Ljónið 23. júlí - 22. ágúst
Elsku Ljónið mitt, þetta verður uppbyggjandi ár sem kennir og sýnir þér að þú hafir miklu meiri hæfileika en þú heldur og þú átt eftir að nýta þér það til að efla og gera líf þitt skemmtilegra.
Febrúarmánuði fylgir sérstakur máttur fyrir þig og í því er svo mikilvægt að þú vitir hver þú ert og hvert þú ert að fara, því þú kemur að U-beygju sem breytir lífinu eða lífsspilunum þér í hag. Þannig að þú finnur hjá þér meiri aga en þú hefur áður fundið og þú verður staðráðinn í að láta lífið gerast á réttan máta. Það versta sem hefur komið fyrir þig framkallar oft það besta sem þú lendir í, svo þegar þú upplifir að þú getir þakkað fyrir það slæma sem fyrir þig hefur komið ertu orðinn sigurvegari.
Þú rifjar upp gamla drauma og sérð að einhverjir þeirra eru að verða að veruleika og þú verður hálfhissa á þeim krafti sem þú færð fyrstu mánuði ársins, svo skoðaðu vel að nýta þér þær gjafir. En mundu að einu skiptin sem orðið árangur kemur á undan orðunum vinna eða erfiði eru í orðabók.
Maímánuður lokar þeim leiðindum sem þér hefur fundist þú hafa verið að takast á við og nýir, bjartari og betri möguleikar opnast í júní og júlí og þá er svo mikilvægt þú hafir það að leiðarljósi að hjálpa þeim sem þurfa á þér að halda.
Það verður svo mikill tilfinningahiti í kringum ástfangin Ljón, það er hreinlega eins og þau ráði sér ekki fyrir kæti og eru þar af leiðandi með þetta extra sem þarf til að fanga til sín ástina. Þú ert segulmögnuð vera og hver einasta fruma í líkama þínum er rafhlaða og laðar það að sér sem þú hugsar um.
Ágústmánuður er kraftmesti mánuður ársins, þar tekur þú góðar ákvarðanir, færð ólíklegasta fólk með þér í lið og talan þrír er sterkt yfir þessu ári hjá þér og táknar hún mikla skemmtun og list og árangur í hverskonar sköpun sem er.
Þetta er ár sem sendir þér gæfu og getu til þess að bregðast rétt við þegar þú þarft og þú gefur orðum þínum meiri mátt til þess að sannfæra þig og aðra, sem hjálpar þér við töluvert miklar lífsstílsbreytingar sem verða í byrjun ársins 2020. Peningar verða í talsvert miklu flæði, en ekki eyða um efni fram heldur safnaðu sjóði, því þá líður þér betur.
Áramótaknús og kossar, Sigga Kling