Er ekki borgunarmaður fyrir skuldum

Íslenskur karl leitar ráða vegna yfirvofandi gjaldþrots.
Íslenskur karl leitar ráða vegna yfirvofandi gjaldþrots. Frank van Hulst/Unsplash

Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem þarf að fara í gegnum gjaldþrot á Íslandi vegna gamalla skulda og leitar ráða. 

Halló

Ég hef búið erlendis undanfarin 14 ár og bý í landi sem er ekki í EES og ekki í Evrópusambandinu. Ég er ekki á leiðinni að flytja aftur til Íslands.

Ég þarf að fara í gjaldþrot á Íslandi vegna gamalla skulda, sem eru eldri en 10 ára og er því miður enginn borgunarmaður fyrir. Ég á engar eignir í því landi sem ég bý fyrir utan ódýran bíl sem ég nota til að komast til vinnu. Ég veit hvernig ferlið gengur fyrir sig ef ég byggi á Íslandi. En getur þú vinsamlegast útskýrt fyrir mér hvernig ferlið er þar sem ég bý erlendis. Til dæmis hvaða úrræði hefur skiptastjóri gagnvart mér búandi í öðru landi?

Kærar þakkir, 

ND

Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll ND. 

Miðað við atvikalýsingu þína er ljóst að þú ert ekki með lögheimili á Íslandi. Í íslenskum gjaldþrotarétti er meginreglan sú að einstaklingur verður að eiga lögheimili hér á landi til þess að ákvæði laga um gjaldþrotaskipti eigi við. Þröng undantekning á þó við um íslenska ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili hér á landi, ef þeir eru undanþegnir lögsögu dómstóla í öðrum ríkjum.

Ef bú þitt yrði, þrátt fyrir framangreint, tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi er meginreglan sú að slíkur gjaldþrotaúrskurður gildir almennt ekki í öðrum löndum. Undantekning á við um þá einstaklinga sem eru með lögheimili á Norðurlöndunum en þá gildir samningur sem kveður á um að gjaldþrotaúrskurður í einu landanna gildi einnig um eigna þrotamanns í hinum. Miðað við þína lýsingu á undantekningin ekki við og gjaldþrotaúrskurðurinn hefur því ekki efnisleg áhrif í því landi þar sem þú hefur lögheimili með sama hætti og hér á landi, þ.m.t. varðandi eignir sem falla undir skiptin.

Ég vil hins vegar benda þér á að oft er unnt að leysa skuldavanda án gjaldþrots. Eitt af því sem vert er að kanna, sér í lagi þar sem kröfurnar eru eldri en 10 ára, er hvort að kröfuhafar hafi rofið fyrningu á kröfum sínum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda, þ.m.t. skattkrafna, er fjögur ár. Hins vegar fyrnast kröfur samkvæmt skuldabréfum og kröfur sem byggjast á peningalánum almennt á 10 árum en sá fyrningarfrestur gildir þó ekki um vexti og verðbætur heldur áðurnefndur 4 ára fyrningarfrestur. Réttaráhrif fyrningar eru þau að krafa nýtur ekki lengur lögverndar, þ.e. hún er fallin niður vegna fyrningar.

Með góðri kveðju,

Einar Hugi Bjarnason hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari eða öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda