Elsku Meyjan mín,
þú elskar fegurð, rólegheit og jafnvægi en líka stuð þegar það á við. Fallegi Venus gefur ykkur sérkennileg völd yfir öðrum því þú ert svo mikið sjarmatröll. Það eina sem getur eyðilagt fyrir þér er reiði og óhugsuð orð.
Þegar fýkur í þig elskan mín skaltu prófa öndunaræfingu, anda hamingjunni inn, anda hamingjunni út allt í kringum þig, allt að tíu sinnum og hugsa bara um andardráttinn. Ekki skrifa neitt í reiði og alls ekki segja hug þinn allann. Því að þó þú sért hreinskilin, þá mega sum orð kyrr liggja því að ef þú hefur ekkert gott að segja, skaltu frekar þegja.
Allur lærdómur, hvort sem það er lífið, skóli, vinna eða að læra af börnunum sínum eða vinum sem eru góð fyrirmynd, munu gera þig heppnari í lífinu. Það hefur svo marg verið að gerast, en þú hefur haft vit á því að leita til þeirra sem geta hjálpað, bæði hinu andlega og líkamlega.
Það er svo gott að hafa þann kost að geta skipt um skoðun ef þér finnst þú hafir ekki tekið rétta ákvörðun. Þetta er valkostur sem er sérstaklega sterkur fyrir þennan mánuð sem er að ganga í garð. Þú skreytir snemma því þú elskar ljós og þú hefur áhrif á aðra því þú ert alltaf smart til fara. Þú hefur í raun allt, svo spilaðu vel og vandlega úr öllu því sem Almættið gaf þér.
Yfirleitt eru Meyjur svo sérstaklega góðar í tungumálum, en íslenska er þeirra fag. Svona ritfær týpa ætti að skrifa stuttur sögur, jafnvel um það sem hefur hent í lífinu eða allavega minningar sem eru svo skemmtilegar. Þú hefur nægan tíma og tími er það merkilegasta sem þér er gefið. Ekki eyða honum, heldur nýttu hann. Þú blessar heimili þitt og gerir það fallegt. Með þessu hefur þú kost á því að breyta um staðsetningu ef þú hefur áhuga á því. Þú þarft að hafa spennandi líf og ef þú opnar augun, sérðu að þú hefur það.
Knús og kossar,
Sigga Kling