„Við sækjum þá bara í fyrramálið. Sem varð svo aldrei“

Hjónin Jóna Dóra Karlsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson. Jóna Dóra …
Hjónin Jóna Dóra Karlsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson. Jóna Dóra stofnaði Nýja Dögun eftir að þau hjónin misstu syni sína.

Jóna Dóra Karlsdóttir er gestur í hlaðvarpi Sorgarmiðstöðvar, Sorg og missir, en hún stofnaði félagið Nýja dögun eftir að hún missti syni sína tvo í eldsvoða árið 1985. Í viðtalinu segir hún frá því hvernig hún tókst á við missinn, hjónabandið og sorgina. 

„Ég hafði stundum hugsað þetta, en ég náði aldrei lengra,“ segir Jóna Dóra í viðtali við Karólínu Helgu Símonardóttur. Í hennar huga var það hreinlega óhugsandi að lifa áfram eftir barnsmissi, það tæki ekkert við. Laugardagsmorguninn 16. febrúar 1985 voru þau hjónin vakin með þeim sorgarfréttum að synir þeirra, Fannar Karl átta ára og Brynjar Freyr fjögurra ára, hefðu látist í eldsvoða um nóttina. 

Jóna Dóra rifjar upp atburðina, hvernig aðstæður og örlög stýra svo mörgu þegar kemur að lífinu. Synir hennar voru gestkomandi á heimili frændfólks síns þegar eldurinn kom upp um nóttina. Það stóð aldrei til að þeir færu að fara gista hjá frændfólki sínu þetta kvöld.

„Það var Brynjar Freyr, yngri, sem að aldrei hafði gist annars staðar en hjá ömmu og afa. Reyndar hafði hann farið til Englands með bróður sínum, til föður ömmu og afa,“ segir hún og bætir við: 

„En að öðru leyti vildi hann bara vera heima en þarna, þennan föstudag, föstudaginn 15. febrúar 1985. Þá byrjar hann svona um sexleytið, ég var búin að fá barnapíu. Við áttum þá að verða fimm, Brynjar Karl, Fannar Karl 8 ára og Margrét Hildur 3 ára og Heimir 9 mánaða. Og ég var búin að fá barnapíu fyrir kvöldið og við ætluðum ekki að vera lengi, þetta var svolítið svona skylduverkefni sem við þurfum að inna af hendi þetta kvöld. Við ætluðum bara vera komin tiltölulega snemma heim. Ég var sem sé á bíl en auðvitað þurfum við pössun. Nema Brynjar fer að orða það, ég vill fara til frænda, Stebba frænda. Og við bara hvað ertu að tala um. Jú jú, hann ætlaði sko að fara þangað og hérna. Kemur síðan niður, kemur niður með poka þar sem hann er kominn með náttfötin sín og brunabíla. Og sjúkrabíla sem ég hafði gefið honum tveim dögum áður,“ rifjar hún upp.

„En hann stendur þarna fast á sínu, og Fannar bróðir hans er bara hvað er þetta Brynjar nei nei, hvað er þetta við verðum bara heima. Fannar varð að gefa sig og fara með honum. Svo niðurstaðan var sú, ókey við myndum sækja þá svona um hálf ellefu um kvöldið. Já já, allt í lagi með það. Við gerum það, en þá eiginlega neita þeir báðir. Það var svo gaman Og við svona horfðum hvort á annað, eigum við að leyfa þeim, já ókei, þeir eru í svo góðu skapi og þetta er svo skemmtilegt. Það er svo gaman hjá þeim. Við sækjum þá bara í fyrramálið. Sem varð aldrei.“

Heimurinn hrundi við þetta áfall en það er margt fleira sem bætist við. Það að missa barn reynir á hjónabandið. Skilnaðartíðni foreldra eftir barnsmissi er mikil. Fræðin tala segja að það sé líklegra að annað foreldrið dragi sig í hlé og haldi tilfinningum út af fyrir sig til þess að vera sterki aðilinn í sambandinu.

Hitt foreldrið er líklegra til þess að tjá sig og leitar frekar eftir aðstoð. Það myndast streita í kjölfar missis sem hefur áhrif á allt líf foreldra, hjónabandi og einstaklinginn sjálfan. Jóna Dóra segir að það sem hafi hjálpað þeim Guðmundi Árna var að tala saman. Þau séu bæði mjög opnar persónur og tali almennt mikið. Þau hafi stundum gleymt sér en oftar en ekki náð saman aftur. 

„Ég átti það til að verða reið og afbrýðisöm út í önnur börn, stráka og foreldra. Þetta var svo hryllilega ljótt af mér að ég sagði ekki nokkurri manneskju, ekki einu sinni Guðmundi,“ segir Jóna Dóra og játar að hún hafi upplifað skömm vegna hugsana sinna og tilfinninga. Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem hún játaði fyrir manninum sínum hvernig henni liði stundum og þá kom á daginn að hann upplifði það sama. Sömu skömmina. Hún segir að þau hafi náð að hjálpa hvort öðru og styðja við hvort annað. 

Jóna Dóra stofnaði samtökin Ný dögun því henni fannst vanta samtök fyrir fólk sem hafði upplifað missi og sorg. Í dag eru samtökin elstu sorgarsamtök á Íslandi og ein af þeim félagasamtökum sem komu að stofnun Sorgarmiðstöðvar. 

HÉR er hægt að hlusta á þáttinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál