„Þessar áskoranir eru mjög algengar í ADHD parasambandi“

Kristbjörg Kristjánsdóttir og Anna Elísa Gunnarsdóttir hafa sameinað krafta sína …
Kristbjörg Kristjánsdóttir og Anna Elísa Gunnarsdóttir hafa sameinað krafta sína á námskeiði um ADHD í nánum samböndum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Nýverið voru birtar niðurstöður úr meistaraverkefni Júlíu Helgu Jakobsdóttur félagsráðgjafanema sem vöktu mikla athygli, en í rannsókninni skoðaði hún reynslu einstaklinga með ADHD í parasamböndum. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að íslensk pör þurfi mun meiri fræðslu um ADHD og stuðning en gengur og gerist.

Þær Kristbjörg Kristjánsdóttir og Anna Elísa Gunnarsdóttir hafa svarað því ákalli og sett saman námskeið um ADHD í nánum samböndum sem hefur þegar verið haldið einu sinni. Báðar hafa þær reynslu af því að vera í sambandi þar sem annar aðilinn er með ADHD, en Kristbjörg er sjálf með ADHD á meðan eiginmaður Önnu Elísu er með ADHD. 

„Við þurfum augljóslega að gera betur þarna. Án fræðslunnar og gagnkvæms skilnings í sambandinu grípur fólk oft í mjög óhjálpleg bjargráð eins og að spegla maka sinn á neikvæðan og óuppbyggilegan hátt. ADHD hefur áhrif á báða aðila í sambandinu og þessi dýnamík sem skapast á milli fólks kemst hraðar í góðan farveg þegar báðir aðilar eru í samtalinu og taka ábyrgð,“ segir Kristbjörg, en hún er sérhæfður ADHD markþjálfi frá ADD Coach Academy í New York-borg og rekur eigin stofu, ADHD markþjálfun Kristbjargar. 

Anna Elísa tekur undir það og bætir við að það sé mjög mikilvægt að báðir aðilar í sambandinu þekki ADHD-einkennin. „Það er ekki nóg að bara einstaklingurinn sem er með ADHD þekki sín einkenni, heldur þarf maki hans líka að þekkja þau. Það getur komið í veg fyrir ágreiningsmál sem gjarnan koma upp vegna skorts á þekkingu og skilningi,“ segir hún, en Anna Elísa er félagsráðgjafi að mennt og útskrifaðist með starfsréttindi frá Háskóla Íslands árið 2015, en í dag starfar hún sem félagsráðgjafi hjá endurhæfingarúrræði hjá Reykjavíkurborg. 

„Við leggjum kapp á að hafa heimilislífið ADHD-vænt“

Kristbjörg hefur verið með eiginmanni sínum í 22 ár, en hún fékk ekki ADHD greiningu fyrr en eftir fertugt. „Við eigum tvö börn, 11 og 15 ára, sem bæði eru með ADHD. Það kom okkur báðum svolítið á óvart þegar ég og börnin fengum greiningu enda vissum við ekki mikið um ADHD þá. Í kjölfarið á greiningunum sökktum okkur ofan í bækurnar, rannsóknir og greinar og fundum heilmikið af fríu en vönduðu efni fyrir börn og fullorðna. Ég get sem dæmi mælt með ADDITUDE.com. Það tímabil var mjög gott fyrir okkur og við upplifðum fjölmörg dýrmæt „aha! móment“. Í dag eru allir í fjölskyldunni svolitlir ADHD sérfræðingar enda er það algjört norm á heimilinu,“ segir hún. 

Anna Elísa er ekki með ADHD sjálf heldur er eiginmaður hennar með ADHD greiningu. „Við höfum verið saman í sautján ár og gift frá árinu 2014. Við eigum tvö börn saman, fimm og átta ára. Maðurinn minn fékk sína greiningu fyrir um þremur árum síðan, þá orðinn 33 ára. Það var gríðarlega mikilvægt og jákvætt fyrir okkar samband að fá þessa staðfestingu á ADHD. Við leggjum kapp á að hafa heimilislífið ADHD-vænt og erum stöðugt að læra eitthvað nýtt í tengslum við ADHD,“ útskýrir hún.

Kristbjörg og Anna Elísa hafa báðar áralanga reynslu af því …
Kristbjörg og Anna Elísa hafa báðar áralanga reynslu af því að vera í sambandi þar sem annar aðilinn er með ADHD. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristbjörg segir  ADHD hafa áhrif á skynjun, tjáningu og viðbragð og þar af leiðandi hvernig við tengjumst fólki. „Við getum líka verið að glíma við áskoranir tengdar stýrifærninni sem eru atriði eins og t.d. minnið, skipulagning, sjálfsvitund, tilfinningastjórn og athygli. Sumir geta átt það til að gleyma því sem það er beðið um á meðan aðrir geta átt í vandræðum með tímaskyn, skipulagningu og yfirsýn.

Fólk með ADHD getur líka verið viðkvæmt fyrir gagnrýni og brugðist illa við þegar það fær athugasemdir frá öðrum. Það getur líka virkað dónalegt og tillitslaust ef því liggur hátt rómur og það tekur mikið pláss í samræðum. Það er mikilvægt að þekkja einkenni ADHD og vita muninn á t.d. ofvirkni og dónaskap til að koma í veg fyrir misskilning og mistúlkun. En það er einmitt þessi mistúlkun annarra á hegðun okkar sem skapar gjá á milli fólks. Það sama á við um árekstra í parasamböndum, þeir eru algengastir þegar fólk er ekki samstíga, þekkir ekki styrkleika hvors annars og kann ekki vinna með áskoranirnar,“ segir hún.

„Ég upplifði okkur hjónin oft á sitthvorri bylgjulengdinni“

Kristbjörg og Anna Elísa hafa báðar upplifað áskoranir og erfiðleika sem tengjast ADHD í sínum samböndum, en Kristbjörgu þótti áskoranirnar aukast eftir að hún stofnaði fjölskyldu og álagið varð meira. 

„Fólk með ADHD hefur almennt mikla seiglu og dug sem er æðislegur styrkleiki en mörg okkar skynja ekki hvenær á að stoppa, hægja á og hlaða batteríin. Við erum því í miklum áhættuhópi til að keyra okkur í þrot með því að vera með allt of mikið í gangi.

Ég er engin undantekning frá því. Á meðan ég var með gjörsamlega óraunhæfar væntingar í gangi og skildi ekki hvernig ADHD heilinn minn virkaði var mikil streita og það bitnaði auðvitað á öllum, ekki bara mér heldur maka mínum og börnum. Þá vorum við oft pirruð og taugakerfið þanið, árekstrar voru tíðari og ég upplifði okkur hjónin oft á sitthvorri bylgjulengdinni. Um leið og við skildum ADHD áskoranir mínar og styrkleika gátum við aðlagað skipulagið eftir því og náð að vera betur samstíga í því sem við tókum okkur fyrir hendur,“ segir Kristbjörg.

Anna Elísa segir helstu áskoranirnar sem hún og eiginmaður hennar hafi mætt í þeirra sambandi vera tengdar samskiptum og verkaskiptingu heimilisins. „Þessar áskoranir eru mjög algengar í ADHD parasambandi, enda kom það skýrt fram í niðurstöðum íslensku rannsóknarinnar um áhrif ADHD í parasamböndum. Ég upplifði t.d. ákveðna höfnun þegar ég fékk ekki athygli frá manninum mínum í samræðum – þegar athyglisbresturinn náði yfirhöndinni – og það var orðið íþyngjandi fyrir okkur bæði að ég tók að mér að muna eftir flestu fyrir heimilið. Í dag erum við hinsvegar stöðugt að vinna að því að sinna þriðju vaktinni saman ... Það gerist nefnilega stundum að makinn sem er ekki með ADHD beri of mikla ábyrgð á heimilinu. Dæmi eru um að sá aðili verði þroskaþjófur, þ.e. taki fram fyrir hendurnar á ADHD makanum, sérstaklega í tengslum við heimilisverkin,“ segir hún.

„Ég datt sjálf í þá gryfju. Það sem gerist þá er að ADHD makinn lærir að hinn makinn reddi málunum, og fær þá ekki tækifæri til að spreyta sig og axla ábyrgð. Þetta getur valdið ákveðinn gremju í sambandinu, sem er stundum líkt við það að makinn sem er ekki með ADHD verði eins og skammandi foreldri við hinn makann. Þá erum við komin út á hálan ís!“ bætir Anna Elísa við.

„Flestir sem hafa ADHD eru líka með einhverjar fylgiraskanir“

Þó áskoranirnar geti verið ólíkar eftir einstaklingum og samböndum segja Kristbjörg og Anna Elísa fylgiraskanir oft geta verið erfiðustu einkenni ADHD í samböndum. „Eitt erfiðasta einkenni ADHD í samböndum er þegar fólk hefur RSD (e. rejection sensitive dysphoria) á háu stigi sem er ótti við að vera hafnað, niðurlægt eða valda vonbrigðum. Ef annar aðilinn eða báðir hafa viðkvæmni fyrir höfnun er ansi líklegt að það sé álag á sambandinu hvort sem það er parasamband eða annað. Sumir upplifa RSD mjög sterkt á meðan aðrir fá vægari einkenni.

Ef þú hefur sterk einkenni og ert í parasambandi er líklegt að þú fylgist vel með hegðun maka þíns og vísbendingum um að hann sé að hafna þér, fara frá þér eða að útskýra fyrir þér hversu mikil vonbrigði þú ert fyrir hann. Þetta býr til mikla streitu, kvíða og vanlíðan. Hugsunin ein og sér getur „triggerað“ sterk viðbrögð og hegðun sem erfitt er að stjórna eins og reiði og grátköst. Þetta skapar stormasamt augnablik sem á sér fullkomlega góða skýringu í ADHD fræðunum en fyrir einstaklingnum sem lenti í storminum er þetta kannski algjörlega óskiljanleg hegðun,“ útskýrir Kristbjörg.

„Aðrar algengar fylgiraskanir eru t.d. kvíði, þunglyndi og svefnvandi. Það getur verið mjög gagnlegt að átta sig á fylgiröskunum og þekkja þau einkenni líka. Flestir sem hafa ADHD eru líka með einhverjar fylgiraskanir sem hafa oft bein eða óbein áhrif á ADHD einkennin.
Tökum svefnvandann sem dæmi. Dæmigerð svefnvandamál hjá einstaklingi með ADHD er að eiga t.d. erfitt með að sofna (erfitt að slökkva á heilanum) eða sofa létt og vakna oft á nóttunni. Langvarandi svefnvandi eykur og ýkir hamlandi ADHD einkenni, ásamt því að hafa áhrif á alla almenna heilsu. Það að vinna með fylgiraskanir ADHD getur því bætt lífskjör til muna,“ segir Anna Elísa.

Þótt ýmsar áskoranir geti fylgt ADHD í nánum samböndum geta líka verið ákveðnir kostir sem fylgja því. „Það hefur komið sér mjög vel fyrir heimilið þegar maðurinn minn fær ofur áhuga á einhverju, t.d. bílaviðgerðum – hann leggur sig þá allan fram við að læra hvernig á að gera við það sem er bilað og fer svo bara og gerir við bílinn! Hann er mjög fróðleiksfús og elskar að segja mér frá hinu og þessu sem hann var að komast að,“ segir Anna Elísa. 

„Fólk með ADHD hefur almennt mjög sterkt innsæi, hefur sterka réttlætiskennd og góða tilfinningagreind. Slíkir kostir koma sér mjög vel í samskiptum og samböndum. Við finnum um leið ef einhverjum líður illa og við erum alltaf tilbúin að gera eitthvað í því. Margir sem leita til mín í ADHD markþjálfun eru oftar en ekki sá aðili í sambandinu eða vinahópnum sem allir leita ráða hjá. Fólk sem leggur mikið á sig fyrir aðra og er tilbúið að leysa málin. Rannsakaðir eiginleikar fólks með ADHD gefa til kynna að það sé einstaklega úrræðagott, sjaldan langrækið og eiga auðvelt með að þykja vænt um aðra,“ segir Kristbjörg.

Algengustu árekstrarnir tengjast daglegu lífi

Kristbjörg segir algengustu árekstrana í ADHD samböndum venjulega tengjast daglegu lífi, t.d. daglegum samskiptum, skipulagi og hver á að gera hvað. „ADHD býr nefnilega ekki til ný vandamál heldur ýkir þau sem eru algeng fyrir í nánum samböndum. Ef fólk er að glíma við erfileika tengdum því að hafa stjórn á hegðun og tilfinningum geta að sjálfsögðu kviknað um áskoranir tengdar því.“

Spurðar hvort þær séu með ráð fyrir pör sem glíma við þessa daglegu árekstra segja Kristbjörg og Anna Elísa að fræðsla um einkenni ADHD sé númer eitt, tvö og þrjú. „Dýnamíkin á heimilinu okkar gjörbreyttist þegar ADHD einkennin urðu viðurkennd af okkur báðum og við gátum farið að vinna með þau. Til að vinna með daglega árekstra krefst þess svo að fólk sé tilbúið að horfa á hlutina út frá sjónarhorni hins aðilans, og fókusa á það jákvæða frekar en það neikvæða,“ segir Anna Elísa. 

„Þegar fólk skilur hvort annað og ákveður að búa til pláss fyrir hvort annað eins og það er, verður allt svo miklu léttara. Í stað þess að pirrast út í maka þinn eða samskiptin getið þið fundið nýjar leiðir til að gera hlutina. Það er svo mikilvægt að eiga samtalið um hvað er að virka og hvað ekki – sleppa ásökunum og reyna heldur að hugsa í lausnum.

Á mínu heimili áttuðum við okkur t.d. á því að heimilisþrifin voru endurtekið vandamál. Við vorum ekki með sömu kröfur og væntingar og upplifðum mikinn létti þegar við byrjuðum að borga fyrir þrif tvisvar í mánuði. Allt í einu áttum við aðra hvora helgi lausa til að gera eitthvað skemmtilegt og hlaða batteríin í stað þess að vera ósammála yfir þrifunum,“ segir Kristbjörg. 

„Það er mikilvægt að vera samstíga“

Þá segja Kristbjörg og Anna Elísa að hægt sé að nota ýmis verkfæri til að auðvelda samskipti milli para. „Það er mikilvægt að vera samstíga og þá getur líka verið hjálplegt að vera með sameiginleg gildi og markmið fyrir sambandið, heimilið eða fjölskylduna. Velta því fyrir sér hvort þið séuð að stefna að því sama og vinna í takti að því markmiði.

Fyrir þetta praktíska er mjög gott að nota sameiginlegt dagatal og setja öll stefnumót og skipulag þar inn, t.d. ef fólk þarf að samstilla afnot af bíl eða hafa skipulag yfir matarinnkaup og annað. Ég mæli eindregið með vikulegu spjalli, t.d. á sunnudagskvöldum, til að renna yfir komandi viku, ræða það sem er óskýrt og jafnvel setja upp tilkynningar (e. notifications) til að eiga auðveldara með að muna.

Það er líka algjört lykilatriði að fólks sé að gera raunhæfar væntingar til hvors annars og til sjálfra síns og finna leiðir sem henta báðum aðilum. Ef streita er í sambandinu eða fólk er ekki að ná saman er gott að leita til ADHD markþjálfa, sálfræðings, félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa eða annars sérhæfðs aðila sem er vel að sér í ADHD. Það er ekki dæmi um ósigur að leita sér aðstoðar heldur sýnir það vilja til að rækta sambandið og finna leiðir sem virka. Það getur verið mjög hjálplegt að sækja sér aðstoð til að skilja sjálfan sig, skoða hvar eru tækifæri til að vaxa, læra inn á hvort annað, læra að tjá sig og gera raunhæfar væntingar til hvors annars,“ segir Kristbjörg. 

„Ég tek heilshugar undir það að hafa sameiginlegt dagatal sem er aðgengilegt í síma. Það hefur reynst okkur báðum gríðarlega vel. Svo skiptir öllu máli að parið gefi sér tíma til að tala saman, þori að ræða tilfinningar sínar og það sem þeim finnist að mætti betur fara í sambandinu. Í því samhengi er gagnkvæm virðing og traust lykilatriði. Ef það skortir þá er hugsanlega tilefni til að fá utanaðkomandi aðstoð við samskiptin,“ segir Anna Elísa.

Næsta námskeið um ADHD í nánum samböndum er á dagskrá næsta haust, en á námskeiðinu er meðal annars farið yfir þætti sem mikilvægt er að þekkja og skilja sem eiga rætur sínar að rekja til ADHD-sins. „Við ræðum mismunandi samskiptamynstur, aðferðir, gryfjur og verkfæri sem geta einfaldað lífið og létt undir með fólki,“ segja þær að lokum og hvetja áhugasama að fylgjast með námskeiðum á vegum ADHD samtakanna sem og hjá ADHD markþjálfun Kristbjargar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda