Hegðun hefur afleiðingar

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um uppeldi.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um uppeldi. Ljósmynd/Kári Sverriss

Það er líklega ekkert í lífinu eins taugatrekkjandi og þroskandi og að eignast afkvæmi. Það að eignast barn er svolítið eins og spila Candy Crush; stundum gengur mjög vel og stundum svo illa að fólk er til í að borga nánast hvað sem er til að komast upp um borð eða út úr aðstæðum sem eru óviðráðanlegar.

Frosti Örn Gnarr, þriggja barna faðir í Háaleitishverfinu, komst ágætlega að orði í sérblaði Morgunblaðsins sem kom út á föstudaginn þegar hann lýsir því hvernig honum leið þegar fyrsta barnið kom í heiminn 2016. Hann skildi eiginlega ekkert í því hvers vegna þeim, nýbökuðu foreldrunum, var treyst fyrir barninu og mættu fara með það heim.

Þótt það séu komin 15 ár síðan ég fór síðast með barn heim af fæðingardeild þá man ég þetta allt eins og það hafi gerst í gær. Í dag hefur barnið, sem fæddist í Hreiðrinu sumarið 2009, sterkar skoðanir á lífinu og hikar ekki við að veita endurgjöf. Honum finnst móðir hans gamaldags, of ströng og frekar leiðinleg týpa þegar hún gefur ekki samþykki fyrir götuðum eyrnasneplum. Mamma fékk að heyra að hún væri sjálf með göt í eyrunum og hefði því lítið um málið að segja. Mamma sagði þá að ekki væri hægt að miða nútímann við eitthvað sem gerðist á hárgreiðslustofu á Laugaveginum árið 1984 og minnti á að eyrun á karlkyns forsetum heimsins væru ekki eins og gatasigti. Börn undir 18 ára aldri hefðu ekki heimild til þess að láta gata á sér líkamann. Um þetta giltu lög í landinu sem okkur borgurunum bæri að fara eftir.

„Hvað ætlar þú að gera ef ég kem heim einn daginn með gat í eyranu?“ sagði hann og leit spyrjandi á móður sína.

Mamma reyndi að fela hin vonbrigðin og sagði mildilega við soninn að hegðun hefði afleiðingar.

Sem minnir á það. Það væri kannski ágætt fyrir ráðamenn þjóðarinnar að vera upplýstir um að hegðun hefur einmitt afleiðingar. Það að taka ákvarðanir um að útrýma einkunnagjöf í tölustöfum og taka upp mælikvarða í litum og bókstöfum hefur gert það að verkum að enginn veit neitt. Og það er eiginlega ekki hægt að segja að allir séu að reyna að gera sitt besta. Afleiðingarnar eru skýrar. Námsárangur íslenskra barna hefur sjaldan verið slakari en akkúrat núna.

Hvað þýðir einkunnagjöf í bókstöfum? Mér skilst að það sé best að fá A. A getur á skala gamla skólans verið á bilinu 9,8-10 er mér sagt. Fólk sem stundaði nám þegar einkunnir voru gefnar í tölustöfum veit að það er munur á 9,8 í einkunn eða 10. Og svo er það B+. Hvað þýðir það? Það er ekki alveg A en samt aðeins betra en B. Þessar óskýru reglur hjálpa ekki börnunum okkar.

Börn þurfa skýran ramma. Rannsóknir sýna að börnum sem eru alin upp við heilbrigðan aga vegnar betur á fullorðinsárum. Til þess að börnum líði sem best þarf heimilislíf og skólaganga að haldast í hendur. Það getur verið mjög þreytandi að vera uppalandi og það er örugglega alveg ferlega þreytandi að vera kennari því mér skilst að við foreldrarnir séum mesta áskorunin (óþolandi týpur).

Þetta er svona eins og með krakkann sem leggst alltaf í gólfið í matvörubúð og grætur þangað til hann fær að kaupa súkkulaði og lakkrís. Þessi krakki veit að ef hann lætur bara nógu illa þá mun foreldrið gefa sig því það gefur alltaf eftir að lokum. Þetta barn lendir hins vegar í vanda þegar það stækkar því heimurinn er ekki eins eftirgefanlegur og mamma og pabbi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda