Theodor Francis Birgisson, klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, skrifar um brotið traust í samböndum í nýjum pistli á Smartlandi.
Í uppbyggingu góðs parsambands er gagnkvæmt traust einn af mikilvægustu efnisþáttunum. Traust veitir nauðsynlegt öryggi fyrir báða aðila og í mótvindi er traust ein mikilvægasta orkulind sambandsins. Þegar traust hins vegar brotnar, og annar aðilinn upplifir sig svikinn, getur það haft djúpstæð áhrif á báða aðila sambandsins. Hvað gerist þegar traust hefur verið brotið, og hvernig er hægt að byggja það aftur upp? Ég hef í vinnu minni með pörum ítrekað setið með einstaklingum sem hafa staðið frammi fyrir þessum erfiðu áskorunum. Í þessari grein skoða ég hvernig traust brotnar, hvernig það hefur áhrif á sambandið og hvaða aðferðir og nálganir eru hægt að nota til að endurbyggja brotið traust.
Traust getur verið brotið á margvíslegan hátt. Það getur verið vegna óheiðarleika, svika, vanrækslu eða ósamkomulags um mikilvæg málefni í sambandinu. Þessi brot geta verið ómeðvituð eða meðvituð og jafnvel skipulögð, en óháð því hvernig þau verða til hafa þau öll alvarlegar afleiðingar fyrir tilfinningalegt öryggi einstaklinga í sambandinu. Brotið traust orsakar nánast alltaf djúpan tilfinningalegan sársauka og gjarnan yfirþyrmandi ótta við að ekki sé hægt að endurreisa sambandið.
Þegar svona er komið í sambandinu er eitt af því allra mikilvægasta sem gert er að viðurkenna brotið og taka fulla ábyrgð. Það að viðurkenna ábyrgð sína, ekki aðeins fyrir hlutverk sitt í brotinu heldur einnig hvernig það hefur áhrif á hinn aðilann, er undirstaða þess að hægt sé að byrja að byggja upp traust á sambandinu á nýjan hátt.
Þegar traust hefur verið brotið er afar algengt að sá sem bregst maka sínum reynir hvað hann eða hún getur til að forðast alla umræðu varðandi brotið. Það gerist líka stundum að sá sem brotið er gegn reynir að forðast umræðuna en það er þó óalgengara. Í báðum tilfellum er samt sem áður um að ræða ákveðin varnarviðbrögð, enda fáir sem sjá eitthvert skemmtanagildi í erfiðum og sársaukafullum samræðum. Það að ræða ekki um málið er hins vegar svo gott sem óbrigðul leið til að eyðileggja sambandið. Það verður að fara í gegnum þessar erfiðu samræður hvað sem okkur finnst um það. Heiðarlegar, opnar og einlægar samræður verða að fá að eiga sér stað og það tekur tíma. Þetta er ekki klárað á korteri. Í þessum samræðum þarf að ræða á skýran og einlægan hátt hvað gerðist, hverjar afleiðingarnar eru og hvernig þetta hefur áhrif á tilfinningar beggja aðila. Þegar fólki tekst að taka þessi samtöl, sem oft og tíðum eiga sér stað í viðtalsherbergi hjá reyndum þerapista, geta þau verið mjög áhrifafrík. Það sem skiptir máli er ekki aðeins að segja það sem við þurfum að segja heldur einnig að hlustað sé með samúð og samkennd á báða bóga. Í stuttu máli snýst það um að heyra það sem er verið að segja en ekki álykta eða túlka á versta veg.
Þetta býr til grunngildi í nýrri uppbyggingu trausts þar sem báðir aðilar finna fyrir því að þeir séu séðir og heyrðir og að hvorugur aðilinn sé í árásarham.
Doktorarnir John og Julia Gottman hafa manna mest rannsakað líðan para undanfarna áratugi og sýna rannsóknir þeirra að ábyrgð er lykilatriði í að byggja upp traust. Þegar einstaklingur tekur ábyrgð á eigin hegðun án þess að réttlæta gjörðir sínar eða kenna öðrum um, skapast grundvöllur fyrir því að sambandið lifi af það högg sem það hefur fengið á sig. Þetta krefst þess að við viðurkennum eigin hlutdeild og í því felst einnig iðrun, sem getur hjálpað hinum aðilanum að sjá að við viljum breytast og bæta okkur en erum ekki aðeins af því af illri nauðsyn. Það er ekki nóg að segja „ég ætla að breytast“ þessum orðum þarf að fylgja bæði áætlun um hvað það er sem viðkomandi ætlar að breyta og síðan þurfa gjörðir að vera í takt við loforðin. Þetta verður til þess að makinn sér að það er raunverulegur vilji fyrir breytingum og það gerir báða aðilana öruggari í þessu ferli.
Það er aldrei áhlaupsverk að laga traust, það er í öllum tilfellum langhlaup. Þegar búið er að viðurkenna brotið, búið er að setja fram áætlun um hvað á að breytast og hvernig, getur það verið mjög erfitt tilfinningalegt ferli að byggja upp trúverðugleika. Það sem ég hef séð í mínu starfi er að þegar báðir aðilar eru tilbúnir til að vera þolinmóðir og leyfa ferlinu að þróast, þá getur parið byggt aftur traust. Hvort það tekst eða ekki endurspeglast í hversu mikið báðir aðilar raunverulega vilja breytingar. Þetta er ekki alltaf auðvelt og það koma dagar og tímabil þar sem parið þarf að minna sig á að sambandið er sannarlega þess virði að leggja þetta á sig. Þetta er eina leiðin sem parið getur farið til að fá sambandið aftur í jafnvægi.
Þegar pör nálgast þetta ferli með faglegri hjálp, eru þeir oft betur í stakk búnir til að endurskapa það traust sem var brotið. Þerapistar geta veitt þeim verkfæri og aðferðir til að takast á við þann sársauka sem fylgir brotnu trausti á heildrænan hátt. Í vinnu minni með pörum hef ég séð ótrúlega fallegan ávöxt af þessari vinnu. Í meðferðarvinnu minni styðst ég við aðferð sem kallast Tilfinningaleg nálgun (e. Emotionally Focused Therapy – EFT) sem þróuð var af dr. Sue Johnson. Aðferðin einbeitir sér að því að bæta tilfinningaleg tengsl milli einstaklinga. EFT byggist á hugmyndum um að sterk tilfinningaleg tengsl séu grundvöllur fyrir heilbrigðum samböndum, og að tilfinningalegur stuðningur sé lykillinn að því að takast á við erfiðleika. Meðferðin hjálpar pörum að greina og skilja tilfinningar sínar, bæta samskipti og efla samkennd. Hún einbeitir sér að því að fólk nái að fella niður varnir sínar, skapa öryggi og stuðning á milli para, og styrkja þau í að mæta ótta og áföllum. Margar rannsóknir hafa sýnt að EFT getur leitt til varanlegs bata í sambandinu, aukið traust og bætt tilfinningalega vellíðan hjá báðum aðilum.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodori spurningu HÉR.