Ástarkraftur er megin orkugjafi umhyggjuhagkerfisins

Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, stofnaði Hið ízlenska ástarrannsóknafélag með annarri fræðikonu til að rannsaka kenningar dr. Anna Guðrún Jónasdóttir um ástarkraftinn og arðrán hans.

Í Dagmálsviðtali segir Berglind að það séu til margir mismunandi angar af ástarrannsóknum, en í fyrsta lagi megi segja að listin hafi átt ástina óskipta og bókmenntirnar þar ekki síst.

„Bókmenntahefðin byggir auðvitað á því að rannsaka ástina í öllum sínum ólíku myndum, en félagsvísindin hafa aftur á móti verið frekar sein til þess að taka ástina inn sem verðugt og raunverulegt rannsóknarefni og við eigum meira að segja málshátt sem segir að vegir ástarinnar séu órannsakanlegir. Þessu trúum við bara eins og hverju öðru og mig langaði til að ögra þessu og ekki síst eftir að ég kynntist kenningum Önnu Guðrúnar Jónasdóttur þegar hún var gerð að heiðursdoktor árið 2016,“ segir Berglind og bætir við að þegar það var hafi hún verið búin að vera í tuttugu ár í íslenskri akademíu og sér hafi þótt merkilegt að þessi merka kona, sem er nokkuð fræg erlendis, skyldi ekki fá meira rými innan akademíunnar hér á landi.

„Við Silja Bára Ómarsdóttir, sem horfðum á og hlustuðum á erindi hennar þegar hún kom hingað að taka við nafnbótinni ákváðum í framhaldinu að stofna Hið ízlenska ástarrannsóknafélag til að vinna að rannsóknum, en það sem Anna er að segja okkur er að þrátt fyrir allar þessar kynjabyltingar sem hafa ekki síst orðið í norrænum samfélögum, þá búum við enn við kynjamisrétti og hún vill meina að það stafi af því að ástarkraftur kvenna sé arðrændur í meira mæli en hjá körlum.

Það sem er svo stórkostlegt við kenningar Önnu Guðrúnar er að þær eru svo einfaldar. Við þekkjum auðvitað öll kenninguna um að vinnukraftur sé megin orkugjafinn í hagkerfinu, en ástarkraftur er megin orkugjafinn í umhyggjuhagkerfinu eða ástar- eða kynverundarkerfinu, svo einfalt er það. Við erum með tvö framleiðslukerfi, en tölum helst bara um annað þeirra. Við tölum um vinnuhagkerfið, en ekki um ástarhagkerfið sem framleiðir nýja kynslóðir. Það hagkerfi er mjög illa skilgreint og mætti tala um skuggahagkerfi því það er dulið. Vinnan á bak við það er dulin, nema sú vinna sem hefur verið skilgreind í vinnuhagkerfinu. Það sem norrænu samfélögin eiga sammerkt, og hafa umfram önnur samfélög, er að þau hafa skilgreint meira af umhyggjuvinnunni sem raunverulega vinnu. Það er mjög hjálplegt, en hins vegar erum við enn þá að stríða við misskiptingu. Alveg eins og Karl Marx talaði um arðrán á vinnukrafti, þá talar Anna Guðrún um arðrán á ástarkrafti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda