Líf söng- og útvarpskonunnar Ernu Hrannar Ólafsdóttur hefur verið allt annað en beinn og breiður vegur. Erna Hrönn var gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum á dögunum þar sem hún opnaði sig um ýmsa erfiðleika og áföll sem á vegi lífsbrautar hennar hafa verið.
„Ég þurfti að taka á nauðgunarmáli sem ég hafði kaffært og það var erfitt að þurfa að grafa það aftur upp. Miðað við viðbrögð gerandans og hótanir þá endaði ég á að fara í dómsmál,“ segir Erna Hrönn sem ákvað að fara á fullt í sjálfsvinnu eftir að hún örmagnaðist af langvarandi streitu og fór í kulnun fyrir um fjórum árum síðan.
Hluti af sjálfsvinnu hennar og bataferli var að gera upp kynferðisofbeldi sem hún var beitt á árum áður og hafði skilið stórt sár eftir á sál hennar.
„Ég hafði enga sönnunarbyrði því það var svo langt frá atvikinu liðið. Ég lenti í erfiðleikum í dómskerfinu og það var svo margt sem ég gat gagnrýnt eftir á út frá því hvernig á mínum málum var tekið,“ lýsir Erna Hrönn sem loksins hafði fengið þrótt til að skila skömminni til gerandans en fékk ekki sanngjarna dómsniðurstöðu.
„Ég fékk kannski ekki niðurstöðuna sem ég hefði viljað en þá gat ég samt fyrir sjálfa mig lokað einhverri hurð.“
Erna Hrönn er gagnrýnin á dómskerfið og segir farir sínar ekki sléttar af vinnubrögðum þess.
„Það hefði mátt vinna þetta betur,“ segir hún og ákvað í kjölfar þeirrar reynslu sem hún upplifði af störfum dómkerfisins að vera öðrum víti til varnaðar. Í samráði við lögfræðing ákvað Erna Hrönn að skrifa ítarlega skýrslu um það sem betur hefði mátt fara í hennar málsmeðferð með það fyrir augum að sporna við að önnur fórnarlömb kynferðisofbeldis, fórnarlömb framtíðarinnar, myndu ekki upplifa sömu slæmu vinnubrögðin og hún.
„Það þarf að vanda sig í svona málum því það gerir þetta enginn að gamni sínu. Það gerir þetta enginn bara af því bara eða af því að þú ert að spinna eitthvað upp.“
„Ég þurfti að gera þetta og þetta er alveg stór hluti af mínu bataferli. Þú veist, að fara til baka í alla þessa erfiðu reynslu. Og kannski gagnvart sjálfri mér líka því ég tók bara alla sökina á mig sjálfa, sem ég hefði aldrei átt að gera. Fyrstu viðbrögð þegar að þetta gerist voru á þá leið að ég hugsaði: „þú ert bara búin að mála þig út í horn“. Líkaminn bregst fáránlega illa við en það er eitthvað sem við þurfum ekkert að fara kafa neitt djúpt í hér en í grunninn tók ég bara á mig sökina og kenndi sjálfri mér um,“ segir Erna Hrönn.
Eftir að hafa gengið í gegnum erfitt málaferli þar sem niðurstaðan var henni ekki í hag segist Erna Hrönn ekki sjá eftir því að hafa farið með mál sitt fyrir dómstóla. Það hafi hún þurft að gera til að sættast við sjálfa sig og skila skömminni. Enda viti hún það í sínu hjarta hvar skömmin á heima.
„Með því að fara í gegnum þetta ferli frá A-Ö þá gerði ég það fyrir sjálfa mig bara til að geta fyrirgefið sjálfri mér með að hafa gengið á mín eigin mörk með því að gera þetta svona og vera ósanngjörn gangvart sjálfri mér.“