Draga vinahittingar og saumaklúbbar úr þér alla orku?

Ragnhildur Bjarkadóttir klínískur sálfræðingur og sérfræðingur í vinnuvernd hjá Auðnast segir að félagsleg heilsa eigi það til að gleymast. Hún segir fólk oftar en ekki með mikið á sinni könnu í áhugamálum og sjálfboðaliðastörfum en gleymir að spyrja sjálft sig hvað raunverulega veitir þeim gleði.

Ragnhildur var gestur í Dagmálum á dögunum. Þar ræddi hún um heilbrigði á vinnustað og mikilvægi þess að huga vel að félagslegri heilsu.

Hvernig róum við okkur og hlöðum batteríin?

„Andstæðan við streitukerfið er sefkerfið okkar, það er mitt uppáhalds kerfi líka hvernig við róum okkur og hlöðum batteríin. Góð tengsl eru alveg ótrúlegur orkugjafi,“ segir Ragnhildur sem í starfi sínu hvetur fólk til að skoða sambönd sín og samskipti við aðra.

Með því að rýna reglulega í tengsl sín við fólk og leggja mat á hvort samböndin sem við myndum séu gefandi eða letjandi getur aðstoðað okkur við að vernda félagslega heilsu. Mikilvægt sé að spyrja sig reglulega hvernig líðan við upplifum í samskiptum við ákveðna einstaklinga eða innan ákveðinna hópa og hvort við fáum aukna orku út úr samskiptunum eða hvort þau ræni okkur orku. 

Mörg okkar föst í skyldutengslum sem draga úr orkunni okkar

Ragnhildur ræðir um hvernig fólk getur æft sig í  að vera meðvitað um sambönd sem eru svokölluð skyldutengsl. Slík tengsl er hægt að skilgreina sem sambönd við ættingja og fjölskyldumeðlimi sem geta stundum reynst okkur erfið. Í þeim aðstæðum er æfingin að brynja sig og passa upp á eigið orkustig með því að vera meðvitaður um kringumstæðurnar.

Einnig segir Ragnhildur það algengt að vinahópar eða vinasambönd úr æsku sem fólk hefur verið í til margra ára geti haft letjandi áhrif á félagslega heilsu margra. Sumir eigi það til að láta sig hafa það að mæta í boð, saumaklúbba eða aðra viðburði á vegum þessa hópa og sinna þeim einungis af vana en ekki vegna þess að það veitir viðkomandi gleði og fyllir á orkutankinn.

„Talandi um vanann. Við erum vanaverur. Og allt í einu komin í vinahóp. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt einstaklinga segjast vera í saumaklúbbi sem þeir eru búnir að vera í síðan í grunnskóla og kvíðir alltaf jafnmikið fyrir því áður en þeir fara þangað. Alltaf búnir með orkuna þegar þeir koma heim,“ lýsir Ragnhildur og veltir því fyrir sér hvort þetta mynstur sé nokkuð að gera félagslegu heilsunni greiða.

Ekki fyrir alla að hittast utan vinnutíma

Aðspurð um hvort orkufrek samskipti utan vinnu geti ekki haft bein áhrif á vinnudaginn segir Ragnhildur að fólk mæti stundum skilningsleysi með það að hafa ekki áhuga á að sækja í viðburði á vegum vinnu eða hittinga sem eiga sér stað utan vinnutíma.

„Við höldum einhvern veginn öll að við viljum hittast eftir vinnu, fara í eitthvað „activity“ saman. Hér þurfum við líka að iðka ákveðið umburðarlyndi fyrir því að sumir eru bara kannski „prívat“ einstaklingar, vilja vinna, ekkert að, en vilja ekki deila félagslífinu með vinnufélögunum.“ 

Fólk er misgott í að aðlagast nýjum aðstæðum

Ragnhildur segir misjafnt hversu fljótt fólk er að tileinka sér vinnustaðamenningu. Á meðan sumir einstaklingar hafa gríðarlega góða og mikla aðlögunarhæfni, komast vel inn í hópinn á nýjum vinnustað strax á fyrstu dögunum þá eru aðrir sem þurfa lengri tíma í að aðlagast nýjum stað. Á vinnustöðum er oft annað tungumálið talað, brandarar og sérstök menning en hún segir þá sem þurfa lengri tíma til að ná þessum þáttum mun líklegri til að verða útundan og einangrast á vinnustaðnum.

„Það er ekki útaf því að þá langi ekki að tilheyra, þeir eru bara hægari að lesa í hvernig eru félagslegu reglurnar hér,“ útskýrir Ragnhildur og segir mikilvægt að samstarfsfélagar sýni þessum einstakling skilning og þolinmæði og jafnvel aðstoði þá við að komast inn í hópinn.

Hvetja fólk til að efla félagslega heilsu og taka samtalið

„Ég hvet til þess og við erum mjög ötul við það inni í Auðnast á vinnustöðunum okkar að hvetja fólk til að efla þessa félagslegu heilsu og hafa hugrekki til þess að taka samtalið.“

Að sögn Ragnhildar á fólk það til að forðast samtöl vegna ótta við að viðkomandi reiðist eða vandræðalegar aðstæður myndist.

„Það þarf ekki að ráðast beint inn í vandann heldur bara gefa til kynna að við séum jafnvel opin að eiga samtalið ef þörf er á.“ 

Brot úr viðtal­inu má sjá í spil­ar­an­um hér að ofan. Dag­mál eru í heild sinni aðgengi­leg fyr­ir áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins en einnig er hægt ger­ast áskrif­andi að vikupassa Dag­mála.

Smelltu á spilarann hér að neðan til að horfa á viðtalið í heild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda