Samskipti skipta öllu máli í hvaða sambandi sem er. Sérfræðingar eru sammála um að sumt á maður bara ekki að segja ef maður ætlar sér að vera góður maki. Tímaritið The Stylist tók saman þetta helsta sem oft ber á góma:
„Það að gera lítið úr útliti makans getur verið eitt form af andlegu ofbeldi,“ segir geðlæknirinn Gisele Caseiras. „Margir glíma við lágt sjálfsmat og svona athugasemdir geta gert illt verra. Þetta virkar eins og árás á kerfið og grefur undan traust og öryggi. Reynið að ráðast ekki á útlit fólks.“
„Ef þeim sárnar eitthvað og láta í ljós vanlíðan þá skulum við reyna að forðast að skella skuldinni aftur á þau til þess að firra okkur ábyrgð. Við þurfum frekar að viðurkenna tilfinningar þeirra og læra að taka ábyrgð á eigin framkomu jafnvel þótt okkur hafi staðið eitt gott til.“ Sé makinn stöðugt að yfirfæra sökina á hinn og mála sig sem fórnarlamb þá gæti það verið vísbending um ofbeldisfulla hegðun.
„Forðist það eins og heitan eldinn að gera lítið úr kynþokka makans og hvernig makinn er sem kynvera, jafnvel þótt það sé í gríni. Sumir gætu átt það til að minna á að makinn sé ekki 26 ára lengur og ætti því að róa sig. Það gæti sært mjög tilfinningar makans. Ef maður getur ekki sagt neitt jákvætt og uppörvandi og hugsar ekki lengur þannig um makann, þá ætti maður að endurskoða sambandið.“
„Að kalla fólki illum nöfnum er aldrei til góða. Það getur brotið allt traust og skaðar sjálfsmat fólks. Það getur gert allt illt verra og gert fólki erfitt um vik að leysa úr ágreiningi. Í stað þess að móðga þá skaltu taka þér tíma til að slaka á og tjá tilfinningar þínar með yfirveguðum hætti.“
„Það má ekki setja fram einhverja úrslitakosti eða hótanir eins og til dæmis að hóta sambandsslitum eða segja „ef þú elskar mig þá þarftu að...“ Slíkar setningar eru stjórnunartæki og leysa engin vandamál.“
Maður á alltaf að forðast allar alhæfingar í samskiptum við makann. Eins og til dæmis: „Þú þrífur aldrei eftir þig“ eða „þú nennir aldrei neinu“.
Í stað þess að vera með svona afgerandi alhæfingar þá er betra að beina athyglinni á hvernig þér líður eins og til dæmis: „Mér líður eins og þér sé sama um heimilið þegar þú þrífur ekki og það særir mig.“
„Enginn vill fá reglulegar upprifjanir á allt sem hefur farið úrskeiðis. Beinið aðeins sjónum að því sem er í gangi núna. Ekki fyrri tíð.“
„Það er agressív hegðun að tala ekki við maka sinn og er ekki heilbrigð leið til þess að leysa úr ágreiningi. Ef þú þarft svigrúm þá skaltu segja það og taka fram að þú komir til baka til þess að ræða málin. Ekki bara draga þig í hlé án þess að makinn viti hvað er í gangi.“
Að segja einhverjum að róa sig eða að þeir séu að gera of mikið mál úr einhverju getur virkað eins og þú sért að gera lítið úr tilfinningum þeirra. Þá getur þeim liðið eins og þeir njóti ekki stuðnings eða eins og enginn heyri hvað þeir eru að segja. Þeir gætu fjarlægst þig í kjölfarið og liðið eins og þeir geti ekki verið þeir sjálfir í kringum þig.
Að skilyrða ástina er ákveðið form af stjórnun og tilfinnignalegu ofbeldi. Það er heilbrigt að setja mörk og óheilbrigt að ætlast til þess að maki geri allt sem þú ætlast til til þess að sanna ást sína.