Elsku Meyjan mín.
Þetta tímabil sem þú ert að ganga í gegnum hefur mikla merkingu. Það sýnir þér ljósið og sýnir þér leið sem einfaldar þá hluti sem þú hélst væru erfiðastir. Það er nefnilega stundum þannig að við segjum við okkur sjálf að þegar þessi kafli er búinn í lífi mínu verð ég hamingjusöm. Þegar sá kafli er búinn byrjar bara næsti kafli og eitthvað nýtt eða annað að kljást við. Svo segðu skipanir skýrt við hugsanir þínar, að þú leysir þessi vandamál vel eins og öll önnur og lendir alltaf á báðum fótum.
Þú ert svo sannarlega það merki og sú týpa sem hefur níu líf og það sem hefur sett sig fyrir framan þig og stoppað þig eru hraðahindranir með erfiðum hugsunum sem ekki eiga heima í heilanum þínum. Þess vegna virðist hvert ár sem bætist við ævi þína róa niður vitleysisraddirnar í hausnum og þér líður betur og betur.
Það er mjög magnað og merkilegt fyrir þig að stunda hugleiðslu og orðið þýðir bara að leiða hugann yfir í eitthvað annað og betra. Og þú þarft ekki að gera þetta í excel, frekar gefa þér lengri tíma í baði, nota vanillu, hún róar Meyjuna, og bara anda meðvitað í tvær mínútur tvisvar á dag. Þessir litlu hlutir munu breyta svo miklu fyrir þig ef þú leggur smá á þig að gera þá og þú munt skynja að á þessu tímabili sem þú ert að fara í verða endalok á ýmsu, en það bjarta við það er að það þurfa að verða endalok til að gera upp og byrja á einhverju nýju. Þú hugsar um það sem hefur verið að ergja þig, gerir það upp og sleppir og þá verður til nýtt pláss fyrir bjartari, betri og nýjar tengingar fyrir sálina og hugann. Það er bjart í kringum ástina, en það er vegna þess að þú átt hana skilið.
Knús og kossar,
Sigga Kling