Hvernig get ég elskað stjúpbarnið mitt?

Konan á í erfiðleikum með að mynda góð tengsl við …
Konan á í erfiðleikum með að mynda góð tengsl við stjúpbarn sitt. Ljósmynd/Unslpash.com/Gabriel Pierce

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur á Sál­fræðistof­unni Sál­ar­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá konu sem á erfitt með að tengjast stjúpbarni sínu. 

Sæl.

Ég er stjúpmóðir barns sem er 7 ára og hef verið það í nokkur ár. Blóðmóðir barnsins hefur ekkert verið til staðar í lífinu hjá því og mun ekki vera þannig barnið er 100% hjá okkur. Ég hef aldrei fundið tengingu við þetta barn sama hvað ég hef reynt. Það kallar mig mömmu og ég er góð og geri allar móðurlegar skyldur fyrir það (lesa, baða, læra, o.s.frv.). Þetta er ekki að bitna leiðinlega á barninu að mér líði svona en ég hugsa mjög oft hvað ég vildi að það væri ekki svona mikill partur af lífinu okkar og oft fer barnið mjög í taugarnar á mér og mér finnst það mjög ljót hugsun en ræð ekki við þetta. Barnið á við rosalega hegðunarörðugleika að stríða og er mjög krefjandi en það er líka mjög gott inn á milli. Þetta jókst töluvert eftir að ég eignaðist mitt eigið barn. Ástin sem ég hef til barnsins míns er milljón sinnum meiri en ég er endalaust að passa mig að sýna það ekki. Mig langar mikið í frí bara við þrjú en myndi aldrei gera það enda væri þá hitt barnið útundan en syrgi það samt. Ég hugsa líka hvað ég vona að barnið mitt verði ekki eins og systkinið sitt. Er kannski eina leiðin að hætta í þessu sambandi með manninum og barnsföður sem ég elska því ég get ekki fengið mig í að elska barnið hans?

Kveðja, stjúpmóðirin

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæl stjúpmóðir.

Mikið ertu rík að hafa fengið stjúpbarn í þínar hendur og það heppið að eiga þig að. Ég ráðlegg þér að reyna að breyta hugsunarhættinum þínum í þessu samhengi. Reyna að hugsa jákvætt í garð barnsins, styrkja það góða sem barnið býr yfir og einblína á alla þá æskilegu hegðun sem barnið sýnir í staðinn fyrir þá óæskilegu. Einnig að þið leitið ykkur ráðgjafar varðandi hegðun barna ef barnið er oft að sýna mikla hegðunarerfiðleika. Með það að markmiði að þið bregðist rétt við og einnig að þið pabbi barnsins séu samstíga í uppeldinu. Barnið er einungis 7 ára og á sennilega við sína erfiðleika að stríða varðandi ýmislegt eins og að hafa ekki blóðmóður sína til staðar og aðrar breytingar sem hafa orðið í lífi barnsins undanfarin árin (nýr maki hjá pabba og eignast lítið systkini). Mæli með samverustundum með barninu, þú og barnið, þú, pabbi og barnið, einnig er mikilvægt að barnið fái samverustund eitt með pabba sínum. Þið eruð fjölskylda, þó svo að barnið sé ekki tengt þér blóðböndum, þú þarft kannski að æfa þig í að hugsa um ykkur öll á þann hátt, eða sem eina heild. En ef þér líður þannig að fjölskyldumynstrið ykkar muni ekki ganga upp vegna þinna líðan gagnvart stjúpbarni þínu þá myndi ég ráðleggja þér að koma hreint fram með það. En það er stór ákvörðun og myndi ég hvetja þig til þess að ræða það vel og vandlega við fagaðila áður en þú tekur slíka ákvörðun. Einnig langar mig að benda þér á „Stúptengsl“ Stjúptengsl | - Stjúptengsl (stjuptengsl.is)

Bestu kveðjur,

Tinna Rut sál­fræðing­ur.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Tinnu Rut spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda