Ég vissi bara ekki af hverju. Ég fór í stóra heilaskurðaðgerð og var í dái eftir það. Læknarnir voru búnir að úrskurða mig grænmeti og búnir að segja mömmu minni það en svo allt í einu vaknaði ég bara,“ segir Jói Dagur. 

Hann missti minnið einnig við skaðann

„Það er ótrúlega erfitt að vera sjö ára og muna ekkert og kunna allt í einu ekki að tjá sig en eftir þetta var ég líklega líka erfiður,“ rifjar hann upp.

Hann segir að skólagangan hafi gengið vel þegar hann sjálfur var við stjórn og vildi að hún gengi vel. Þegar hann var spurður að því hver væri hans uppáhaldstími í skólanum nefndi hann frímínútur. Á eftir frímínútunum kunni hann best við sig í verklegum fögum og stóð sig vel þegar honum fannst gaman. 

Eftir bílslysið flutti fjölskyldan mikið og upplifði Jói Dagur töluvert rótleysi en segir að það hafi ekki komið að sök. Hann sé í grunninn félagslyndur og eigi auðvelt með að eignast vini og nálgast fólk.

„Ég hef líklega verið í öllum flokkum eða hópum krakka. Þessum venjulegu, strítt öðrum og verið strítt.“

Byrjaði að reykja 10 ára

Jói Dagur byrjaði að reykja sígarettur aðeins tíu ára gamall. Þegar hann komst á unglingsaldur fannst honum kannabisreykingar áhugaverðari.

„Himnarnir opnuðust upp á gátt þegar ég reykti hass en ég varð ekkert ofurseldur strax enda bjó ég mikið úti á landi og aðgengi ekki mikið fyrir unga krakka. Ég nýtti öll tækifæri sem ég fékk samt,“ segir hann. 

Hann byrjaði að drekka í framhaldsskóla en það var aðallega vegna hópþrýstings. Allir drukku. Hann missti strax tökin á drykkjunni og skildi ekki af hverju djamm þyrfti að einskorðast við helgar.

„Vinir mínir sögðu við mig að það væri ekki eðlilegt að drekka á virkum dögum en ég var ekki sammála. Ég fór í FB og klúðraði því auðvitað, enda var ég bara að djamma,“ segir hann. 

Kynntist læknadópi í strætó

„Ég sat í strætó og það settist fullorðinn maður við hliðina á mér og spurði hvort ég væri með peninga og hvort ég vildi kaupa Ritalin og Rivotril. Ég sagðist vera með eitthvað og spurði hvað það kostaði og hann sagði að þetta væri akkúrat nóg fyrir tveimur rivo. Svo fékk ég símanúmerið hans og tók svo þessi lyf. Þetta var alveg nýtt dóp fyrir mér og mjög spennandi,“ rifjar hann upp. 

Svo neyslan jókst og tók breytingum. Jói Dagur var í vinsælum hljómsveitum og náði alltaf að sinna þeim því tónlistin var ástríða hans. 

21 árs gamall breyttist margt en þá var hann með tveimur vinum sínum, sem báðir eru látnir í dag. Þeir notuðu vímuefni í æð og Jói Dagur sá að þeirra víma væri miklu meiri en hans.

„Ég hafði alltaf sagt að ég myndi aldrei sprauta mig. Ég leit niður á það en þarna setti ég samasemmerki milli þess að því meiri víma því betra líf og ákvað að sprauta mig í fyrsta skipti, þá opnuðust himnarnir.“

Jói Dagur var búinn að eiga töluvert langa neyslusögu þegar hann fór í sína fyrstu innlögn á Vog. Hann taldi sig þó ekki þurfa frekari meðferð en efldist mikið við það hversu ánægt fólk var með hann þegar hann kom út. Honum fannst frekar ýkt að þurfa að hætta að lifa lífinu, eins og hann sá það, þó hann væri orðinn edrú svo hann fór að selja fíkniefni, mæta í partý og á djammið auk þess að dæla í sig sterum.

„Ég var spíttsalinn í Adidas-gallanum á Prikinu og það dugði í tvö og hálft ár. Eftir tvö ár var ég orðinn eitthvað pirraður svo vinur minn stakk upp á því að ég kæmi með honum á fund, sem ég gerði. Þar elskaði ég að hlusta á neyslusögur og kíkja á stelpurnar,“ segir hann.

Kærastan fyrirfór sér á Vogi 

Eftir smá tíma í samtökunum var hann kominn í samband með stelpu þar og þau fluttu inn saman og trúlofuðu sig. En svo duttu þau í það og þá hætti að vera gaman. 

„Eins og neyslusambönd eru þá drógum við það versta fram í hvort öðru og svo endaði það. Ég gleymi því aldrei síðasta símtalinu okkar því stuttu seinna hengdi hún sig inni á Vogi. Þennan dag breyttist allt,“ segir hann. 

Þegar allt var farið úr böndunum bjó Jói Dagur í 10 fermetra kompu en leið eins og hann væri kóngurinn í kompunni því hann hafði tekið það í sátt að þetta væri það líf sem honum væri ætlað.

„Ég var búin að reyna oft, fara hring eftir hring í meðferð en féll alltaf strax svo ég var búinn að taka þetta líf í sátt. Á meðan ég bjó í þessari kompu var ég samt í hljómsveit sem spilaði tvisvar á Secret Solstice og Airwaves.“

Það var á seinni Secret Solstice hátíðinni sem hann sprautaði sig í síðasta skipti en hann hafði verið að velta því fyrir sér hvort hann ætti eitthvað betra skilið í þessu lífi.

„Ég var inni á VIP-klósettinu á Solstice að sprauta mig og sé mig í spegli á meðan þegar ég hugsa bara nei, er þetta það sem ég vil gera? Ég tók nálina úr hendinni á mér og hætti að sprauta mig.“

Fundu fenta-plástra og leið eins og lottóvinningshöfum

Aðspurður hvað hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að fara aftur í meðferð og verða edrú segist hann hafa farið að hugsa. 

„Hvað ef allt þetta sem allir hafa verið að segja er satt og ég sé búin að hafa rangt fyrir mér?“

Hann hafði hringt á Vog og lagt inn beiðni í innlögn en biðin voru sex mánuðir svo við tók sex mánaða lokadjamm sem var auðvitað ekki djamm heldur sukk. Á miðju skralli, með tveimur vinum sínum, sem báðir eru látnir í dag, kom hringingin frá Vogi.

„Ég og vinur minn vorum uppi í stúdíói að rúlla jónu þegar við fundum fenta-plástur og fannst við heldur betur hafa dottið í lukkupottinn. Hann fékk sér smók og fór svo út að reykja, þegar hann kom inn var ég í öndunarstoppi. Hann reynir að vekja mig með köldu vatni, hnoðar og blæs en ekkert virkar en i örvæntingu kveikir hann í servíettu og brennir á mér höndina og ég vakna eftir 40 mínútur. Þetta hefði ég ekki átt að lifa af en með annars og þriðja stigs bruna á hendinni var það fyrsta sem ég gerði var að fá mér aftur.“

Jói Dagur fór í meðferð þegar hann fékk símtalið, var að vísu búinn að gleyma að hann ætti beiðni en ákvað að fara og gera hlutina öðruvísi en öll hin skiptin. 

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda