Margt fólk yfir 35 ára ósátt við líf sitt

Hrein samskipti segir Baldvin Jónsson markþjálfi vera forsendu velgengni og vellíðan. Undanfarin ár hefur Baldvin aðstoðað einstaklinga, pör og fyrirtæki við að tileinka sér aðferðarfræði markþjálfunar og sjá möguleika til að vaxa, styrkjast, auka árangur og afrakstur, finna styrkleika, taka stökkið og láta drauma sína verða að veruleika án þess að óttast það versta.

Baldvin var gestur í Dagmálum á dögunum. Þar fór hann vítt og breitt yfir helstu ástæður þess að fólk leitar í auknum mæli til markþjálfa.    

„Mjög mikið af mínum viðskiptavinum eru að eiga við samskipti. Að læra einhvern veginn að setja mörk og standa með mörkunum sínum í samskiptum mjög gjarnan inn í fjölskyldunni við fólkið sem stendur manni næst í þessum samskiptakerfum sem eru innst í kjarnanum okkar,“ segir Baldvin sem veitir fólki verkfæri til að virkja hrein og góð samskipti, enda veit hann manna best að samskipti eru til alls fyrst. 

Valdi ekki lífsleið sína sjálft

Að sögn Baldvins er býsna algengt að fólk á vissu æviskeiði lífsins hrökkvi upp og vilji endurskoða stöðu sína og hvernig það hefur verið að lifa lífi sínum framan af. Segir hann markþjálfa geta gegnt veigamiklu hlutverki fyrir þá sem hafa þörf fyrir að endurmeta líf sitt og gera breytingar á því. Með skilvirkri samtalsmeðferð segir hann fólk oft komast til botns í því að skilja sjálft sig og aðra betur. 

„Ég fæ mjög mikið af fólki til mín sem að er svona 35 ára plús sem er að vakna upp við það bara bíddu ég valdi þetta ekki, af hverju er ég hérna, hvað er að gerast, hvað langaði mig til að gera í lífinu - fólk sem er svona farið að velta þeim hlutum fyrir sér,“ segir Baldvin.

„Mjög oft finnst mér vera samhengi á milli fólks sem ég er að hitta að það einhver veginn stökk af stað út í lífið á fleygiferð og valdi jafnvel ekkert endilega sjálft leiðina sem það var að fara eða námið eða hvað sem það er,“ útskýrir hann og telur aðferðir markþjálfunar gagnast vel þegar fólk stendur á krossgötum.

Mikilvægt sé að aðstoða fólk við öðlast skýrari sýn á það sem það vill raunverulega fá út úr lífinu, finna til hugrekkis og þora að gera breytingar, yfirstíga áskoranir og bregða út af vana til að uppfylla sínar eigin þarfir og langanir en ekki annarra.

„Það er ólíklegt að þú vitir þegar þú ert 16 ára hvað þig langar að vera að gera þegar þú ert orðinn 35. Í einhverjum tilfellum kannski breytist ekkert mikið og þér finnst það sem þú valdir þér að gera algerlega frábært en í rosa mörgum tilfellum ekki.“

Galdurinn gerist í „lala-landinu“

Það vill oft gerast að fólk verði óvart farþegar í eigin lífi og eigi erfitt með að taka stjórn. Um leið og það áttar sig á að vel gerlegt er að gera breytingar vill oft opnast fyrir nýjar hugsanir, aðrar hugmyndir og breytt viðhorf sem getur leitt til einhvers góðs. 

„Af hverju áttu að koma til markþjálfa ef þig langar að breyta einhverju þá er það fyrst og fremst vegna þess að ef þú stendur frammi fyrir því að vera búinn að vera reyna og átt annað hvort erfitt með að finna út úr því hvað það gæti verið eða hvað það er sem þig gæti langað. Þá erum við að svolítið að hjálpa fólki að fara lengra, kafa dýpra og sleppa tökunum,“ lýsir Baldvin. 

„Við erum svo oft bundin af öllu sem er ekki hægt. Markþjálfinn er bara svolítið mikið að leika sér í víddinni þar sem allt er hægt og ekkert er að trufla. Svo komum við út úr því lala-landi einhvers staðar í samtalinu og förum yfir í praktíkal plan en sjáum þá að galdurinn gerist svolítið í „lala-landinu“.“

Allt viðtalið við Baldvin má heyra og sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál