Valdi kærasta fram yfir vinkonu

Ástin getur fengið mann til þess að skera á vináttu. …
Ástin getur fengið mann til þess að skera á vináttu. En er það sniðugt? Christina Rivers/Unsplash

Rithöfundurinn Samantha Priestley átti kæra vinkonu og þær stöllur voru duglegar að fara saman út á lífið. Um leið og Priestley eignaðist kærasta varð það henni um megn að finna jafnvægi á milli skemmtanalífsins með vinkonunni og heimalífsins með kærastanum. Nú 23 árum síðar sér Priestley eftir því að hafa hætt að umgangast vinkonu sína.

„Ég gleymi því aldrei þegar við kynntumst. Við vorum 16 ára og laumuðum okkur inn á krá til að reyna að sníkja drykk. Við vorum með hvorum vinahópnum fyrir sig en um leið og ég sá hana vissi ég að hún væri manneskja mér að skapi. Ef til er ást við fyrstu sýn þá var það þarna. Ég spjallaði við hana og við urðum óaðskiljanlegar.“

„Okkur fannst báðum gaman að fara út á lífið. Við drukkum saman og skemmtum okkur konunglega. Líf án hennar var óhugsandi. En fimm árum síðar kynntist ég manni.“

Kærastanum líkaði ekki við hana

„Ég var 21 árs og að verða þreytt á eilífu partístandi. Ég vildi vera heima og hafa kósíkvöld. Mig langaði að giftast og eignast börn. Þessi maður var myndarlegur og þráði mig. Eini hængurinn var að hann átti ekki samleið með vinkonu minni. Honum líkaði alls ekki við hana. Mér leið eins og ég þyrfti að velja á milli þeirra.“

Óöryggi um að kenna

Sambandssérfræðingar segja að við breytumst oft til þess að þóknast nýjum maka. Við erum bæði óörugg með okkur sjálf og þráum svo mjög að sambandið lukkist. „Þegar maður þekkir ekki sjálfan sig, gildi sín og hvað gerir mann hamingjusaman, þá er auðvelt að breytast til þess að þóknast öðrum. Maður aðlagast frekar öðrum.“

„Það átti við um mig. Ég var óörugg með sjálfa mig og hrædd um að makinn minn myndi ekki líka vel við mig. Til þess að vera hamingjusamur í sambandi þá þarf maður fyrst og fremst að vera hamingjusamur með sjálfum sér. Makinn er ekki að fara að laga þig. Maki þarf auk þess hvorki að líka vel við alla sem þér líkar vel við né hafa sömu áhugamál, en hann þarf að virða þín gildi. Það gerist aðeins ef þú þekkir eigin gildi, skilur þau og virðir þau.“

Leyfði vináttunni að fjara út

„Ég sagði ekki vinkonunni berum orðum að ég væri hætt að umgangast hana. Ég leyfði þessu bara að fjara út. Eiginmaðurinn var mikilvægari.“

„Það hefði verið hægt að fara öðruvísi að þessu. Bara þó að vinkona passi ekki lengur í lífsstílinn þá þýðir það ekki að það þurfi að útiloka hana úr lífinu. Vinátta getur þróast. Þetta þarf ekki að vera klippt og skorið. Það má enn hittast þó að maður sé ekki á útopnu allar helgar.“

Finna nýjar leiðir til að tengjast

„Ég gaf þessu bara aldrei tækifæri. Ég sagði henni aldrei hvernig mér leið og ég mun því aldrei vita hvort við hefðum getað fundið eitthvað út úr þessu. Þegar maður á vini þá á maður að einbeita sér að þeim eiginleikum sem þeir búa yfir í stað þess að hugsa um allt sem maður var að gera með þeim. Ef vinur er stuðningsríkur þá vill maður ekki sleppa taki af slíkri manneskju. Frekar finnur maður nýjar leiðir til þess að tengjast.“

„Fyrir átta árum, eftir 16 ára hjónaband, þá skildum við. Ég var reiðubúin að byrja upp á nýtt og fann fyrir frelsistilfinningu. Ég rakst á vinkonuna úti í bókabúð en svo ekkert meir. Ég sakna hennar og enginn hefur komið í hennar stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda