„Lífið er gjörbreytt og verður aldrei eins“

Hrönn og Sæmundur áttu einstakt samband.
Hrönn og Sæmundur áttu einstakt samband. Ljósmynd/Aðsend

Sæmundur Bæringsson missti eiginkonu sína, Hrönn Sigurðardóttur, í júní í fyrra eftir erfiða baráttu við þann illvíga óvin, krabbamein. Hún var mörgum Íslendingum að góðu kunn enda afrekskona í ólympíufitness og stofnandi Befit Iceland. Sæmundur stóð þétt við hlið eiginkonu sinnar í veikindunum og segir lífið erfitt án sinnar heittelskuðu. 

„Lífið er gjörbreytt og verður aldrei eins. Að missa maka sinn er eitt mesta áfall sem hægt er að verða fyrir á lífsleiðinni. Það er svakalegt högg. Maður fer úr því að lifa ágætu lífi þar sem allt gengur sinn vanagang yfir í það að hún sé farin. Það er virkilega erfitt að þurfa að sætta sig við það,“ segir Sæmundur. 

Sæmundur Bæringsson sinnir fyrirtækinu Befit Iceland.
Sæmundur Bæringsson sinnir fyrirtækinu Befit Iceland. Ljósmynd/Árni Sæberg

Hvernig kynntust þið Hrönn? Hver er sagan ykkar?

„Við kynntumst á stefnumótasíðunni Einkamál. Frænka Hrannar skráði hana til leiks. Þann 16. mars 2005 sendi ég fyrstu skilaboðin og við byrjuðum að spjalla um leið. Við áttum margt sameiginlegt og kom ákaflega vel saman. Við komumst að því að við áttum syni á svipuðum aldri sem báru millinafnið Máni. Sonur minn heitir Magnús Máni og sonur Hrannar heitir Elvar Máni. Okkur þótti þetta mjög fyndið. Við áttuðum okkur svo á því að afmælisdagar okkar liggja saman. Afmælisdagur minn er 25. ágúst og Hrannar var 24. ágúst. Við fundum strax að það var eitthvað sem kveikti mikinn áhuga hjá okkur báðum og aðeins nokkrum dögum eftir fyrsta spjallið, keyrði ég norður til að hitta hana. Ég keyrði til Akureyrar eftir vinnu á laugardegi og hélt heim til Reykjavíkur síðla sunnudags. Eftir það var ekki aftur snúið. Við féllum kylliflöt fyrir hvort öðru og byrjuðum saman.

Í byrjun sambandins var Hrönn búsett á Akureyri og ég í Reykjavík, það var ansi erfitt. Við hittumst gjarnan á Hvammstanga um helgar og áttum þar góðar stundir saman en eftir nokkra mánuði þá ákvað Hrönn að flytja til Reykjavíkur. 

Árið 2009 fór ég á skeljarnar og bað hennar. Hún sagði já og við giftum okkur þann 15. ágúst 2009 í Þorgeirskirkju á Ljósavatni. Hrönn vildi gifta sig í sveitinni sinni og halda brúðkaupsveisluna í gamalli hlöðu. Við eyddum brúðkaupsnóttinni í tjaldi á litlum tanga niður við tjörn. Dagurinn var æðislegur og ég man að ég sagði við Hrönn að ég væri til í að endurtaka leikinn daginn eftir. Við vorum saman allt fram á dánardag hennar.”

Ást við fyrsta spjall!
Ást við fyrsta spjall! Ljósmynd/Aðsend

Upplifði algjört bjargleysi

Hvernig var að standa við hlið eiginkonu þinnar er hún glímdi við krabbamein?

„Það var ofboðslega erfitt að geta ekkert gert. Þegar veikindi hennar fóru á fullt þá upplifði ég algjört bjargleysi. Að horfa upp á konuna sem þú elskar út af lífinu veslast upp er skelfileg tilfinning. 

Hrönn var hraust alla tíð en þarna horfði ég á hana verða að engu, kílóin hrundu af henni. Allt í einu þurfti ég að kaupa hækjur fyrir hana og nokkrum vikum seinna hjólastól. Ég klæddi hana í og úr, hjálpaði henni á klósettið, í sturtu og bara allt þetta dagsdaglega. Í marga mánuði gerði ég ekkert annað. Ég vék ekki frá henni.“

Hvenær/hvernig komst upp um meinið?

„Hrönn fór að finna fyrir einkennum snemma árs 2021. Hormónastarfsemin var ekki í jafnvægi. Hún þrútnaði í framan, á hnakkanum og á öðrum stöðum á líkamanum. Svo fór blóðþrýstingurinn til fjandans. Það tók marga mánuði að finna út hvað væri að hrjá hana, endalausar læknisheimsóknir. Eftir ótal rannsóknir fannst æxli ofan á nýrnahettu. Í fyrstu var talið að það væri fituæxli en annað kom í ljós.“

Hvernig hélstu þér á floti yfir þetta erfiða tímabil?

„Hrönn var með jákvætt hugarfar og viðhorf til lífsins allt fram á síðustu stundu og útgeislun hennar smitaði út frá sér. Í svona aðstæðum þá setur þú sjálfan þig til hliðar. Ég hugsaði ekki um neitt nema hana. Ætli ást mín til hennar hafi ekki haldið mér á floti í gegnum þetta tímabil.“

Hvernig voru síðustu stundir ykkar saman?

„Þær voru erfiðar. Við vorum stödd á hótelherbergi á Spáni þegar Hrönn missti meðvitund. Ég náði með engu móti að vekja hana og hringdi því á sjúkrabíl. Hún var flutt með hraði á sjúkrahús þar sem reynt var að vekja hana en ekkert gekk. Hjartað sló en það náðist ómögulega að vekja hana eða ná einhverju sambandi við hana. Skömmu síðar segir læknir við mig að hún muni ekki lifa þetta af, þetta var daginn áður en hún dó. Ég bað um herbergi þar sem ég gæti legið hjá henni þar til yfir lyki. Hún lést eftir hádegi þann 29. júní. 

Sæmundur var við hlið Hrannar er hún lést.
Sæmundur var við hlið Hrannar er hún lést. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða bjargráð notaðir þú í sorginni?

„Ég sæki rosalegan styrk frá Hrönn til að takast á við sorgina. Hún vildi að ég héldi áfram að hafa gaman, hlæja og njóta. Hrönn gaf mér góð ráð sem hafa hjálpað mér. Ég hef mikið til að lifa fyrir, börnin okkar, barnabörn og fjölskyldu. Allt hjálpar þetta mér að takast á við hvern dag. Ég tjái mig mikið um þetta ferli enda mjög hjálplegt.“

Hvernig hafa þessir síðustu mánuðir verið?

„Þeir hafa verið ofboðslega erfiðir. Það er bara þannig. Endalaust af erfiðum verkefnum sem bætast ofan á þessu miklu sorg.“

Hefur þú fundið fyrir miklum stuðningi?

„Já, heldur betur. Mikið af góðu fólki sem ég þekki ekki hefur sent mér falleg skilaboð. Vinir og vandamenn hafa einnig stutt mig í gegnum þetta. Ég er heppinn að eiga mikið af góðu fólki.“

Bjó yfir miklu jafnaðargeði

Hvað var það í fari eiginkonu þinnar sem þú kunnir mest að meta?

„Allt, ég kunni að meta allt. Ég öfundaði hana alla tíð af því hvað hún bjó yfir miklu jafnaðargeði og gat alltaf haldið sér rólegri og yfirvegaðri. Það var alveg sama hvað gekk á, hún tókst á við það brosandi eða hlæjandi. Oft og tíðum horfði ég á hana og hugsaði: „Hvernig fer hún að þessu?“

Hvernig karakter var Hrönn?

„Hrönn var svakalega mikill karakter. Hún lét aldrei neitt stoppa sig. Það lék allt í höndunum á henni, bókstaflega. Hún var ofboðslega hjartahlý og góð. Æðisleg mamma og amma. Hrönn var alltaf jákvæð og góð við alla. Með mikið keppnisskap, grjóthörð og kvartaði aldrei undan einu né neinu.“

Hvers saknarðu mest í fari hennar?

„Það er erfitt að velja eitthvað eitt. Ég sakna hennar á allan hátt. En ég sakna vináttunnar. Við vorum ofboðslega góðir vinir, með sama húmor.“

Uppáhaldsminningin þín?

„Þegar hún sagði já á brúðkaupsdaginn okkar. Það toppar ekkert það augnablik.“

Sæmundur og Hrönn á brúðkaupsdaginn.
Sæmundur og Hrönn á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú til að halda minningu hennar á lofti?

„Það er margt. Ég tjái mig reglulega á netinu og deili myndum af lífi okkar saman. Ég er með duftker heima og við hlið þess er mynd af henni og kerti. Ég byrja og enda alla daga á því að standa hjá henni og tala. Legg hönd mína á kerið og myndina. Ég fer einnig mjög reglulega upp í garð til hennar og ligg hjá henni.“

Uppgötvaðir þú eitthvað nýtt um sjálfan þig eftir áfallið?

„Já, það hefur komið mér mikið á óvart hvað mér hefur tekist að halda mér rólegum og yfirveguðum. Mamma mín deyr átta mánuðum á undan Hrönn og eru þær jarðaðar á sama stað. Þessi síðustu ár hafa því reynst okkur erfið. Þrátt fyrir það hef ég aldrei gefist upp. Ég er jákvæður og hress þó svo ég syrgi alla daga.“

Hvernig er að sinna Befit Iceland án hennar?

Ég vissi alltaf að það yrði erfitt að sinna Befit Iceland án hennar enda var hún 90% af fyrirtækinu. Þetta var barnið hennar, ef svo má að orði komast. Þó svo ég hafi alltaf sinnt fyrirtækinu með Hrönn þá var ekki auðvelt að taka við stjórnartaumunum. Það fer enginn í hennar fótspor. En mér líður vel í búðunum okkar og er ofboðslega stoltur af því sem Hrönn tókst að skapa.“

„Mér líður vel í búðunum okkar og er ofboðslega stoltur …
„Mér líður vel í búðunum okkar og er ofboðslega stoltur af því sem Hrönn tókst að skapa.“ Ljósmynd/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda