„Ég mun aldrei treysta Konukoti aftur“

Inga Hrönn og Tinna Barkardóttir ræða um fíknivanda í hlaðvarpsþættinum …
Inga Hrönn og Tinna Barkardóttir ræða um fíknivanda í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

Inga Hrönn féll í sumar eftir að hafa verið edrú í dágóðan tíma. Hún segir að Konukot, sem er úrræði fyrir heimilislausar konur, sé hvorki fugl né fiskur eftir að Rauði krossinn hætti að sjá um úrræðið og Rótin tók við því. Hún er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman. 

Hvernig má það vera að börn með hegðunarvanda sem eru kannski nýlega farin að fikta við neyslu hugbreytandi efna séu sett í sama úrræði og hálf fullorðnir einstaklingar sem sitja í gæsluvarðhaldi?

„Ég vil meina að þetta sé vegna þess að það sé litið svo á að þetta sé allt annars flokks fólk og það megi hópa þeim öllum saman,“ segir Inga Hrönn og bætir við:

„Það hefur verið talað um þetta í fjölda ára en ekkert breytist. Börn læra neyslu, læra jafnvel að sprauta sig inni á Stuðlum, eru beitt ofbeldi bæði af öðrum börnum og starfsmönnum. Þetta fengi aldrei að viðgangast ef um annars konar veikindi eða vandamál væri að ræða.“

Ekkert breyst á 15 árum

Inga Hrönn nefnir vinkonu sína sem var þar fyrir fimmtán árum síðan og staðan sé nákvæmlega sú sama núna og hún var þá. Hún segir að erfitt er að fá foreldra barna til að stíga fram og segja frá því en eins og við vitum er fólk uppfullt af skömm.

Margt jákvætt hefur breyst í málefnum skaðaminnkunar og hefur SÁÁ meðal annars tekið þá stefnu inn í sitt starf hvað varðar viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn.

„Fyrir nokkrum árum var fólki refsað fyrir að nota efni sem höfðu engin áhrif á viðhaldsmeðferðina sem slíka en sú stefna er ekki lengur í gildi, sem betur fer.“

Rekin út úr Konukoti

Þær segja að margt hafi breyst hjá konum í neyslu, heimilislausum konum. Þær segja að eftir að Rótin hafi tekið við Konukoti hafi það úrræði farið út um þúfur. Inga Hrönn segir frá reynslu sinni þegar hún þurfti að leita í Konukot í sumar og þar mætti henni slæmt viðmót.

„Ég var í Konukoti meira og minna í tvö ár þegar ég var á götunni 2019-2021 og alltaf tók á móti manni hlýja og kærleikur, þá sá Rauði krossinn um úrræðið. Í dag er raunin allt önnur, því miður.

Ég man að ég bað eina starfskonu að koma með mér niður í örugga rýmið og hún sagði: „oj nei, ég meika ekki að sjá fólk sprauta sig“. Það er ekki lengur öryggi að leita þangað.“

Hún segir að þegar Rauði krossinn hafi séð um Konukot hafi verið borin virðing fyrir húsinu, reglum og þær gerðu sér grein fyrir að konur sem leituðu í Konukot væru á slæmum stað. Þær væru í  ójafnvægi, sem þær mættu af skilningi. Núna er engin virðing borin fyrir neinu, enginn agi, konum hent út og neysla í öllu húsinu, ekki bara í örugga rýminu. 

„Ég leitaði í Konukot þegar ég féll og var komin á götuna í sumar. Ég var að fara að sofa þegar það kemur starfskona til mín milli eitt og tvö um nóttina og segir að ég þurfi að fara, ég megi ekki vera þarna því að ég eigi lögheimili. Ég spyr hana hvað ég eigi að gera og hún sagði mér að ég gæti farið í bílakjallara. Ég þurfti að vera úti í garði, á bekk. Sumir starfsmenn vildu ekki að ég væri þar heldur og voru með stæla. Ég fékk varla að taka dótið mitt, var bara hent út,“ segir Inga Hrönn. 

Margar konur í sömu stöðu segja sömu sögu af Konukoti eftir að Rótin tók við og er sárt að sjá svona gott starf fara fyrir lítið.

„Ég mun aldrei treysta Konukoti aftur. Þetta var staður sem ég talaði alltaf svo fallega um og bjargaði lífi mínu,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda