Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem hefur óskað eftir skilnaði við eiginmann sinn en hann er ekki á sömu skoðun.
Sæll og blessaður.
Ég og maðurinn minn höfum gengið í gegnum langt og erfitt tímabil og nú er ég ákveðin í að skilja. Ég hef rætt það við hann margoft í marga mánuði að ég vilji skilja og að við ættum að fara að ganga frá okkar málum. Ég setti „dead- line“ í janúar en nú er kominn júní og ekkert mjakast. Hann neitar að horfast í augu við þetta og taka næstu skref. Svo á hann það til að detta í þunglyndi, segjast ætla að láta sig hverfa eða saka mig um að vera hræðileg móðir að sundra fjölskyldunni. Ég er hins vegar öll að vilja gerð með að skipta eigum og vil endilega að þetta endi á vinalegum nótum. Hvað get ég gert til þess að ég fái að halda áfram með lífið án þess þó að þurfa að grípa til þess að verða alger tík? Er einhver leið til þess að meðhöndla málin mjúklega?
Kveðja, BN
Sæl og blessuð og takk fyrir þessa spurningu.
Skilnaður er alltaf ákveðin brotlending og það er aldrei sársaukalaust að brotlenda en það er samt hægt að gera það án þess að „farþegar og áhöfn“ vélarinnar skaðist stórlega. Til þess þarf hins vegar gagnkvæman vilja og einlæg samtöl. Í ykkar tilfelli tel ég að aðkoma fagaðila sé nauðsynleg. Það er mjög líklegt að hann heyri ekki þínar röksemdarfærslur og eins líklegt að þú þú heyrir ekki hans sjónarmið.
Þið þurfið því að ná að heyra í hvort örðu og sjá sjónarhorn hvors annars. Þrátt fyrir að skilnaðir séu oftast mjög sársaukafullir þá er til mjög gott líf eftir skilnað og stundum er skilnaður besta leiðin fyrir fólk.
Það eru til góðar akademískar rannsóknir sem sýna að það er ekki gott fyrir börn að alast upp í fjölskyldu þar sem foreldrar eru í ítrekuðum átökum. Í sumum tilfellum er hreinlega betra fyrir börnin að foreldrar skilji og nái hvort fyrir sig að búa til ánægjulegra líf. Ef þú ert ákveðin í að slíta sambandinu þá hefur þú fullkominn rétt á því og þó að það sért þú sem biður um skilnað þá er ástand sambandsins ekki minna á hans ábyrgð en þinni. Það ert því ekki þú sem ert að sundra fjölskyldunni heldur þið. Það er oft mjög erfitt fyrir þann sem ekki vill skilnað að sætta sig við þá hugmynd að ástandið sé líka sér að kenna. Oftast finnst fólki best að geta kennt einhverjum öðrum um stöðuna en sári sannleikurinn er að ábyrgðin er ykkar beggja. Gangi þér vel með þetta erfiða verkefni.
Kveðja,
Theodor
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR.