64 ára og veit ekki hvernig á að kljást við látna móður

64 ára kona leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur vegna …
64 ára kona leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur vegna minninga sem dúkka upp. Ave Calvar/Unsplash

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem á í slæmum samskiptum við móður sína. 

Sæl.

Ég er 64 ára kona og hef um langt skeið velt fyrir mér að fá álit fagmanneskju varðandi pælingar mínar um samband mitt við móður mína og þær uppeldisaðferðir sem hún notaði við mig á mínum barnsaldri og valda mér heilabrotum i dag. Þetta leitar æ oftar á hugann, sérstaklega ef ég er ein heima að sinna heimilisstörfum eða slíku í rólegheitum að þá rifjast upp atvik úr æsku minni og ég enda oft skúringarnar með tárin í augunum.

Ég er ekki nein grenjuskjóða og vön að takast á við ýmislegt sem lífið hendir í mann. Þegar ég var unglingur og var á heimavistarskóla nokkra vetur eins og tíðkaðist í sveitinni fékk ég eitt sinn að fara með skólasystur minni í helgarfrí heim til hennar. Það sem ég rak upp stór augu þegar foreldrar hennar stukku til hennar og föðmuðu hana, kysstu og klöppuðu og um kvöldið skiptust þau á um að halda utan um hana þar sem þau sátu fyrir framan sjónvarpið. Ég minntist á það við hana að foreldrarnir væru aldeilis glaðir að sjá hana en hún yppti bara öxlum þar sem hún skildi ekki undrun mína.

Ég minnist þess ekki að mamma hafi sýnt væntumþykju með kossi eða knúsi en hún gerði það með því að gefa manni eitthvað til dæmis föt og sagði svo kannski þú dirfist að haga þér svona og ég er nýbúin að gefa þér buxur. Mynd sem ég sá eitt sinn af mér 5 ára sitjandi þversum yfir hné mömmu, ég með beint bak og hendur í skauti og mamma með hendur niður með síðum. Ég hefði alltaf haldið utan um barnið mitt eða barnabarn. Mamma er dáin fyrir nokkrum árum og ég hafði mig aldrei í að ræða þetta við hana meðan hún lifði, það hefði bara komið henni í uppnám og ekki skilað neinu. Finnst þér að ég ætti að reyna að hætta að endurupplifa æskuna á þennan hátt og gleyma þessu eða er þetta algengt að fólk á mínum aldri fari að velta svona hlutum fyrir sér? 

Með bestu þökk,

MK. 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda …
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands.

Sæl

Auðvitað erum við jafn mörg og við erum misjöfn. Sumir foreldrar eru tilfinningaríkari en aðrir, eiga auðveldara með að sýna væntumþykju með orðum, knúsi og kossum. Á meðan aðrir foreldrar eiga erfiðara með það, eða gera minna af því. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. En rannsóknir hafa sýnt að uppeldisaðferðir foreldra skipta miklu máli við mótun sjálfsmynd barnanna. Að þörfum barnanna sé sinnt að öllu leyti eins og líkamlegum þörfum (fæði, klæði, hreinlæti), öryggi (fylgst sé með þeim, ekki skilin eftir ein heima o.þh.), námslegum þörfum (sjá til  þess að barnið mæti í skólann, fylgja eftir námi barnsins síns, t.d. láta það lesa heima o.fl.) og loks að tilfinningalegum þörfum barnsins sé sinnt, að barnið upplifir að það sé elskað og að tekið sé tillit til tilfinninga þess.

Þín lýsing hljómar eins og tilfinningaleg vanræksla að hálfu móður þinnar í þinn garð. En tilfinningaleg vanræksla er þegar foreldrar sinna ekki tilfinningalegum þörfum barna sinna af einhverjum ástæðum. Birtingamyndirnar geta verið á þá leið að foreldrar tala lítið við barnið sitt, sýna barninu nánast enga hlýju eða væntumþykju. Hunsa jafnvel barnið sitt og bregðast ekki við þegar barnið sýnir vanlíðan. Barninu er ekki hrósað af foreldrum og/eða fær enga jákvæða athygli frá foreldrum sínum. Tilfinningaleg vanræksla getur haft þau áhrif á barnið að það upplifir sig minna virði en aðrir og er ekki viss um að foreldrum sínum þyki vænt um sig. Ef uppeldi barns einkennist af tilfinningalegri vanrækslu hefur það veruleg áhrif á sjálfsmynd og líðan barnsins. Lýsing þín að minningar þínar úr æsku hafi áhrif á líðan þína í dag er fullkomlega eðlilegt. Ég myndi eindregið ráðleggja þér að leita þér faglegrar aðstoðar t.d. hjá sálfræðingi og fá aðstoð við að vinna úr þessum minningum. Það er erfitt að ætla sér að gleyma þessu bara og ýta minningunum undir teppi. Alltaf betra að ræða hlutina og spegla með óháðum fagaðila. Gleðilegt að heyra að þú sýnir barnabarni þínu hlýju og sinnir tilfinningalegum þörfum hjá því. Það er greinilega heppið með ömmu.

Gangi þér sem allra best. 

Kveðja, Tinna 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál