Ertu viss um að þú hafir valið réttan lífsförunaut?

Maríanna Pálsdóttir eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur.
Maríanna Pálsdóttir eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur. Ljósmynd/Dóra Dúna

Maríanna Pálsdóttir eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur skrifar um ástarsambönd í nýjum pistli á Smartlandi og minnir á hvað val á lífsförunaut getur verið vandasamt. 

Ég heyri af því nánast á hverjum einasta degi að fólk sé að skilja, að ástin hafi slokknað, kynlíf heyri sögunni til og að framhjáhöld séu viðloðandi í hjóna- og parasamböndum. Þetta hljómar í meira lagi frekar sorglega og langar mig aðeins til að ræða þetta og tjá mína skoðun á því sem ég tel að geti valdið þessu.  

Ég hef mikið velt þessu fyrir mér síðustu vikurnar og ástæðan fyrir því er að ég hef ofboðslega mikinn áhuga á því að skilja hvað gerir gott samband að góðu sambandi. Ég er sjálf í einu slíku og legg mikið kapp á að vera meðvituð um það sem ég get gert betur hvern dag. Hvernig get ég verið besta útgáfan af sjálfri mér fyrir mig og minn maka. Ég rifjaði upp af gamni myndina Eat Pray Love með Juliu Roberts en ég horfði á hana nokkuð oft á sínum tíma og var búin að gleyma atriðum úr myndinni. Ég fattaði að við Roberts erum búnar að vera allt okkar líf í ástarsambandi eða að hætta í ástarsambandi. Hversu sturlað er að vera til skiptis alltaf í ástarsorg eða á bleiku skýi. Það verður að viðurkennast að það er ekki mikið jafnvægi sem fylgir því. Einhvers staðar heyrði ég að það sé ekkert mál að verða ástfanginn en að viðhalda ástinni sé allt annar tebolli og reynist fólki oft mjög flókið viðureignar og getur niðurstaðan verið alger sundrung eins og ég lýsti að ofan.

Ég er alveg handviss um að það er erfitt að viðhalda ástarsambandi með manneskju sem er ekki rétt fyrir þig. Það hlýtur að vera erfitt að horfast í augu við þann sannleika að þú hafir valið þér lífsförunaut sem er með allt önnur gildi og þrár til lífsins en þú. Við getum nefnilega alveg vaknað upp eftir 15 ár og fattað það allt í einu! Þarf maki þinn kynlíf tvisvar í mánuði en þú einu sinni á dag? Elskar þú að fara erlendis, ganga á fjöll eða hjóla meðan maki þinn vill liggja á ströndinni, steikja á sér húðina með kokteil í annarri? Spreðar maki þinn í merkjavörur og eyðir öllum aukapeningum sem þið eigið til að fóðra egóið sitt meðan þú kaupir þér aldrei neitt en vinnur og vinnur svo ofneysla maka þíns geti viðhaldist. Vill makinn þinn þessa fjandans Teslu X eins og hálf þjóðin er á og kostar 20 miljónir eða er nóg að vera á bíl sem kostar tvær kúlur og eyðir engu? Svona get ég talið upp endalaust. Hvernig getur ástarsamband gengið upp ef þið gangið ekki í takt með praktísk mál; kynlíf, fjármál, ánægjustundir, frítíma, áhugamál og svo mætti lengi telja. Þannig sambönd fá hina fullkomnu falleinkunn og það hlýtur að vera mjög erfitt að lesa þetta og jafnvel átta sig á því að þú ert þessi manneskja.

En svo ég vitni aftur í Eat Pray Love þá fór okkar besta kona til Ítalíu, Indlands og Balí til að finna sjálfið sitt, biðja og hugleiða en það hljómar í mín eyru eins og hin heilaga þrenning. Ég nefndi það við minn mann að ég ætti kannski að fara í smá ferðalag og kíkja á þessa staði. Hann var fljótur að svara: „þú veist hvað er sagt um fólk sem byrjar að standa á haus út á Bali“. Þá er skilnaður í uppsiglingu, já eða í höfn. Ég er fullkomlega ósammála þessu. Ef þig langar til Balí að efla sjálfið þitt, hugleiða og njóta lífsins þá gerir þú það, hvað svo sem kemur til þín á leiðinni. Kannski fattar þú að líf þitt er innihaldslaust já eða að það sé gersamlega frábært og færir þig nær því lífi sem þú átt nú þegar.

Sá sem lifir lífinu sínu í leit af visku og kærleika til að bæta sig hlýtur að teljast á ágætis róli á vegi lífsins hvort sem þú ert á Balí, Indlandi, Ítalíu eða Íslandi.

Með þessum pistli er ég að reyna að koma því til skila hvað ég tel mikilvægt að velja lífsförunautinn vel. Það getur verið stórhættulegt fyrir þig að að velja vitlaust það getur dregið verulega úr lífsgæðum þínum. Þú veikist af því að vera með manneskju sem heldur þér niðri og dregur úr þér lífsviljann. Vertu vakandi yfir rauðum flöggum í upphafi þegar þú ert að hitta manneskju. Fólk mun sýna sitt rétta andlit en það gerist kannski ekki strax en það kemur. EKKI týna þér í lífi einhvers annars því þú þekkir þig ekki nægilega vel. Ef þig langar að kynnast þér betur þá held ég að það sé hin fullkomna hugmynd að bóka far til Balí. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál