Hvernig á að „mastera“ veislurnar?

Fólk elskar að hittast og hafa gaman. Vertu besti gesturinn …
Fólk elskar að hittast og hafa gaman. Vertu besti gesturinn með að sýna þínar bestu hliðar.

Það er ekki heiglum hent að vera frábær gestur eða gestgjafi í partýum. Allir hafa sitt hlutverk sem gott er að hafa bakvið eyrað ef maður vill fá aftur boð. New York Times leitaði ráða hjá listamönnum og öðrum félagsfiðrildum um það hvernig á að haga sér í veislum, bæði fyrir gestgjafa og gesti.

1. Undirbúningurinn skiptir máli

„Þú átt að vera spenntur og ánægður að hitta fólk. Ef þú ert með einhvern kvíða þá þarftu að koma þér út úr því og svissa yfir í félagsveruna. Stundum þarf maður að fínstilla sjálfið og skipta um gír,“ segir Lang Phipps handritshöfundur.

„Þegar maður þiggur boð í veislu þá á maður að koma með eitthvað. Það má vera hvað sem er. Maður getur verið glæsilegasta manneskjan sem færir glamúr í boðið. Maður getur komið með vínflösku. Eða maður getur hreinlega fært fólki gleði með því að vera hress og skemmtilegur persónuleiki í veislunni. Bara eitthvað!,“ segir Rebecca Gardner hönnuður.

„Ef þú ætlar að mæta, þá mætirðu. Ekki gera ráð fyrir að fara snemma. Ef þú ætlar að fara snemma þá geturðu allt eins sleppt því að mæta. Þá á maður ekki að spyrja hverjir koma í partýið. Það er dónalegt,“ segir Sarah Harrelsson ritstjóri.

„Komdu með jákvæða orku í boðið. Hafðu þig til og sýndu að þú hafir lagt þig fram. Þannig ertu að sýna gestgjafanum ákveðna virðingu,“ segir Alex Hitt matreiðslumaður.

„Vertu búinn að borða. Þá ertu ekki að hugsa of mikið um að eltast við matinn heldur getur einbeitt þér að fólkinu í kringum þig,“ segir Larry Millstein frumkvöðull.

„Sama hversu stressaður maður er sem gestur þá er gott að muna að gestgjafinn er líklegra mun stressaðri. Það er miklu auðveldara að vera gestur.“ 

2. Þegar maður mætir í boðið

„Brostu! Það er ekki flóknara en svo. Mættu og vertu vingjarnlegur. Ef þú þekkir ekki gestgjafann, finndu hann og kynntu þig.“

„Áður en ég geng inn þá ímynda ég mér að öllum líki vel við mig,“ Tessi Peslova samfélagsmiðlasérfræðingur.

„Ekki gleyma að hlæja. Þetta snýst allt um brosið og að hafa blik í augunum. Enginn vill þurfa að draga þig úr svartnættinu.“

„Þú þarft að vera eins og íþróttamaður og vinna herbergið. Vertu ekki límdur við makann. Þið ættuð að skipta með ykkur fólkinu til að ná að tala við sem flesta,“ Rufus Wainwright söngvari.

„Maður vill ekki að manneskjan sem maður er að tala við fái á tilfinninguna að það sé einhver annar betri að tala við. En maður vill heldur ekki vera fastur með sama gestinum allt kvöldið. Eftir nokkrar mínútur þá á maður að afsaka sig kurteisislega og segjast ætla að fá sér annan drykk.“

„Í gamla daga var ég feimin og óttaðist mest að vera spurð að því hvað ég gerði því ég átti enn eftir að finna mig. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á hvernig manni líður í rýminu. En það er mikilvægt samt að mæta og sýna sig. Vera maður sjálfur sama hvað,“ segir Athena Calderoni innanhússhönnuður.

„Alltaf að þykjast muna eftir fólki. Það er ákveðin góðmennska falin í því. Allir hata að vera gleymdir. Ég hef tekið eftir því að í New York þykist fólk ekki þekkja mann en í Washington DC þá þykist fólk alltaf þekkja mann,“ Molly Jong blaðamaður.

3. Hvernig á að spjalla?

„Gestir í matarboði falla í tvo flokka, annars vegar stórir persónuleikar sem stjórna umræðunum og svo hinir sem hlusta og eru límið sem halda öllu gangandi. Það þarf að hafa gott jafnvægi af báðum týpum. Ef það eru of margir stórir persónuleikar þá getur það verið yfirþyrmandi en ef það er of mikið af rólegu fólki þá fer öllum að leiðast. Þegar ég set saman gestalista þá hugsa ég líkt og ég sé að velja saman leikara í kvikmynd,“ segir Laila Gohar listamaður.

„Eitt það besta sem gestur getur gert fyrir gestgjafann er að finna þann sem þekkir fæsta í boðinu og gefa sér á tal við hann í fimm mínútur. Gesturinn er líklega þarna því gestgjafanum þykir vænt um hann og vill að hann skemmti sér. Þú getur aðstoðað!“

„Góður gestur er einhver sem mætir sem hann sjálfur og er einlægur. Ekki reyna að vera einhver annar. Ekki „name-droppa“ eða sýnast. Skildu egóið eftir heima.“

„Partý er ekki sálfræðitími. Enginn vill heyra um þín vandamál. Segðu frekar branda eða hrósaðu öðrum fyrir flott útlit.“

4. Hvað þarf að passa upp á?

„Ekki mæta snemma! Mættu alltaf korteri of seint af tillitssemi við gestgjafann sem er líklegast á síðustu stundu með allt.“

„Hjón eiga aldrei að sitja saman í matarboðum. Það er ekkert gaman. Maður er með makanum allan liðlangan daginn.“

„Það er ekkert verra en gestur sem er alltaf að skoða símann sinn. Svo er líka slæmt ef fólk talar bara við einhvern einn allt kvöldið.“

„Það besta sem ég hef gert er að biðja fólk um að setja símana í box við innganginn. Það breytti allri dýnamíkinni. Allir voru í núinu.“

„Það er betra að spyrja gestinn hvort það megi birta myndir úr samkvæminu á samfélagsmiðlum. Kannski vill hann halda þessu prívat. Þá finnst mér skrítið að „Instagramma“ annarra manna heimili.“

5. Hvernig á að kveðja?

„Ég kveð aldrei. Ég bara sendi þakkir daginn eftir.“

„Ég kveð alltaf þannig að lítið beri á. Ég fer oft snemma þannig að ég vil ekki skemma stemminguna.“

„Mér finnst mikilvægt að kveðja gestgjafann. Ef maður finnur hann ekki þá er gott að senda skilaboð. Sama hvað þá á maður alltaf að þakka fyrir sig daginn eftir.“

„Ekki vera síðasta manneskjan út. Sem gestgjafi vænti ég þess að allir fari heim á skikkanlegum tíma og fatti skilaboðin. Fyrst slekk ég á tónlistinni og svo fer ég að rölta um að slökkva á kertunum. Loks fer ég að tína saman glösin. Þegar áfengið er hætt að flæða þá fer fólk að fatta að tími er kominn á heimferð. En það er alltaf einhver einn sem heldur að partýið sé fram á nótt. Þá spyr ég hvort ég eigi að hringja á leigubíl.“

„Ekki að gleyma að þakka fyrir gott boð. Jafnvel bara með textaskilaboðum viku síðar. Alltaf að þakka fyrir sig!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál