Teipaður niður í kjallara unglingaheimilis

Kristján Halldór Jensson segir frá ótrúlegu lífshlaupi sínu í samtali við Kristínu Sif Björgvinsdóttur í Dagmálum.

Kristján Halldór lifði og hrærðist í undirheimunum frá barnsaldri, bjó á götunni sem barn, fór fljótt að neyta harðra fíkniefna og komst ítrekað í kast við lögin. Allt þar til hann náði loks að snúa við blaðinu fyrir tæplega fimm árum eftir langa þrautagöngu. Hann segist hafa farið í gegnum marga botna í lífinu en saga hans er bæði átakanleg og margslungin og litast af miklum harmleik og kærleika í senn. Nú helgar hann líf sitt því að aðstoða aðra í viðkvæmri stöðu við að innleiða sömu lífsbreytingu og honum hefur tekist að gera.

Lærði að hata á Breiðavík

Kristján opnar sig um gróft ofbeldi sem hann varð fyrir í barnæsku af hálfu starfsfólks unglingaheimila sem hann var vistaður á. Að hans sögn voru barsmíðarnar sem hann varð fyrir hvati til þess að hann fór sjálfur að beita ofbeldi og stunda slagsmál. 

Kristján var aðeins ellefu ára gamall þegar hann var sendur í vistun á unglingaheimilið Breiðavík á Vestfjörðum. Þar dvaldi hann í um það bil tvö ár ásamt öðrum drengjum sem þangað voru sendir og taldir vera villingar. Hann var langyngstur þeirra sem þar voru vistaðir og að sögn Kristjáns var mikilli hörku beitt á Breiðavík til að aga drengina.

„Það var allur andskotinn sem maður komst í tæri við,“ segir Kristján spurður að því hvort að ofbeldi og fíkniefnaneysla hafi viðgengist á unglingaheimilinu.

„Það var skap í þessum bónda og maður passaði sig að vera ekki fyrir honum og maður lærði alveg að hata þarna,“ segir Kristján sem upplifði oft mikla hræðslutilfinningunni við veru sína á Breiðuvík.

Svaf í stigagöngum og stal sér til matar

Kristján segist oft hafa hugsað um þau dapurlegu örlög sem hann mætti í lífinu á þeim tíma sem hann var barnsungur og heimilislaus. Hann aðhafðist í þvottageymslum og stigagöngum og lagðist einnig oft til hvílu í skrifstofuhúsnæði við Kringluna.

„Auðvitað hugsaði ég um það. Ég hringdi oft í móður mína til þess að hún vissi að ég var á lífi. Bæði þau vildu ekki og ég vildi ekki að það yrði auglýst eftir mér,“ segir Kristján og viðurkennir að hafa borið mikla reiði í brjósti gagnvart foreldrum sínum á þessum tíma. 

„Ég bjó í þvottageymslum og inni á stigagöngum. Svaf oft í stóru blokkinni sem er eins og „fokkjúputti“ hjá Kringlunni. Ég svaf sem sagt í turninum þar sem eru skrifstofur,“ segir hann og lýsir því hvernig honum tókst að koma sér inn í bygginguna trekk í trekk án þess að skilja eftir sig ummerki. 

„Ég hafði komið um daginn tekið lyftuna upp og tekið úr lás út á svalir og opnað þannig að ég gat skriðið yfir og inn um gluggann við hliðina á brunastiganum. Og þá fór ég og stal mér mat í Kringlunni seinnipartinn. Fór síðan yfir þegar skrifstofan lokaði. Svo svaf ég í sófanum á skrifstofunni þangað til ég vaknaði við umgang í byggingunni og þá gat ég farið aftur út um gluggann niður brunastigann.“

Handjárnuðu hann og reyndu að hræða hann til hlýðni

Kristján segir móður sína og stjúpföður hafa verið ráðalaus og hafi ekki ráðið við þessar aðstæður. Hann segist ekki áfellast þau fyrir það í dag en á þeim tíma hafi það verið sárt. Faðir hans var búsettur fyrir norðan og gerði sér ekki grein fyrir ástandinu, enda hafi Kristján alltaf sagt það sem hann vildi heyra; að það væri allt í lagi.

Hann minnist þess þegar hann var á þrettánda aldursári og foreldrar hans orðnir algerlega ráðþrota og báðu hann um að koma heim til að ræða málin. Hann hlýddi því en þegar hann bar að garði heimilis móður sinnar og stjúpföður tók lögreglan á móti honum. 

„Þá vissi móðir mín og stjúppabbi ekkert hvað þau ættu að gera við mig. Þá kemur lögreglan og tekur mig. Ég er handjárnaður og það er haldið á mér út í bíl. Þarna er bara verið að reyna að „scare me straight“ einhvern veginn. Sem virkaði bara alls ekki. Þegar þú ert að hrista hlýðni í þrettán ára krakka og öskra á hann. Það var ekki að virka á mig,“ útskýrir Kristján sem fór í lögreglufylgd á unglingaheimilið Efstasund.

„Það er farið með mig niður í kjallarann þar og ég er teipaður niður allur. Mamma og þau þurfa að skilja mig þarna eftir og þar upplifði ég mikla höfnunartilfinningu. Að vera skilinn þarna eftir,“ segir hann. 

„Í þessa daga voru þetta bara tækin og tólin sem þóttu „legit“. Í dag myndi engum detta í hug að koma svona fram við barn.“  

Brot úr viðtal­inu má sjá í spil­ar­an­um hér að ofan. Dag­mál eru í heild sinni aðgengi­leg fyr­ir áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins en einnig er hægt ger­ast áskrif­andi að vikupassa Dag­mála.

Smelltu hér til að horfa á Dag­mál

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda