Elsku hjartans Bogmaðurinn minn,
þú hefur enga þolinmæði fyrir leiðindum og veist ekkert verra en að láta tímann líða og að láta þér leiðast. Þessi mánuður verður sko alls ekki rólegur, en hann gæti byrjað með blankalogni og engu sérstöku.
Það eina sem þú skynjar er að þú sért að rífast inni í þér, svipað og þegar ég segi: „Þú ert óþolandi Sigga, það er allt svo ömurlegt“, þá heyri ég eins og aðra rödd segja: „Hættu að vorkenna þér, drífðu í þessu strax“ og þá byrja báðar Siggurnar að hlægja.
Það hafa verið töluverðar breytingar hjá þér sem þú gætir að sumu leyti ekki verið ánægður með. Það eina sem þú þarft að gera er að gefa þessu öllu sem er að gerast þolinmæði og þá verður þú ánægðari og ánægðari með breytingarnar, hvort sem það tengist fljótfærni eður ei.
Á eftir logninu kemur stormurinn, og það er þinn stormur. Þú getur feykt þér áfram á undan vindinum, verið sæll og ánægður með húsnæði og starf og fundið á þér að þú ert á réttri leið. Þetta tekur kannski smá tíma, en þú hefur nóg af tíma. Næstu tveir mánuðir færa nær þér svo margt og mikið og þú verður að vera tilbúinn til þess að láta ekkert á þig fá, því það er engin ástæða til.
Í fjármálum finnurðu sniðuga leið til þess að létta þér lífið, ekki treysta öllum fyrir hugsunum þínum, því það er betra að misstíga sig með fótunum en tungunni. Þú skalt líka halda þeim leyndarmálum sem þér er treyst fyrir hjá þér, því sagan segir að þá þjóð veit ef þrír vita.
Þegar nýtt tungl hefur göngu sína þann 14 desember halda þér engin bönd og þú ferð að plana ferðalög, sama hvað hver segir. Ástin er nálægt hjarta þínu, opnaðu fyrir hana og gefðu henni tækifæri ef þú ert á lausu, en ef þú ert það heppinn að hafa ástina í líf þínu skaltu bara ríghalda í hana því þú ert heppinn.
Jólaknús, Sigga Kling
Frægir Bogmenn:
Ingvar E. Sigurðsson, leikari, 22. nóvember
Björgvin Franz Gíslason, leikari, 9. desember
Steindi Jr., grínisti, 9. desember
Bryndís Ásmundsdóttir, leik- og söngkona, 11. desember
Ragnheiður Gröndal, söngkona, 15. desember
Jóhannes Ásbjörnsson á Fabrikkunni, 28. nóvember
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, 30. nóvember