Hver er munurinn á hjónabandi og skráðri sambúð?

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um hjónaband.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um hjónaband. Ljósmynd/Kári Sverriss

Eitt það gleðilegasta sem getur gerst í lífi fólks er þegar tveir aðilar finna hvor annan og kunna svo vel við samvistirnar að þeir vilja verja lífinu saman. Þegar fólk hefur komist að þeirri niðurstöðu að það vilji verja lífinu saman er næsta skref að ganga í hjónaband.

Sá algengi misskilningur ríkir í íslensku samfélagi að fólk sem er skráð í sambúð njóti sömu réttinda og fólk í hjónabandi. Réttindi giftra og fólks í skráðri sambúð eru gjörólík. Gift fólk er til dæmis framfærsluskylt hvort öðru og eiga gagnkvæman erfðarétt. Fólk sem er skráð í sambúð erfir ekki hvort annað. Ef annar aðilinn fellur skyndilega frá á sá sem eftir lifir engan rétt.

„Engin heildarlög gilda um óvígða sambúð og það fer eftir aðstæðum og málaflokkum hver réttindi sambúðarfólks eru,“ segir á vef stjórnar­ráðsins. Það má því alveg spyrja sig hvers vegna fólk skráir sig í sambúð hjá Þjóðskrá yfirhöfuð. Er eitthvað í því fyrir fólk?

Fólki með skuldbindingarfælni vex það í augum að giftast en góðu fréttirnar eru að það er mun auðveldara að fara hvort í sína áttina ef fólk er gift. Í landinu gilda hjúskaparlög og þau segja til um að eigum fólks við hjúskaparslit eigi að skipta til helminga. Nema gerður hafi verið kaupmáli sem segir til um annað.

Allt tal um erfðamál og erfðarétt getur verið fólki þungbært. Það er vegna þess að flestir eru með tilfinningar sem flækjast fyrir þeim þegar mikið er í húfi. Nema fólk sé með skilgreinda siðblindu – þá bítur ekkert á það. Það er samt í raun frekar furðulegt að fólki finnist erfitt að ræða erfðamál því það eina sem fólk veit fyrir víst er að það mun deyja. Það veit bara enginn hvenær kallið kemur og planið hjá allflestum, allavega þeim allra ástföngnustu, er að fara saman á Hrafnistu og njóta lífsins hönd í hönd fram á síðasta dag. Lífið hefur þó tilhneigingu til að koma stöðugt á óvart og oft endar það ekkert eins og í rómantískri bíómynd. Það getur allt farið í vaskinn – og það oftar en einu sinni á lífsleiðinni.

Allt tal um kaupmála og erfðaskrár er líka töluvert feimnismál í okkar samfélagi. Kannski er það vegna þess að það er svo stutt síðan enginn átti neitt til skiptanna þegar yfir lauk. Á hernámsárunum vænkaðist hagur þjóðarinnar og fólk fór að skilja eftir sig verðmæti. Kannski þarf að fræða þjóðina betur um kaupmála og erfðaskrár því margir virðast halda að það sé nóg að hripa eitthvað niður á blað og geyma á góðum stað í náttborðsskúffunni í von um að ættingjar eða maki muni finna það eftir þeirra dag. Slíkt er ekki nóg. Það þarf að þinglýsa kaupmálum og erfðaskrám.

Þegar fólk hefur komist að samkomulagi um alla praktíska hluti er næsta skref að ákveða giftingardag, skipuleggja, gera kostnaðaráætlun og fara yfir grunngildin. Það er alveg sama hvort fólk heldur upp á giftinguna með risaveislu eða tekur næsta tíma sem losnaði óvænt hjá sýslumanni.

Framtíðarverkefni hjónabandsins er svo að finna leið til að halda í maka sinn og reyna að vera ekki mesti hálfviti sem fæðst hefur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda