Gulla Rún missti báða syni sína

Guðlaug Rún Gísladóttir missti báða syni sína og vill nú …
Guðlaug Rún Gísladóttir missti báða syni sína og vill nú aðstoða fólk í sorgarferli.

Guðlaug Rún Gísladóttir, Gulla Rún, meistaranemi í félagsráðgjöf og tveggja barna móðir er gestur í hlaðvarpi Lydíu Óskar Ómarsdóttur og Gullu Bjarna Í alvöru talað. Líf Gullu Rúnar hefur langt frá því verið dans á rósum eftir að hún missti báða syni sína. Dagur Freyr lést sex dögum eftir fæðingu árið 2001 og Hlynur Snær lést af slysförum þegar hann var 16 ára gamall 2018. Þrátt fyrir þessa lífsreynslu og alla sorgina sem henni fylgir hefur hún náð að halda áfram með líf sitt og í dag vill hún að hennar lífsreynsla nýtist öðrum. 

Dagur Freyr fæddist þann 10. ágúst 2001 þegar Gulla Rún var komin 26 vikur á leið. Sonurinn, sem fékk nafnið Dagur Freyr, hlaut heilablæðingu í fæðingu. Gullu Rún og manninum hennar var ráðlagt að leyfa honum að fara - að slökkt yrði á öndunarvélinni sem hann var bundinn við. 

„Okkur var sagt að hann kæmist aldrei úr öndunarvél. Að hann væri ekki kvalinn núna en ef svo ólíklega vildi til að hann myndi lifa þá myndi hann upplifa mikinn sársauka. Það kom aldrei neinn vafi upp hjá okkur. En jafnframt er þetta mjög erfið ákvörðun fyrir foreldri að taka. Að þurfa að ákveða hvort barnið þitt á að lifa eða ekki,“ segir Gulla Rún.

Gulla Rún segir að það hafi verið þungt að fara barnlaus heim af fæðingardeild, ekki síst þar sem þau foreldrarnir voru búin að mála herbergið og gera allt klárt fyrir komu drengsins. Á sama tíma var faðir hennar í lífshættu og barðist fyrir lífi sinu á Landsspítalanum. Hann lést þremur vikum eftir að Dagur kvaddi.

„Sama dag og Dagur var jarðaður hringir mamma í mig og segir mér að pabbi sé vaknaður og ég geti hitt hann ef ég treysti mér til þess. Þegar ég er á leiðinni inn til pabba segir læknirinn við mig að hann megi ekki vita að barn hennar sé fætt og dáið. Það var rosalega erfitt að þykjast vera enn ófrísk og láta eins og það væri allt í lagi hjá mér. Það var alls ekki allt í lagi hjá mér,“ segir Gulla Rún. 

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna stýra hlaðvarpinu Í alvöru …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna stýra hlaðvarpinu Í alvöru talað. Lydía er sál­fræðing­ur hjá Samkennd heilsusetri, jóga­kenn­ari og fyrirlesari. Gulla er förðun­ar­fræðing­ur, áhuga­leik­ari og tísku­áhuga­kona mik­il og starfar sem versl­un­ar­stjóri í Col­lecti­ons á Hafn­ar­torgi.

Lést 16 ára gamall 

Yngri sonur Gullu Rúnar, Hlynur Snær, fæddist 11. ágúst 2002. Móðir hans lýsir honum ljúfum og góðum strák sem dreifði kærleika og gleði til fólksins í kringum sig. 

Þann 26. október 2018, þegar Hlynur Snær var 16 ára, snerist líf fjölskyldunnar á hvolf. Stærsta martröð foreldra raungerðist þegar Gulla Rún fór fyrr heim úr vinnunni því henni leið illa í maganum. Þar kom hún að syni sínum látnum. 

„Frá því að ég kem inn í húsið þá er eins og mér hafi verið stjórnað, eftir á að hyggja. Ég fór alltaf úr yfirhöfn og skóm í forstofunni nema þennan dag. Þá fór ég beint inn í hús, henti veskinu mínu á eldhúsborðið og kallaði beint á Hlyn. Hann var yfirleitt inni hjá sér með heyrnartól á þessum tíma svo það var ekki óeðlilegt að hann skyldi ekki svara. Þennan dag stakk ég beint upp í herbergið hans,“ segir Gulla Rún og lýsir því ítarlega hvernig atburðarrásin hafi verið. 

Sjúkraflutningafólk og lögreglufólk kom á staðinn ásamt presti og manneskju frá Rauða krossinum sem sá um áfallahjálp. Eftir að búið var að flytja drenginn þeirra í burtu frá heimilinu sátu þau tvö eftir í húsinu.

„Þetta var galið og þetta má ekki gerast. Þarna hefðum við haft tækifæri til þess að fara á eftir honum, ef við hefðum viljað það. Í svona aðstæðum hugsar fólk ekki skýrt og það á ekki að vera eitt,“ segir Gulla Rún. 

Léttir að Hlynur hafi ekki framið sjálfsvíg 

Hún segir frá því að fyrst hafi verið talið að Hlynur hefði framið sjálfsvíg en eftir rannsókn lögreglu kom í ljós að þetta varð slys sem var rakið til einhvers sem hann sá í forriti í síma sínum.

„Það létti ferlið alveg svakalega fyrir okkur að fá þær upplýsingar. Ég fór hratt í sjálfsásakanir. Af hverju sá ég ekki að honum liði illa? Svo það var gott að fá að vita að það var ekki þannig. Hann vildi ekki taka líf sitt,“ segir hún og bætir því við að það sé mikilvægt að lögreglurannsókn fari alltaf fram þegar skyndileg andlát eiga sér stað. 

Haldin var kveðjuathöfn í kapellu kvöldið sem Hlynur lést. Þá höfðu foreldrarnir og aðrir aðstandendur tækifæri til þess að koma saman og kveðja. Gulla Rún segir að þetta hafi allt verið ótrúlega óraunverulegt og að hún hafi ekki hugsað skýrt. Til dæmis kom það henni til hugar að mögulega væri Hlynur að hrekkja foreldra sína því þetta var í kringum hrekkjavökuna.

„Í kveðjuathöfninni fengum við foreldrarnir að vera ein með Hlyni. Ég snerti kinn hans og fannst hún ekki vera köld. Spurði prestinn hvort hann væri á hitateppi því hann væri ekki kaldur. Prestgreyið kom í loftköstum og sagði henni svo að hann væri jú kaldur. Þá var ég bara svona dofin. Ég fann ekki kuldann.“

Voru skilin ein eftir án stuðnings 

Gulla Rún er ósátt með það hvað tók við eftir kveðjuathöfnina. Hún spurði prestinn hvað tæki nú við og presturinn svaraði því að nú væri helgarfrí og því færu þau bara heim en mættu hafa samband ef þeim liði illa. Það komu aðstandendur heim með þeim eftir athöfnina en svo voru þau skilin eftir ein og án stuðnings alla nóttina.

„Sem betur fer datt manninum mínum í hug að hringa í annan prest sem þau þekktu. Við hringdum um kvöldið og báðum hann um að taka okkur að sér. Hann spurði hvort við vildum að hann kæmi þá um kvöldið en við töldum það ekki þurfa,“ segir hún. 

Þau sáu eftir á að þau hefðu þurft meiri stuðning því þau sváfu ekki dúr alla nóttina og þangað til presturinn hringdi aftur klukkan níu um morguninn. Þá aðstoðaði hann þau við að fá lækni heim sem gaf þeim lyf til þess að geta sofið.

„Fólk í þessari stöðu getur ekki hugsað um sig sjálft. Það getur ekki borðað, getur ekki sofið og sinnt sínum daglegu þörfum. Eftir þetta passaði presturinn að við værum aldrei ein.“

Gulla Rún er ósátt við vinnubrögð kerfisins og segir að það þurfi að hlúa betur að foreldrum í sorg. Hún bendir á að ef barn deyr heima hjá sér en ekki á spítala þá fái foreldrar minni stuðning. 

„Fólk á ekki að þurfa að hugsa út í þessa hluti sjálft og þurfa að treysta á einstaklingsframtak. Við vorum heppin að hitta á góðan prest og lækni sem bauðst til að taka okkur að sér. En hvað með þá sem eru ekki svo heppnir? Það þarf að vera eitthvað kerfi til staðar sem grípur alla í þessari stöðu.“

Gulla Rún segist halda að henni sé ætlað að gera eitthvað við reynslu sína. Hún er núna í meistaranámi í félagsráðgjöf og hennar draumur er að það verði stofnað teymi félagsráðgjafa sem er kallað til ef það verður andlát í heimahúsi. Að það taki teymi við aðstandendum sem þau hjónin hefðu viljað að hefði tekið utan um þau þegar elsku Hlynur þeirra kvaddi þennan heim.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda