Sporðdrekinn 23. október - 21. nóvember
Elsku Sporðdrekinn minn, þú ert að fara inn í litríkt ár sem mun leiða þig áfram þangað sem þér líður best. Þetta tengist því sem þú ert að gera og jafnvel líka hvar þú vilt vera, þú getur farið yfir svo stór fjöll á þessu ári því þú stendur upp og tekur þau skref sem þú þarft að taka, óháð því að treysta á nokkurn til að hjálpa þér.
Þú ert svo sterkur þegar þú skilur að það besta sem þú gerir er að stóla á sjálfan þig, því þá margfaldast getan sem þú hefur og allt fer svo miklu betur en ef þú leggur líf þitt eða örlög í hendur annarra.
Þú sérð nýja möguleika birtast upp úr vandamálunum sem hafa verið síðustu mánuði eða þú skynjar að séu yfirvofandi, en þessi vandamál koma nefnilega með lausnina til að láta þér líða betur og geta meira. Þú hefur áhyggjur af allt of mörgu í kringum fjölskyldu þína, en það eina sem þú getur gert til þess að allt gangi vel er að efla sjálfan þig.
Í ástinni þarftu að hafa örugga undirstöðu, einhvern sem hægt er að stóla á og gefur þér jarðtengingu, og ef allt er búið að vera út og suður og í vitleysunni, skaltu loka á þá tengingu líkt og þú sért að henda út sjúkdómi, því þetta er ekki ást. Hinsvegar geturðu spunnið fallegasta vefinn og lokkað til þín þann sem þú átt skilið.
Það mætti segja að 2020 væri ár Sporðdrekans, en ef þér líður illa og lokar sjálfan þig af, þá finnurðu nýjar leiðir til að opna fleiri hurðir og hleypa sólinni inn, en ef þú ert á fullri ferð og lætur ekkert stoppa þig, þá þarftu að muna að þú þarft að sofa, ekki bara hvílast, heldur sofa, það endurnýjar frumurnar þínar og þá læknar líkaminn sig sjálfur.
Þú þarft ekki að syrgja eða sakna, því ef sú tilfinning er að spila með þér, þá er það söknuður eða sorg út af einhverju sem var gleði þín, svo þakkaðu fyrir hana. Þetta ár er tími endurnýjunar og frelsis tilfinninganna og eflingar í sambandi við stöðu eða stétt og þú verður miklu rólegri og hendir kvíðapúkanum út, svo farðu bjartsýnn inn í þetta ár því það gefur þér alla þá birtu sem mögulega er hægt að gefa.
Áramótaknús og kossar, Sigga Kling