Elsku Bogmaðurinn minn,
lífið þitt hefur verið eins og hvirfilvindar. Þú hugsar; núna er allt að fara að gerast eða núna gerist ekkert hugsarðu jafnvel daginn eftir. Því tímarnir fram undan hjá þér eru eins og sjórinn, annaðhvort er flóð eða fjara. Þegar þetta gerist þá ferðu að hugsa hratt og það er í eðli þínu að vera örhuga. Þú setur þig í gírinn til þess að sigla í gegnum allar öldur sem þér mæta, verður eins og stjarna á brimbretti og sannarlega elskar enginn brimbrettaáhugamaður lygnan sjó.
Þú stefnir á stóra hluti og nýtir þér tækifærin sem fáir eða engir aðrir sjá í kringum þig. Þú kallar til þín fólk, ferð á staði uppfullur af endorfíni og af gleði kappans sem stígur ölduna. Og þótt þér finnist fjármagnið ekki vera nóg til að gera þetta eða hitt, þá kemur það á síðustu metrunum og þú hugsar: „Ég vissi þetta!“
Það eru rétt um það bil tvær vikur þegar viðsnúningurinn og veisluhöldin sem birtast þér á nýju tungli í Sporðdrekanum sem er í kringum þann 12. apríl. Þig mun ekki vanta möguleikana, en ef þér finnst sem þig vanti orkuna þá skaltu muna að orka gefur orku og adrenalínflæði, svo eftir því sem þú ert hreyfanlegri sérðu þettu skýrar.
Talan þrír er ríkjandi yfir þér svo þú verður eins og kameljón, getur breytt um lit eftir hentugleika og aðlagað þig öllu sem gerist. Þetta er líka tala lista og hæfileika sem þú hefur en þér finnast kannski ekki sérlega merkilegir, en þeir eru það.
Knús og kossar,
Sigga Kling