Er von fyrir sambönd sem myndast eftir fimmtugt?

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi skrifar um ástarsambönd miðaldra fólks í nýjasta pistli sínum á Smartlandi. 


Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að það sé erfiðara fyrir þá sem komnir eru yfir miðjan aldur að mynda ástarsamband sem endist um ókomin ár. Ég heyri mikið talað um hversu erfitt það sé að mynda sambönd á þessum gasalega virðingaverða aldri.

Mín skoðun er samt sú að það ætti jafnvel að geta verið auðveldara að sumu leiti ef vel er að gáð.

Á miðjum aldri (50-60 ára) erum við komin með lífsreynslu og horfum á ást og sambönd með öðrum hætti en við gerðum þegar við vorum um tvítugt.

Við erum fullmótaðar manneskjur og vitum yfirleitt hvað það er sem við viljum sem ætti að auðvelda farsældar leiðina og valda því að færri árekstrar ættu að eiga sér stað. Það er að segja ef þroski okkar og samskiptahæfni hefur vaxið í samræmi við aldurinn.

Yfirleitt er það nú þannig að tilfinningalegur þroski okkar stóreflst með árunum og það eitt útaf fyrir sig hefur mjög mikil áhrif á það hvernig sambönd ganga.

Fyrri reynsla, bæði jákvæð og neikvæð, gefur af sér meiri samkennd, skilning og þolinmæði beggja aðila sem svo sannarlega er þörf á þegar tveir aðilar úr ólíku umhverfi koma saman og mynda samband. Par sem býr yfir tilfinningagreind býður yfirleitt upp á betri samskipti og leysir átök með samtali og samkennd í stað togstreitu og rifrilda.

Flestir búnir að finna sig

Einstaklingar á miðjum aldri eru yfirleitt búnir að fara í gegnum nokkur tímabil sjálfsleitar og uppgötvunar og eru í flestum tilfellum búnir að móta sig bæði persónulega og atvinnulega. Það gefur þeim betri sýn á hvað þeir vilja fá út úr sambandi og ekki síst hvað þeir geta gefið sjálfir inn í sambandið þannig að sambandið eflist og dafni. Ég held að við höfum fæst hugsað út í okkar eigin persónulegan þroska þegar við vorum yngri og líklega aldrei hugað að því að elska okkur sjálf á réttan hátt heldur.

Á miðjum aldri er parið líklega farið að huga betur að heilsu sinni og jafnvel setja hana í forgang. Þau eiga oft sameiginleg áhugamál eins og ræktina, golfið, skíðin, gönguferðir, matarvenjur og heimilislífið og fjölskylduna og ef þeir velja sér að njóta lífsins með svipuðum hætti þá færir það parið betur saman og tryggir þeim á sama tíma betri heilsu.

Eiga fjármálin að vera aðskilin?

Svo eru það blessuð fjármálin sem eru nú oft orsök skilnaða sérstaklega hjá unga fólkinu. En á miðjum aldri erum við yfirleitt orðin færari í að stjórna fjármálum okkar og búum oftast nær við meiri stöðugleika í fjármálunum sem aftur tekur í burtu áhyggjurnar og togstreituna sem peningamálin geta skapað.

Hinsvegar þarf það að vera á hreinu, þegar parið ákveður að fara í sambúð, hvernig fjármálum á milli þeirra verði hagað, og hvort fjármálin verði sameiginleg eða kannski algerlega aðskilin.

Lífsgildin eru yfirleitt á hreinu hjá þeim sem eldri eru og því ætti að vera auðvelt að athuga hvort þau passi saman (mjög mikilvægt að svo sé).

Meira frelsi

Í næst síðasta lagi þá hafa einstaklingar á þessum aldri oftar en ekki með meira frelsi og sjálfstæði en þeir sem yngri eru ásamt því að sveigjanleiki í starfi er oft orðinn meiri. Börnin eru einnig orðin fullorðin í flestum tilfellum og flogin að heiman, eða að minnsta kosti orðin fleyg.

Þetta gefur parinu tækifæri á því að stunda oftar sameiginleg áhugamál, ástríður og langanir, og auðveldara verður að nýta sér frelsið til að kveikja á ástríðunum á öllum frjálsum stundum sem gefast, og búa þannig til ævintýraríkt líf saman.

Í síðasta lagi þá er ákveðin fegurð fólgin í því að fá að eldast saman og fá að telja gráu hárin og hrukkurnar á hvort öðru, ásamt því að það er líklegt að með árunum aukist sameiginlegur reynsluheimur parsins á tímum góðra og einnig erfiðra verkefna, en allt getur þetta skapað aukna virðingu, þakklæti og aukin tengsl parsins.

Þannig að ég tel að seinni sambönd ættu semsagt að hafa jafnvel meiri möguleika en þau fyrri ef við kjósum að velja maka samkvæmt sameiginlegum lífsgildum ásamt dassi af ást og umburðarlyndi sem við höfum auðvitað öðlast í ómældu magni á langri göngu okkar um lendur móður jarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda