Reið að fyrrverandi sé að gifta sig aftur

Kona á erfitt með að sætta sig við skilnaðinn.
Kona á erfitt með að sætta sig við skilnaðinn.

Kona leitar ráða hjá sambandssérfræðingi The Times. Hennar fyrrverandi er að gifta sig aftur og hún er döpur að vera ekki komin með nýjan mann í líf sitt.

Eftir 20 ára hjónaband tilkynnti maðurinn minn mér að öllu væri lokið á milli okkar. Eins og þruma úr heiðskýru lofti. Auðvitað, eins og á við um marga, var hjónabandið orðið lúið. Kynlífið lítilfjörlegt og við þoldum ekki hvort annað í heimsfaraldrinum. Þá settum við alla okkar orku í börnin frekar en hvort annað. En við vorum samt vinir og rifumst sjaldan.

Ég grátbað mann minn um að skipta um skoðun en hann var staðfastur. Hann samþykkti hjónabandsráðgjöf en var samt bara að því til þess að ræða hvernig best væri að skilja sem vinir. Ég vildi bæta sambandið en hann ekki.

Loks kom skilnaðurinn. Börnunum varð ekki meint af og í raun situr það líka í mér. Hversu vel þau tóku þessu. Var ég sú eina sem lifði í einhverjum blekkingarheimi? Sú eina í sorg?

Nú eru liðin tvö ár og minn fyrrverandi er að gifta sig á ný. Ég er alveg brjáluð. Ég er að reyna að vera jákvæð fyrir börnin en þau hljóta að skynja biturðina.

Hann hefur fundið ástina. Ég hef endurbyggt líf mitt en enga ást fundið. Mun ég einhvern tímann geta treyst annarri manneskju? Ég bara veit ekki hvernig ég kemst yfir þetta allt saman!

Svar ráðgjafans: 

Þegar hjónabandi lýkur með svo snöggum hætti er hætt við því að þú upplifir mikið áfall, reiði og örvæntingu. Það hefur skiljanlega áhrif á það hvernig þú vinnur úr málunum.

Allt í einu eru hlutirnir allt öðruvísi, tíminn með börnunum, fjárhagurinn og tilfinningar. Þetta er næstum eins og skyndilegt dauðsfall. Þú ferð yfir allt sem á undan hafði gengið og reynir að ná til botns í málinu með misjöfnum árangri. 

Þú ert að upplifa ákveðið stjórnleysi. Það er grundvallarþáttur í vellíðan að líða eins og maður hafi stjórn á hlutunum og eigin lífi. Án þeirrar tilfinningar getur maður upplifað þunglyndi og kvíða. Þú vildir ekki skilja og reyndir að koma í veg fyrir það en maðurinn þinn tók frá þér stjórnina. Þínar áætlanir um lífið urðu að engu og það var ekkert sem þú gast gert.

Síðan er það líka óvissan sem hefur áhrif á mann. Maður hefur áhyggjur af öllu sem gæti gerst. Nú snýr óvissan um það hvernig þú tæklar brúðkaupið hans og hvernig hans hjónaband mun hafa áhrif á þig og börn þín. Mun nýja konan koma í þinn stað í lífi barnanna?

Þér má líða illa og þetta eru allt eðlilegar tilfinningar. Leitaðu til vina eða ráðgjafa eftir stuðning. Hugsaðu um hversu vel þér hefur tekist upp að byggja upp nýtt líf þrátt fyrir mikið mótlæti. Þú mátt vera stolt af þrautseigjunni. Fagnaðu lífinu sem þú hefur byggt þér með reisn. Börnin eru hamingjusöm og þú mátt vera stolt af því.

Þetta öldurót tilfinninga stafar líklega af því að þú ert ekki búin að finna þér annan maka. Allt virkar óöruggt og þú hefur verið svipt trausti. Sýndu þér skilning og gefðu þér tíma til þess að vinna úr þessum tilfinningum. Ef þú gerir það þá muntu geta treyst einhverjum á ný. Það er hægt að finna ástina á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda