Elsku Tvíburinn minn,
það hefur verið rok úr öllum áttum, en það fleygir þér bara áfram eða á nýja staði. Þú hefur staðið þig eins og fjallkonan sjálf. Þótt þig hafi langað að brotna niður og gráta er það ekki valmöguleiki sem þú hefur skoðað eða hleypt að.
Líkami þinn er að styrkjast og þá gerir hugurinn það líka samhliða. Þú verður bjartsýnn fyrir þessum vetri og næstu sex mánuðir sýna svo sannarlega hvaða karakter þú hefur að geyma.
Þú þarft að muna að þú þarft að sofa nóg eða mikið og leyfa þér að vera einum með sjálfum þér, því með því endurbyggist allt.
Þú nennir ekki að gera einhverjar stórfelldar breytingar og það er svo sannarlega allt í lagi, en kláraðu það sem nauðsynlega þarf að klára því þá hvílistu betur og endurnýjar orkuna þína.
Ég dreg fyrir þig spil úr töfrabunkanum og á fyrsta spilinu er talan fimm sem táknar ferðalög og skemmtilegar uppákomur. Neðst á spilinu er skrifað þolinmæði og þó það sé dyggð hefurðu ekki nóg af henni. Ég segi ef þú ert of þolinmóður allt lífið gerist ekki neitt, en núna eru skilaboðin til þín að nýta þér alla þræði í líkamanum og nota þolinmæðina.
Spil númer tvö sem ég dró fyrir þig gefur þér töluna fjóra og talnaspekin segir það tákni vinnu, en gefur þér líka þrjósku og húmor sem þú hefur nú kannski nóg af. Þar er líka mynd af fjölskyldu og fallegu húsi og sú táknmynd segir þér líka að fjölskyldan muni eflast og húsið er tengt markmiðum þínum. Neðst á spilinu stendur svo að þú hafir nú þegar þær undirstöður til að ná þeim árangri sem þarf til að byggja líf þitt upp.
Einfaldaðu lífið, láttu smáatriðin ekki skipta neinu máli, því þau heita einmitt SMÁatriði og þá finnur þú að hamingjan er í hendi þér.
Knús & kossar,
Sigga Kling
Frægir Tvíburar:
Marilyn Monroe, 1. júní
Ingó Veðurguð, tónlistarmaður, 31. maí
Joan Rivers, leikkona, 8. júní
Örn Árnason leikari, 19. júní
Össur Skarphéðinsson stjórnmálamaður, 19. júní
Bjartmar Guðlaugsson, söngvari og snillingur, 13. júní
Sunna Rannveig Davíðsdóttir, bardagakona, 21. júní